Guðmundur Bjarni Árnason fæddist á Akranesi 27. mars 1920. Hann lést á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi 16. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Árni Sigurðsson, bóndi í Knarrarnesi, f. 18.4. 1892, d. 29.8. 1972 og Elínborg Eiríksdótttir, húsfreyja í Knarrarnesi, f. 14.11. 1895, d. 30.6. 1984 Systkini hans eru Eiríkur, f. 10.9. 1917, d. 7.8. 2001, Erlendur Guðbjörn, f. 1.6. 1922 og Guðríður Jóna, f. 13.11. 1923.

Guðmundur flutti í Knarrarnes á Mýrum 12. maí 1927 og lifði þar og starfaði þar til hann fór á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi haustið 2001. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Útför Guðmundar Bjarna fer fram frá Borgarneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Frændi minn Guðmundur Bjarni Árnason er látinn. Hann var 7 ára gamall þegar hann flutti frá Akranesi með foreldrum sínum, systkinum, ömmu og afa í eyjuna Knarrarnes á Mýrum. Þar bjó hann allar götur síðan þar til hann flutti á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi.

Ég var ekki gömul þegar ég fór að fara með fjölskyldu minni út í Knarrarnes að heimsækja frændfólkið sem bjó þar. Þangað var og er ekki hægt að komast nema gangandi eða ríðandi á stórstraumsfjöru eða á báti. Oftast vorum við sótt af Guðmundi og bræðrum hans á Blíðfara. Fyrstu árin sem ég fór þangað bar ekki mikið á honum Gvendi, en það var hann kallaður af þeim sem þekktu hann. Hann var náttúrubarn og einfari sem naut samvista við landið sitt fremur en við fólk sem sótti eyjuna heim. Hann þekkti hverja þúfu og hvern stein í eyjunum sínum og fór ófáar ferðir að sækja rekavið og annað sem á fjörurnar rak. Einnig til annarra starfa sem tilheyrðu eyjalífinu og má þar nefna dúntekju, lundaveiðar og eggjatöku.

Hin síðari ár fór Gvendur að njóta þess að vera innan um aðra og var mikill gleðigjafi. Þá hafði hann til dæmis gaman af að segja frá gömlum afrekum í glímunni við náttúruöflin, hvernig þeir bræður drógu björg á ís í til að setja í varnargarðinn þar sem að sjórinn braut mest á landinu. Gvendur minntist líka áranna á Akranesi með bros á vör og fannst gaman að tala um þau.

Hann var mjög barngóður og nutu synir mínir þess að vera nálægt honum og hlusta á hann segja frá, spila eða syngja.

Hann var músíkalskur og spilaði á munnhörpu og vil ég minnast hans í góðra vina hópi syngjandi meðal annars Skorholtsvísurnar, Kátir voru karlar eða spilandi á munnhörpuna.

Það eru forréttindi fyrir mig, Björn, Björn Ólaf og Benedikt Árna að hafa þekkt slíkan mann sem Gvendur í Knarrarnesi var, fyrir það viljum við þakka.

Blessuð sé minning hans.

Ragnheiður Elín

Ragnarsdóttir.