Heimsóttu Akranes | Á dögunum var bæjarstjórn Fjarðabyggðar í heimsókn á Akranesi, en vinabæjarsamband hefur verið á milli sveitarfélaganna frá því seint árið 2003.

Heimsóttu Akranes | Á dögunum var bæjarstjórn Fjarðabyggðar í heimsókn á Akranesi, en vinabæjarsamband hefur verið á milli sveitarfélaganna frá því seint árið 2003. Markmiðið er að efla samskipti íbúa beggja sveitarfélaganna, sérstaklega á sviði atvinnumála, æskulýðsstarfs og íþrótta-, menningar- og menntamála.

Á vefnum fjardabyggd.is segir að bæjarfulltrúar hafi kynntu sér starfsemi ýmissa stofnana og fyrirtækja á Akranesi og átt gagnlega fundi með bæjarfulltrúum og sviðsstjórum Akraneskaupstaðar. M.a. var rætt hvernig best væri að standa að gagnvirku samstarfi á milli staðanna á næsta ári, en á síðasta ári fór m.a. hópur ungmenna frá Akranesi og kynnti sér uppbyggingu æskulýðsmála Fjarðabyggðar. Þá fóru þjálfarar Knattspyrnufélags ÍA austur og héldu fræðsluerindi um knattspyrnuþjálfun. Á menningardögum var síðan haldin í Kirkjuhvoli málverkasýning Norðfirðingsins Tryggva Ólafssonar sem vakti verðskuldaða athygli. Það var sameiginlegt álit bæjarfulltrúa beggja sveitarfélaganna að samstarfið fram til þessa hefði verið afar gagnlegt og stefnt skyldi að því að efla það enn frekar á næstu misserum.