BRYNJA, nýstofnað félag framsóknarkvenna í Kópavogi, fær ekki fulltrúa á flokksþing sem hefst nk. föstudag.

BRYNJA, nýstofnað félag framsóknarkvenna í Kópavogi, fær ekki fulltrúa á flokksþing sem hefst nk. föstudag. Þetta er niðurstaða framkvæmdastjóra og formanns laganefndar flokksins, en samkvæmt flokkslögum skal félagsskrá liggja fyrir einum mánuði fyrir flokksþing, en þá var Brynja ekki til.

Í lögum Framsóknarflokksins segir: "Hvert flokksfélag hefur rétt til að senda einn fulltrúa með atkvæðisrétt á flokksþing fyrir hverja 15 félagsmenn eða brot úr þeirri tölu. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir. Fulltrúatala skal miðast við félagatal eins og það liggur fyrir á skrifstofu flokksins einum mánuði fyrir flokksþing. Allir félagsmenn í flokknum hafa rétt til að sækja flokksþing og hafa þar málfrelsi og tillögurétt."

Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, sagði að hann og formaður laganefndar flokksins væru sammála um að ekki væri hægt að víkja frá þessum reglum og því fengi Brynja ekki fulltrúa á flokksþingið sem hefst á föstudag.

Sigurður sagði að umsókn Brynju um aðild að flokknum yrði tekin fyrir á næsta landsstjórnarfundi flokksins sem hefði ekki enn verið boðaður. Öll gögn vegna umsóknarinnar lægju fyrir. "Ég sé ekki nein vandkvæði á að félagið fái aðild að flokknum með öllum réttindum sem flokksfélag. En félagið fær ekki að senda fulltrúa á flokksþing," sagði Sigurður.

Flokksþing framsóknarmanna verður haldið á Hótel Nordica um næstu helgi. Verður þingsetning klukkan tíu á föstudagsmorgun og heldur formaður flokksins ræðu eftir hádegi sama dag. Alls eiga 847 framsóknarmenn seturétt á þinginu.