Samkeppnisráð hefur bannað ferðaskrifstofunni Terra Nova Sól að nota orðið bændaferðir í auglýsingum eða með öðrum hætti, hvort heldur einu og sér eða sem hluta af samsettu orði.

Samkeppnisráð hefur bannað ferðaskrifstofunni Terra Nova Sól að nota orðið bændaferðir í auglýsingum eða með öðrum hætti, hvort heldur einu og sér eða sem hluta af samsettu orði. Kemur bannið í kjölfar þess að fyrirtækið Bændaferðir kvartaði yfir notkun ferðaskrifstofunnar á orðinu.

Samkeppnisráð hefur áður komist að svipaðri niðurstöðu, en árið 2003 bannaði ráðið ferðaskrifstofunni Úrvali-Útsýn að nota orðið bændaferðir. Þá sagði ráðið, að með langri notkun orðsins Bændaferðir og með skráningu þess hafi heitið öðlast markaðsfestu sem aðgreini fyrirtækið frá keppinautum á markaðnum. Hafi það leitt til einkaréttar yfir orðinu. Verndin nái m.a. til þess að önnur fyrirtæki noti ekki heitið Bændaferðir eða orðið bændaferðir þannig að ruglingshætta skapist.

Bændaferðir og Terra Nova Sól höfðu með sér samstarfssamning árin 2003 og 2004 en hann féll úr gildi um síðustu áramót í kjölfar þess að eigendaskipti urðu að Bændaferðum. Samkeppnisráð segir í niðurstöðu sinni að óumdeilt sé að Terra Nova Sól notaði orðið bændaferðir í auglýsingum og kynningum á ferðum ferðaskrifstofunnar sem farnar skyldu á árinu 2005. Þá var Terra Nova Sól ljóst að Bændaferðir höfðu verið seldar annarri ferðaskrifstofu og að samningur Terra Nova Sólar við Bændaferðir væri ekki í gildi.