Símon Símonarson, nýbakaður bridsmeistari, á að baki glæstan feril. Hann sigraði í Flugleiðamóti Bridshátíðar sem haldið var um síðustu helgi.
Símon Símonarson, nýbakaður bridsmeistari, á að baki glæstan feril. Hann sigraði í Flugleiðamóti Bridshátíðar sem haldið var um síðustu helgi. — Morgunblaðið/Ómar
SÍMON Símonarson er í bridssveit Garða og véla sem sigraði í Flugleiðamóti Bridshátíðar um síðustu helgi.

SÍMON Símonarson er í bridssveit Garða og véla sem sigraði í Flugleiðamóti Bridshátíðar um síðustu helgi. Þessi afreksmaður hefur unnið 18 titla hérlendis, keppt fyrir Íslands hönd á fjölmörgum mótum þar sem hæst stendur alþjóðlega stórmótið í tvímenningskeppni árið 1986 sem hann vann ásamt Jóni Ásbjörnssyni. Hann er um sjötugt en segist vera ungur og í góðu formi. Eflaust draga fáir sannleiksgildi þess í efa þó svo að reisnin og virðuleikinn gefi til kynna að þar fari enginn unglingur.

"Ég byrjaði að spila brids heima hjá mér. Móðir mín var mikið fyrir þetta og það var mikið spilað á mínu heimili og það var ekkert með það að þegar það vantaði fjórða mann þá var maður látinn halda á spilunum. Maður var bara tekinn með. Þannig byrjaði ég aðeins smástrákur og þannig gekk þetta lengi. Bræður mínir voru líka mikið fyrir þetta og það kom oft fólk til að taka slag þannig að oft var spilað á hverjum degi en þó var þetta aðallega um helgar. Og þegar ég var unglingur sat maður oft sveittur yfir spilum á laugardagskvöldi meðan jafnaldrarnir voru kannski úti að skemmta sér. Þannig að þetta var mjög gott fyrir unga menn að spila brids á föstudags- og laugardagskvöldi í staðinn fyrir að vera á einhverjum helvítis þvælingi."

Símon sagði að hann og Hallur bróðir hans, sem spilaði hvað mest við hann, hefðu alltaf verið með sömu sagnirnar. "Við vorum farnir að gera grín að þessu öllu saman og svo hættum við þessu bara. Það voru engar framfarir og ekki neitt. En svo vildi það til að hann var allt í einu byrjaður í keppni og þá varð ég að byrja að keppa líka en okkur gekk nú ekkert sérlega vel í fyrstu keppninni. Ég held að við höfum verið næstneðstir í keppninni."

Allir í smóking

Símon var spurður hvort bridsmenningin hefði breyst mikið í gegnum árin.

"Já, þetta er allt öðruvísi núna. Ég man t.d. eftir því þegar maður var á þessum stórmótum úti í heimi þá voru allir í smóking og ég man þegar við vorum að spila í Líbanon einhvern tímann þá komu smókingklæddir Frakkar með stóra vindla að borðinu, þóttust vera ægilega stórir menn og ætluðu aldeilis að taka þessa lúsablesa frá Íslandi en það fór nú á annan veg. Svona sér maður þá ekki lengur. Þetta er oft svona þegar menn þykjast vera stærri en þeir eru."

En hvernig fer maður um sjötugt að því að rúlla upp einu svona bridsmóti?

"Ég á fimmtán ára son þannig að þú sérð það; menn sem eiga ung börn verða að halda sér ungum. Svo hef ég aldrei hætt að spila og keppa því að ef þú hættir þá er það bara búið. Þannig að ég er bara í góðu formi og ég verð með á Íslandsmeistaramótinu í sveitakeppni á þessu ári hvernig sem það fer."