Það fá ekki allir yfirlögregluþjónsfylgd út af spítalanum.
Það fá ekki allir yfirlögregluþjónsfylgd út af spítalanum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
LÖGREGLU- og slökkviliðsmenn vinna oft náið saman á vettvangi og því nauðsynlegt að hvorir þekki til starfa annarra. Á það jafnt við um óbreytta sem yfirmenn.

LÖGREGLU- og slökkviliðsmenn vinna oft náið saman á vettvangi og því nauðsynlegt að hvorir þekki til starfa annarra. Á það jafnt við um óbreytta sem yfirmenn. Til þess að kynnast störfunum innbyrðis hafa Lögreglan í Reykjavík og Slökkviliðið í Reykjavík endurvakið þann sið að láta starfsmenn sína hafa vistaskipti um stund. Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri og Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn riðu á vaðið í gær.

Þar sem vaktin hjá slökkviliðinu var fremur róleg þurfti Geir Jón hvorki að bjarga ketti niður úr tré né búa um sár hjá slösuðum en hann kynnti sér þess í stað m.a. skipulagningu slökkviliðsins, sat námskeið um eitraðar lofttegundir og tók þátt í sjúkraflutningum. Sjúklingarnir tóku honum vel, að sögn Geirs Jóns, og höfðu ekkert á móti því að fá yfirlögregluþjónsfylgd. "Flestir virtust nú kannast eitthvað við mig, ég veit nú ekki af hverju," sagði hann.

Meðal þess sem Jón Viðar kynnti sér hjá Lögreglunni í Reykjavík var skipulag embættisins og búnaður, þ.ám. bryndreki lögreglunnar sem er eini brynvarði lögreglubíllinn á landinu. Bryndrekinn, sem er kallaður "Bryndís", er blessunarlega lítið notaður en er þó til taks ef upp úr sýður. Jón Viðar vonast til að vistaskipti hans og Geirs Jóns verði til þess að hvetja lögreglu- og slökkviliðsmenn til að gera slíkt hið sama.