Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, Guðrún Inga Ingólfsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokks, og Jóhann Ársælsson, þingmaður Samfylkingarinnar, fylgjast með umræðum á Alþingi.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, Guðrún Inga Ingólfsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokks, og Jóhann Ársælsson, þingmaður Samfylkingarinnar, fylgjast með umræðum á Alþingi. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞINGMENN stjórnarandstöðunnar gagnrýndu harðlega, í utandagskrárumræðu á Alþingi í gær, áform ríkisstjórnarinnar um að sameina Landsvirkjun, Rafmagnsveitu ríkisins (RARIK) og Orkubú Vestfjarða.

ÞINGMENN stjórnarandstöðunnar gagnrýndu harðlega, í utandagskrárumræðu á Alþingi í gær, áform ríkisstjórnarinnar um að sameina Landsvirkjun, Rafmagnsveitu ríkisins (RARIK) og Orkubú Vestfjarða. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra sagði á hinn bóginn margt mæla með sameiningu fyrirtækjanna. Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, tók fram að þessi mál hefðu ekki verið rædd innan þingflokkanna, þ.m.t. þingflokks framsóknarmanna.

"Þetta snýst um þrennt," sagði Hjálmar. Í fyrsta lagi um viljayfirlýsingu iðnaðarráðherra, fjármálaráðherra, borgarstjórans í Reykjavík og bæjarstjórans á Akureyri um að íslenska ríkið leysi til sín eignarhluta Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Í öðru lagi um fréttatilkynningu iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra um að ríkið sameini Landsvirkjun, RARIK og Orkubú Vestfjarða í eitt fyrirtæki. Og í þriðja lagi um áform ráðherranna um að breyta sameinuðu fyrirtæki í hlutafélag eftir árið 2008.

"Þetta eru róttækar yfirlýsingar," sagði Hjálmar "og fróðlegt verður að sjá hvernig þeim muni reiða af í framtíðinni. Þetta er auðvitað framtíðarmúsík sem á eftir að skoða á öllum vígstöðvum." Til að mynda væri ekki vitað hvernig málinu myndi reiða af innan borgarkerfisins. Þá vakti hann athygli á því að ekki hefði verið samþykkt á flokksþingi Framsóknarflokksins að breyta Landsvirkjun í hlutafélag.

Stefna til framtíðar

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, var málshefjandi umræðunnar. Tók hann fram í upphafi að hann væri fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjórn Landsvirkjunar. Hann óskaði iðnaðarráðherra til hamingju með viljayfirlýsinguna um að ríkið leysti til sín eignarhluta Reykjavíkur og Akureyrar. Sagði hann yfirlýsinguna löngu tímabært skref. "Við í Reykjavíkurlistanum höfum talað fyrir því í bráðum 10 ár og fyrir því eru fjölmargar góðar ástæður." Meðal annars væri þarflaust fyrir Reykjavíkinga að binda 20 milljarða í Landsvirkjun sem nýta mætti til brýnni hagsmunamála fólksins í borginni.

Helgi gerði síðan áform um sameiningu að umtalsefni og sagði þau óljós og furðuleg. "Hér berast fréttir af því að sameina eigi þrjú ríkisfyrirtæki í raforkuiðnaði í stærsta ríkisfyrirtæki Íslandssögunnar með algera einokunarstöðu á þessum markaði," sagði hann.

Helgi sagði að Samfylkingin væri á móti sameiningunni "vegna þess að ekki bara hefði það fyrirtæki yfirburðastöðu á raforkumarkaði heldur ætti það líka grunnnetið sjálft, háspennulínurnar sem öll önnur fyrirtæki á markaðnum verða að keppa við". Hann sagði að við slíkan risa væri illmögulegt fyrir nokkurn að keppa. Þá kom fram í máli hans að Samfylkingin væri á móti einkavæðingu sameinaðs fyrirtækis.

Valgerður sagði margt mæla með sameiningu fyrirtækjanna. "Með því yrði til öflugt fyrirtæki í framleiðslu og sölu raforku. Með sameiningunni er eiginfjárstaðan styrkt og hagræðing yrði umtalsverð, m.a. í viðhaldi háspennulína. Með þessu móti lækkaði kostnaður við raforkukerfið og fyrir vikið yrði verð til notenda lægra en ella."

Ráðherra sagði að sameiningin væri lóðrétt, þar sem núverandi starfsemi fyrirtækjanna, sem sameina ætti, væri ólík. "Landsvirkjun er fyrst og fremst í framleiðslu en RARIK og Orkubúið í dreifingu. Samruni þessara fyrirtækja hefur því sáralítil áhrif á samkeppni í samkeppnisþætti raforkukeðjunnar en nokkur hagræðing verður í einkaleyfaþáttum. Saman eiga svo fyrirtækin Landsnet að fullu." Auk þess kom fram í máli ráðherra að það væri eðlilegt að ríkið gæfi út stefnu um það hvað það hygðist gera við Landsvirkjun, eftir að ríkið hefði eignast fyrirtækið að fullu.

Stefni í einhverja vitleysu

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði það alveg á hreinu að Vinstri grænir myndu gera það sem í þeirra valdi stæði til að koma í veg fyrir sameiningu fyrirtækjanna. Hann hafði eftirfarandi skýringar á sameiningunni: "Það sem hér á að fara að gerast, herra forseti, er ósköp einfalt. Það þarf að fara í aðgerðir til þess að hægt sé að velta vandanum af stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar, af óhagstæðum samningum um rafmagn á útsöluverði til erlendra aðila, yfir á herðar almennra notenda." Það þyrfti m.ö.o. að "lappa upp á efnahagsreikning Landsvirkjunar," eins og hann komst að orði.

Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði að með sameiningunni væri ekki verið að horfa til hagsmuna almennings eða landsbyggðarinnar. Landsbyggðarfyrirtækjum væri fórnað til að efla stöðu Landsvirkjunar. "Framsókn er nú fremst í kapphlaupinu um einkavæðingu á almannaþjónustu," sagði hann ennfremur.

Fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku þátt í umræðunni og gagnrýndu áform um sameiningu og einkavæðingu harðlega.

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gerði viljayfirlýsinguna að umtalsefni. Sagði hann að með henni hefði verið stigið rökrétt og skynsamlegt skref. Á hinn bóginn virtist sem Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri hefði undirritað hana án þess að hafa til þess fullt umboð frá borgarfulltrúum Reykjavíkurlistans. Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri grænna, sem sæti ætti í borgarstjórn hefði lýst því yfir að málið nyti ekki stuðnings innan R-listans. "Ég get ekki betur séð, herra forseti, en að þetta mál allt saman sé að snúast upp í einhverja heljarinnar vitleysu af hálfu meirihlutans í Reykjavíkurborg."