Bauhaus stefnir að því að opna stórverslun sína sem staðsett verður í Kópavogi vorið 2006 þar sem starfsmannafjöldi verður á bilinu 100 til 120.
Bauhaus stefnir að því að opna stórverslun sína sem staðsett verður í Kópavogi vorið 2006 þar sem starfsmannafjöldi verður á bilinu 100 til 120.
ÞÝSKA byggingavöruverslanakeðjan Bauhaus, sem á undanförnum 40 árum hefur haslað sér völl víða í Evrópu og á Norðurlöndunum hefur uppi áform um að opna stórverslun hér á Íslandi eftir rúmt ár, sem staðsett verður í Kópavogi og hefja samkeppni á...

ÞÝSKA byggingavöruverslanakeðjan Bauhaus, sem á undanförnum 40 árum hefur haslað sér völl víða í Evrópu og á Norðurlöndunum hefur uppi áform um að opna stórverslun hér á Íslandi eftir rúmt ár, sem staðsett verður í Kópavogi og hefja samkeppni á byggingavörumarkaðnum á Íslandi.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur Bauhaus þegar tryggt sér lóð fyrir um 18 þúsund til 22 þúsund fermetra stórverslun í Kópavogi, þar sem Bauhaus ætlar að bjóða vörur sínar á umtalsvert lægra verði en gengur og gerist hér á landi.

Bauhaus er með stórverslanir víða í Þýskalandi, Frakklandi, Austurríki, á Spáni, í Tékklandi, Tyrklandi, Slóveníu, Finnlandi, Danmörku og Svíþjóð. Samtals um 180 verslanir. Hyggjast forráðamenn fyrirtækisins einnig opna verslanir í Noregi á næstunni og eina hér á Íslandi, a.m.k. til að byrja með.

Í lýsingu Bauhaus á eigin verslunum, er frá því greint, að verslanir keðjunnar bjóði upp á allt fyrir heimilið, utan húsgagna, í miklu úrvali, á lágu verði.

Hugsunin á bak við reksturinn er sögð vera DIY (Do It Yourself) eða "Gerðu það sjálf/ur".

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hefur undirbúningur Bauhaus að byggingu verslunar fyrirtækisins hér á landi tekið um eitt ár.

Niðurstaða þess undirbúnings varð til þess að forráðamenn fyrirtækisins töldu, að Bauhaus gæti boðið upp á byggingavörur á Íslandi, á mjög svo samkeppnishæfu verði, hvort sem um væri að ræða þekkt vörumerki eða minna þekkt.

Stefnir Bauhaus að því að opna stórverslun sína hér á landi, vorið 2006 þar sem starfsmannafjöldi verður á bilinu 100 til 120.