Úr uppfærslu Hafnarfjarðarleikhússins Hermóðs og Háðvarar á Vitleysingunum haustið 2000.
Úr uppfærslu Hafnarfjarðarleikhússins Hermóðs og Háðvarar á Vitleysingunum haustið 2000. — Morgunblaðið/Halldór Kolbeins
VIÐAMIKIL kynning á norrænni nútímaleikritun fór fram í Théâtre de l'Est Parisien í París dagana 15. til 17. febrúar undir heitinu "Vents du Nord" eða "Vindar Norðursins".

VIÐAMIKIL kynning á norrænni nútímaleikritun fór fram í Théâtre de l'Est Parisien í París dagana 15. til 17. febrúar undir heitinu "Vents du Nord" eða "Vindar Norðursins". 12 nútímaleikrit frá fimm Norðurlöndum voru kynnt með sviðsettum leiklestrum að viðstöddum höfundum. Eitt íslenskt leikrit var á dagskrá, "Vitleysingarnir" eftir Ólaf Hauk Símonarsonar. Þýðingu annaðist Ragnheiður Ásgeirsdóttir í samvinnu við Nabil El Azan leikstjóra en hann sviðsetti jafnframt leiklesturinn. 9 atvinnuleikarar lásu upp úr verkinu við mjög góðar undirtektir franskra áhorfenda sem aðallega voru leiklistarfólk, að sögn Ragnheiðar. "Frönsku leikararnir sem tóku þátt í leiklestrinum voru líka mjög hrifnir af verkinu," segir hún. Leikritið fer nú í dreifingu í Frakklandi og Ragnheiður og Nabil eru bjartsýn á að það eigi framtíð fyrir sér í Frakklandi.

Fróðlegt innlegg

Ólafur Haukur var viðstaddur leiklesturinn og við setninguna talaði Sigurður Pálsson um íslenskt leikhús við mikla hrifningu áhorfenda sem voru honum afar þakklátir fyrir fróðlegt og skemmtilegt innlegg, að sögn Ragnheiðar.

Aðrir norrænir höfundar sem hlutu kynningu voru: Peter Asmussen, Line Knutzon og Astrid Saalbach frá Danmörku, Jesper Halle og Welte Holtan frá Noregi, Kristina Lugn, Niklas Rådström og Greta Sundberg frá Svíþjóð og Reko Lundan, Laura Ruohonen og Pirkko Saisio frá Finnlandi.

Susanne Burnstein - Svíi sem búsettur er í París - stóð fyrir þessari miklu leiklestrarhátíð sem var vel sótt af frönsku leiklistafólki. Ragnheiður segir að utan norska leikritaskáldsins Jon Fosse og sænska leikskáldsins Lars Noren séu norrænir nútímaleikritahöfundar lítt þekktir í Frakklandi.

Þessi norræna leiklestrarhátíð var með sama sniði og sú íslenska sem fór fram í sama leikhúsi fyrir tæpu ári en þá voru verk eftir Hávar Sigurjónsson, Hrafnhildi Hagalín, Ólaf Hauk Símonarson, Sigurð Pálsson og Þorvald Þorsteinsson leiklesin.