ER einhver tilgangur með því að leggja mat á plötu sem hlotið hefur heil átta Grammy-verðlaun? Er slíkur verðlaunagripur ekki yfir gagnrýni hafinn?

ER einhver tilgangur með því að leggja mat á plötu sem hlotið hefur heil átta Grammy-verðlaun? Er slíkur verðlaunagripur ekki yfir gagnrýni hafinn? Hreint ekki, vegna þess að verðlaunaveitingar fyrir listsköpun eru út af fyrir sig umdeilanlegar og heilmargt annað sem inn í slíkt spilar en hrein og bein gæði tónlistarinnar.

Svanasöngur Ray Charles er t.a.m. ekkert meistaraverk, hvað svo sem átta Grammy-verðlaun þýða. Hún er vissulega afar vönduð og inniheldur tónlistarflutning einvala listafólks, þar sem Charles heitinn er auðvitað fremstur í flokki, enda í aðalhlutverki. En platan er gloppótt eins og gómsætur svissneskur ostur, full af götum, göllum skotin sem gera áheyrnina erfiða á köflum. Sökin liggur í vafasömu laga- og meðsöngvaravali. Þannig er að hér er á ferð ein af þessum dúettaplötum og koma meðsöngvarar úr öllum áttum, úr nær öllum kimum tónlistarinnar. Af þeim sökum er Charles karlinn - blessuð sé minning hans - á stundum að reyna við eitthvað sem á hreinlega ekkert við hann. Þannig er klár pína að heyra hann syngja poppballöðuna Sorry Seems to Be The Hardest Word á móti höfundi þess Elton John. Það er bara ekki hans deild. Eins virkar karlinn engan veginn þegar kemur að því að syngja skjannahvítt og útvarpsvatnað sálarpopp á móti James Taylor og Michael McDonald. Á hinn bóginn er unun að heyra í karlinum á heimavelli, syngjandi gospel, blús og kolbikasvarta sálarsöngva á móti söngkonum tveggja kynslóða, Gladys Knight og Noruh Jones, og sessinaut á goðsagnabekknum, B.B. King. Einnig virkar hunangsdjössuð útgáfan af You Don't Know Me þar sem hann syngur með Diane Krall, Crazy Love með Van Morrison en dúett með Willie Nelson í It Was A Very Good Year er hreinlega stórfurðuleg blanda.

Sem sagt vandaður, vel leikinn en verulega köflóttur svanasöngur. Verðlaunaplata eða ekki verðlaunaplata.

Skarphéðinn Guðmundsson