ÞRÁTT fyrir talsverða yfirburði tókst Real Madrid aðeins að skora eitt mark gegn Juventus þegar þeir mættu þeim á heimavelli, Bernabau, í gærkvöld. Ivan Helguera skoraði eina markið í 31. mínútu með skalla eftir aukaspyrnu frá David Beckham.

ÞRÁTT fyrir talsverða yfirburði tókst Real Madrid aðeins að skora eitt mark gegn Juventus þegar þeir mættu þeim á heimavelli, Bernabau, í gærkvöld. Ivan Helguera skoraði eina markið í 31. mínútu með skalla eftir aukaspyrnu frá David Beckham. Auk þess áttu leikmenn Real Madrid tvö stangarskot í fyrsta sigurleik liðsins undir stjórn Vanderlei Luxemburgo í meistaradeildinni. Þá hefði e.t.v. ekki verið ósanngjarnt að Raúl hefði fengið vítaspyrnu í síðari hálfleik þegar hann var togaður niður í vítateignum af varnarmönnum Juventus.

"Við lékum afar vel og verðskulduðum svo sannarlega að skora fleiri mörk og vinna þar með stærri sigur," sagði Zinedine Zidane, miðvallarleikmaður Real Madrid, eftir leikinn. "Leikmenn Juventus vörðust vel og því er veganesti okkar fyrir síðari leikinn nokkuð naumt skammtað," bætti Zidane við.

Mikil harka var í leiknum og þurfti dómarinn átta sinnum að veifa gula spjaldinu, fimm sinnum í átt að leikmönnum Juventus og þrisvar til Real. Michael Salgado var fyrsta fórnarlamb hörkunnar þegar hann var harkalega tæklaður á 9. mínútu og kom ekkert meira við sögu. Tíu mínútum fyrir lok síðari hálfleiks fékk Pavel Nedved þungt höfuðhögg og var einnig fluttur af leikvelli. "Því miður þá var þetta frekar ljótur leikur og ég hafði alltaf grun um að Nedved gæti lennt illa í því og sú varð einnig raunin," sagði Fabio Capello, þjálfari Juventus, sem sagðist alls ekki vera mjög ósáttur við úrslitin.

Hvað sem öllu leið þá var Zlatan Ibrahimovic nærri því að jafna leikinn skömmu fyrir leikslok er hann komst inn fyrir vörn Real en náði ekki að brjóta markvörðinn Iker Casillas á bak aftur.