"ÞAÐ sem við viljum fyrst og fremst leggja áherslu á er að þessi samningur okkar gengur út á að hver einasti kennari mun hækka í launum frá því sem nú er," segir Jenný Guðrún Jónsdóttir, trúnaðarmaður kennara Ísaksskóla.

"ÞAÐ sem við viljum fyrst og fremst leggja áherslu á er að þessi samningur okkar gengur út á að hver einasti kennari mun hækka í launum frá því sem nú er," segir Jenný Guðrún Jónsdóttir, trúnaðarmaður kennara Ísaksskóla. Hún segir allar vísanir í launalækkanir vera út í hött.

"Við erum stödd í miðju samningsferli og nú eru einstaklingsviðtölin eftir og það er ofsalega erfitt að gagnrýna samning sem er ekki genginn nema hálfa leið," segir Jenný.

Hún segir kennara við Ísaksskóla víða hafa fengið jákvæð viðbrögð vegna samningsins. Kennarar telji að með þessu skrefi verði hlekkir láglaunastéttarinnar brotnir.

Jenný leggur áherslu á að stjórn Ísaksskóla hafi verið í miklu samstarfi við Félag grunnskólakennara frá upphafi ferilsins, þ.e. í október sl. "Það var nú ekki minna samstarf en það að þeir voru viðstaddir talningu atkvæða hjá okkur um samninginn og við notuðum þeirra kjörgögn," segir hún og bætir því við að það veki furðu að formaður Kennarasambands Íslands skuli stíga fram fyrir skjöldu og segja að ekkert samráð hafi verið haft við KÍ.