Drífa Snædal, fræðslu- og framkvæmdastýra SUK (fremri), og Þórlaug Jónsdóttir, rekstrarstjóri samtakanna, kynntu ársskýrsluna í gær.
Drífa Snædal, fræðslu- og framkvæmdastýra SUK (fremri), og Þórlaug Jónsdóttir, rekstrarstjóri samtakanna, kynntu ársskýrsluna í gær. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ALLS hafa 24 konur og 25 börn dvalið í Kvennaathvarfinu það sem af er þessu ári og eru dvalardagar um 500, um þriðjungur þess sem var allt árið í fyrra.

ALLS hafa 24 konur og 25 börn dvalið í Kvennaathvarfinu það sem af er þessu ári og eru dvalardagar um 500, um þriðjungur þess sem var allt árið í fyrra.

Fram kemur í ársskýrslu Samtaka um kvennaathvarf, SUK, sem kynnt var í gær að aldrei hafa fleiri komur verið skráðar í Kvennaathvarfið en á síðasta ári, sé tekið mið af stuðningsviðtölum sem veitt voru og þeim sem dvöldu í athvarfinu, eða 531 heimsókn alls. Alls leituðu 254 konur til Kvennaathvarfsins á síðasta ári, þar af dvöldu 88 konur og 55 börn í athvarfinu og dvalardagar voru samtals 1.568. Algengast er að konur dvelji í Kvennaathvarfinu í 2-7 daga í senn. Kærum vegna meints ofbeldis hefur að sama skapi fjölgað, alls kærðu 12% þeirra sem leituðu til athvarfsins í fyrra en 7% árið á undan. Forsvarskonur Kvennaathvarfsins telja þetta vísbendingu um að fleiri konur þekki rétt sinn en áður og líti á ofbeldi gegn sér sem glæp.

Tæpur þriðjungur af erlendum uppruna

Þrjátíu prósent kvenna sem dvöldu í Kvennaathvarfinu í fyrra voru konur af erlendum uppruna og hefur hlutfallið rokkað nokkuð milli ára að því er fram kemur í skýrslunni. Hlutfallið var 38% árið 2003 og 22% 2002. Þegar litið er til þjóðernis ofbeldismanna gegn erlendum konum kemur í ljós að 58% þeirra eru Íslendingar. Í tæplega 40% tilvika eiga erlendir karlar í hlut, oftast af sama þjóðerni.

"Þetta er hópur sem við höfum miklar áhyggjur af, af því að einkenni ofbeldis er meðal annars einangrun og það er auðveldara að einangra konur sem vita ekkert um réttindi sín og vita ekki hvert þær eiga að sækja," segir Drífa Snædal, fræðslu- og framkvæmdastýra SUK.

Drífa segir að samtökin hafi ekki einvörðungu fundið fyrir aukinni aðsókn í viðtöl og dvöl innan athvarfsins að undanförnu, heldur hafi áhugi á aðild að samtökunum aukist og mikið sé um nýskráningar. "Það virðist vera vitund að vakna um baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi." Í ársskýrslunni nú er nýmæli að birtur er ítarlegur spurningalisti sem beint er til karlmanna sem gefur vísbendingar um hættuna á að þeir beiti eiginkonu sína eða unnustu ofbeldi. Listinn, sem tekinn er saman af sænskum fagaðilum og áhugafólki gegn kynbundnu ofbeldi, er einnig aðgengilegur á heimasíðu samtakanna, www.kvennaathvarf.is.

Þriðjungur snýr heim í sömu aðstæður

"Við höfum alltaf verið með lista þar sem við spyrjum konur: "Ertu beitt ofbeldi?" En hér höfum við aðra nálgun. Við spyrjum karla: "Beitir þú ofbeldi?" segir Drífa. "Þetta er eitthvað sem við viljum koma inn í umræðuna. Við viljum kalla karla líka til við liðs við okkur í þessa baráttu. [...] Það verður aldrei unnið á þessu ofbeldi nema allir leggist á eitt. Að þetta sé rætt í hópum karla, hvort þeir hafi vitund um þetta kynbundna ofbeldi," segir Drífa.

Þá leggur Kvennaathvarfið áherslu á að endurvekja verkefnið Karlar til ábyrgðar, sem er meðferð fyrir ofbeldismenn, en verkefnið var lagt niður vegna fjárskorts.

Í skýrslu Samtaka um kvennaathvarf er í fyrsta sinn birt tafla yfir hvert konur fara eftir að dvöl í athvarfinu lýkur. Þriðjungur þeirra snýr heim í sömu aðstæður, að því er fram kemur, rúm 20% snúa heim í breyttar aðstæður og 15% í nýtt húsnæði. Aðrir leita til fjölskyldu, vina eða í meðferð.