Í heimahöfn Jóna Fanney Friðriksdóttir, bæjarstjóri á Blönduósi, og Hrólfur Ólafsson skipstjóri fylgjast með Jóhanni Viðari Aðalbjörnssyni, sem gerir út Óla Hall HU með Hrólfi, skera tertu sem útgerðarmönnunum var færð þegar skipið kom til Blönduóss í fyrsta sinn.
Í heimahöfn Jóna Fanney Friðriksdóttir, bæjarstjóri á Blönduósi, og Hrólfur Ólafsson skipstjóri fylgjast með Jóhanni Viðari Aðalbjörnssyni, sem gerir út Óla Hall HU með Hrólfi, skera tertu sem útgerðarmönnunum var færð þegar skipið kom til Blönduóss í fyrsta sinn. — Morgunblaðið/Jón Sigurðsson
NÝTT skip, Óli Hall HU, kom til heimahafnar á Blönduósi í fyrrakvöld. Skipið er í eigu Hrólfs Ólafssonar skipstjóra og hlutafélagsins Hjallaness ehf. en það hét áður Hafberg GK og var í eigu Þorbjarnar-Fiskaness í Grindavík.

NÝTT skip, Óli Hall HU, kom til heimahafnar á Blönduósi í fyrrakvöld. Skipið er í eigu Hrólfs Ólafssonar skipstjóra og hlutafélagsins Hjallaness ehf. en það hét áður Hafberg GK og var í eigu Þorbjarnar-Fiskaness í Grindavík.

Óli Hall SU er tog- og netaskip, 188 brúttólestir. Að sögn Hrólfs hefur skipið mikinn togkraft en í því er 900 hestafla aðalvél. Fjölmenni var á bryggjunni á Blönduósi þegar skipið kom til heimahafnar og var tilefnið ærið því Óli Hall HU ef fyrsta nýja skipið sem kemur þar til heimahafnar í langan tíma. "Hér hefur ekki komið nýr bátur í nærri tvo áratugi," segir Hrólfur en Óli Hall HU er eini báturinn sem nú er gerður út frá Blönduósi. Hrólfur segir það skipta miklu máli að gera bátinn út frá Blönduósi. "Ég sá fram á að ráðast í þessa útgerð, ellegar leggjast í kör og gefa upp öndina. Hér eru menn sífellt að spá í að flytja burtu en ég vildi ekki gefast upp fyrr en í fulla hnefana."

Og Hrólfur vill að byggðarlagið fái sem best notið útgerðarinnar. "Skipið verður mannað heimamönnum ef þess er kostur. Það skýrist síðan á næstu dögum hvort rækjuvinnsla hefst hér á Blönduósi á ný og þá munum við vitanlega landa aflanum þar. Bolfiskinn leggjum við síðan upp hjá Norðurósi á Blönduósi."

Hrólfur segir að nú sé verið að gera bátinn kláran á veiðar, sennilega haldi hann í fyrsta róðurinn í næstu viku. Hann ætlar á rækju til að byrja með en stefnan er að vera á rækju 4-5 mánuði á ári en annars því sem til fellur. Hann segist þó ekki hafa yfir að ráða miklum aflaheimildum. "Það er reyndar til nægur rækjukvóti. En það á svo sem enginn nægan kvóta. Við ætlum að basla í þessu eins og aðrir," segir Hrólfur.

Hafa selt 16 skip

Þorbjörn Fiskanes hf. hefur frá árinu 2000 selt 16 skip og segir á vef félagsins að nú sé endurskipulagningu og hagræðingaraðgerðum sem hrundið var af stað við samruna Þorbjarnar hf., Fiskaness hf. og Valdimars hf. á árinu 2000, lokið hvað varðar samsetningu útgerðar hjá félaginu. Í stað þeirra 16 skipa sem seld hafa verið hafa verið keypt þrjú skip og þau endurbætt og þeim breytt til línuveiða. Þorbjörn-Fiskanes hf. gerir í dag út þrjá flakafrystitogara og fimm öflug línuskip. Í fyrsta sinn í meira en áratug eru öll skip félagsins gerð út samtímis.