Mjólkursamsalan er vel að fyrstu Laxnessfjöðrinni komin. Guðlaugur Björgvinsson, forstjóri fyrirtækisins, tók í fyrradag við fjöðrinni, sem er viðurkenning ætluð til að örva æskufólk til að leggja rækt við íslenzka tungu.

Mjólkursamsalan er vel að fyrstu Laxnessfjöðrinni komin. Guðlaugur Björgvinsson, forstjóri fyrirtækisins, tók í fyrradag við fjöðrinni, sem er viðurkenning ætluð til að örva æskufólk til að leggja rækt við íslenzka tungu. Í framtíðinni er ætlunin að ungmenni fái viðurkenninguna, en vel fer á því að Mjólkursamsalan fái hana fyrst.

Fyrirtækið hefur unnið gífurlega mikilvægt starf í því skyni að styrkja stöðu íslenzkunnar. Allt frá 1994 hefur MS staðið fyrir málfarsátaki og notað mjólkurfernurnar, sem standa daglega á tugum þúsunda eldhúsborða á heimilum landsins, til að koma á framfæri málfarsábendingum, fróðleik um tungumálið eða bara góðum, vel skrifuðum texta. Fyrirtækið hefur efnt til samkeppni meðal barna og unglinga um efni á fernurnar, fyrst árið 2001 og svo aftur í fyrra. Afrakstur seinni keppninnar, myndskreytingar barna við íslenzka málshætti og orðtök, birtist nú á mjólkurfernunum. Ennfremur hefur MS birt auglýsingar til stuðnings íslenzkunni í sjónvarpi og kvikmyndahúsum, stutt Málræktarþing og haldið á lofti minningu sjálfstæðishetjunnar Jóns Sigurðssonar.

Ekki fer á milli mála að málræktarátak Mjólkursamsölunnar hefur borið árangur. Þegar lítil börn segja á morgnana: "Lestu mjólkurfernuna fyrir mig, mjólkurfernurnar eru svo skemmtilegar," er tilganginum náð. Átakið hefur styrkt mjög ímynd fyrirtækisins.

Mjólkursamsalan er öðrum fyrirtækjum góð fyrirmynd í þessum efnum og fleiri mættu gjarnan taka upp stuðning við íslenzkuna. Því miður stuðla auglýsingar og kynningarefni fyrirtækja ekki alltaf að því að rækta og styrkja íslenzkuna. Þótt margt sé vel gert í markaðsmálum, virðist sums staðar ríkja alveg skelfilegt metnaðarleysi í textagerð, eins og Morgunblaðið hefur ítrekað vakið athygli á. Orðskrípi, enskuslettur og asnalegt hrognamál virðast því miður þykja sjálfsögð í auglýsingum. Þessi þróun er ein alvarlegasta ógnin við íslenzka tungu og þann mikilvæga sess, sem hún skipar í menningu okkar. Aukinheldur er hún ákveðið vandamál fyrir ímynd þeirra, sem starfa við að búa til ímynd fyrir fyrirtæki.

Markaðs- og auglýsingafólk, sem finnst fínt að sletta ensku, er hvatt til að lesa utan á mjólkurfernurnar á morgnana.