Leikmenn Barcelona hafa fagnað mörgum sigrum og mörkum á Nou Camp í Barcelona og víða í vetur. Ná þeir að fagna sigri á leikmönnum Chelsea í meistaradeildinni í kvöld?
Leikmenn Barcelona hafa fagnað mörgum sigrum og mörkum á Nou Camp í Barcelona og víða í vetur. Ná þeir að fagna sigri á leikmönnum Chelsea í meistaradeildinni í kvöld? — Reuters
NÝVANGUR í Barcelona og Old Trafford í Manchester verða í kastljósinu í kvöld er 16 liða úrslit meistaradeildarinnar í knattspyrnu fara fram en stórleikir kvöldsins eru án efa viðureignir Barcelona og enska liðsins Chelsea annars vegar og Manchester...

NÝVANGUR í Barcelona og Old Trafford í Manchester verða í kastljósinu í kvöld er 16 liða úrslit meistaradeildarinnar í knattspyrnu fara fram en stórleikir kvöldsins eru án efa viðureignir Barcelona og enska liðsins Chelsea annars vegar og Manchester United frá Englandi og AC Milan frá Ítalíu. Ekki má gleyma að Evrópumeistararnir eru á ferðinni í kvöld á heimavelli þar sem Porto tekur á móti jafntefliskóngunum frá Mílanó, Inter, í Portúgal. Þýsku meistararnir Werder Bremen eiga í höggi við Lyon frá Frakklandi.

Barcelona og Chelsea eru í svipaðri stöðu í deildakeppninni í heimalandi sínu, með þægilegt forskot á önnur lið. Hvorugt liðið er í hópi sigursælustu liða hvað varðar Evrópukeppnina, Barcelona sigraði árið 1992 er úrslitaleikurinn fór fram á Wembley. Chelsea hefur aldrei sigrað í Evrópukeppninni en liðið lék í undanúrslitum á síðasta ári. Til samanburðar má nefna að Real Madrid hefur níu sinnum orðið Evrópumeistari og AC Milan sex sinnum.

Að auki hefur Barcelona ekki sigrað í deildinni á Spáni í sex ár og Chelsea hefur ekki sigrað í hálfa öld í ensku deildinni.

Chelsea-liðið hefur varla stigið feilspor í vetur en liðið fór útaf sporinu um síðustu helgi gegn Newcastle í ensku bikarkeppninni. Chelsea tapaði þar 1:0 og þrír leikmenn liðsins meiddust í leiknum.

Næstu sex dagar krefjast mikils af leikmönnum Chelsea þar sem leikurinn gegn Barcelona er fyrri hápunkturinn en um næstu helgi fer fram úrslitaleikurinn í deildabikarnum - þar eigast við Chelsea og Liverpool. Chelsea á enn möguleika á að vinna þrjá titla á leiktíðinni en tveir þeirra gætu runnið þeim úr greipum á næstu sex dögum.

Jose Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea þekkir vel til hjá Barcelona en hann var túlkur fyrir Bobby Robson fyrir átta árum er hann var þjálfari liðsins.

Mourinho ber sig vel þrátt fyrir að í liðið vanti Arjen Robben og Wayne Bridge sem báðir eru fótbrotnir. "Við getum ekkert gert við því þegar leikmenn okkar meiðast. Það er hluti af leiknum að það vantar alltaf einhverja leikmenn. Við erum með frábæra stöðu í úrvalsdeildinni en ég hef sagt að ensk lið verði að leika meira með höfðinu og minna með hjartanu í meistaradeildinni. Það hefur gerst að ensk lið ætli sér að leika með hjartanu á útivelli gegn liðum frá Spáni og Ítalíu og það er ekki vænlegt til árangurs," segir Mourinho. Porto varð Evrópumeistari undir hans stjórn á síðasta ári. "Þetta er keppnin mín, ég hef titil að verja sem knattspyrnustjóri og þar til einhver annar en ég stýrir liði til sigurs í þessari keppni þá er titillinn í mínum höndum," bætti hann við.

Barcelona hefur náð ótrúlegum árangri frá því að Frank Rijkaard tók við sem þjálfari liðsins fyrir 18 mánuðum. Hann tók við liðinu í 12. sæti deildarinnar en það endaði í 2. sæti á eftir Valencia.

Samuel Eto'o hefur skorað 17 mörk í vetur en landsliðsframherjinn frá Kamerún er fremstur í flokki Börsunga ásamt Ronaldinho frá Brasilíu. Á heimavelli er Barcelona gríðarlega sterkt enda hefur liðið ekki tapað Evrópuleik á Nou Camp frá árinu 1976, þá lagði Liverpool þá að velli.

Deco, leikmaður Barcelona, þekkir vel til Mourinho, lék undir hans stjórn á síðasta ári hjá Porto. "Mourinho er vissulega fær þjálfari en við þurfum að einbeita okkur að leikmönnum Chelsea í leiknum og þjálfararnir geta lítið gert þegar út í leikinn er komið. Það má ekki gera nein mistök í svona leik og allir leikmenn sem eru á vellinum vita hvað er í húfi," segir Deco. Hann er fæddur í Brasilíu en með ríkisfang í Portúgal.

Nistelrooy með á ný?

Manchester United tekur á móti AC Milan á Old Trafford og Carlo Ancelotti þjálfari ítalska liðsins verður að gera breytingar á framlínu liðsins þar sem Andriy Shevchenko verður ekki með. Framherjinn er með brákað kinnbein og er jafnvel talið að Úkraínumaðurinn verði ekki með í síðari leiknum í Mílanó hinn 8. mars. Hollenski landsliðsmaðurinn Jaap Stam mætir á gamla heimavöllinn sem leikmaður AC Milan. Hann var í meistaraliði Man. Utd. sem sigraði þrefalt tímabilið 1998-1999.

Ancelotti hefur ekki gert upp við sig hvort hann verður með Jon Dahl Tomasson og Hernan Crespo í fremstu víglínu eða ekki en líklegt er talið að Crespo verði eini framherji liðsins í byrjunarliðinu. "Shevchenko er vissulega frábær leikmaður en ég get huggað mig við það að liðið hefur náð góðum úrslitum án hans. Við höfum um marga leikmenn að velja. Það eru allir spenntir fyrir því að leika í meistaradeildinni en við leggjum áherslu á okkar leik og í raun skiptir engu máli hvaða leikmenn eru inni á vellinum hjá Manchester United.

Ruud van Nistelrooy gæti leikið á ný eftir þriggja mánaða fjarveru vegna meiðsla en hann hefur skorað 36 mörk í 37 leikjum í meistaradeildinni. Ryan Giggs segir að leikir liðsins gegn AC Milan séu ávallt stórviðburður. "Að mínu mati er AC Milan með gríðarlega sterkt lið, gæðaleikmaður í hverri stöðu. En það gleymist oft hve heildin er góð hjá AC Milan. Ég tel að við getum lagt þá að velli ef við höldum áfram á sömu braut og á undanförnum vikum," segir Giggs.

Evrópumeistarar í vanda

Það fer minna fyrir Evrópumeistaraliði Porto en í fyrra enda voru margir af bestu leikmönnum liðsins seldir sl. sumar og nýtt lið í uppbyggingu.

Jose Couceiro er þriðji þjálfari Porto-liðsins á leiktíðinni og Jorge Costa fyrirliði liðsins verður ekki með gegn Inter frá Mílanó. Benni McCarthy framherji Porto er klár í slaginn eftir þriggja leikja bann.

Christian Vieri framherji Inter er lítillega meiddur og gæti orðið fjarverandi.

Lyon mætir til leiks í Bremen án fyrirliðans Claudio Cacapa og að auki eru Bryan Bergougnoux og Anthony Reveillere meiddir.