Natalie Portman og Clive Owen eru tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir framlag sitt til myndarinnar Komdu nær.
Natalie Portman og Clive Owen eru tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir framlag sitt til myndarinnar Komdu nær.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
TENGDAFÓLKSGRÍNIÐ Meet The Fockers heldur toppsæti íslenska bíólistans þriðju vikuna í röð, nokkuð sem gerist hreint ekki mjög oft. Hvað þá að myndina sjái enn yfir 3 þúsund manns eins og Meet The Fockers nú um helgina en alls sáu 3.335 manns myndina.

TENGDAFÓLKSGRÍNIÐ Meet The Fockers heldur toppsæti íslenska bíólistans þriðju vikuna í röð, nokkuð sem gerist hreint ekki mjög oft. Hvað þá að myndina sjái enn yfir 3 þúsund manns eins og Meet The Fockers nú um helgina en alls sáu 3.335 manns myndina. Alls hafa því rúmlega 25 þúsund séð hana til þessa og ljóst orðið að hún verður meðal mest sóttu mynda ársins, þótt skammt sé á það liðið.

Teiknimyndin Fríllinn og Bangsímon gekk einnig prýðilega vel, sína aðra sýningarhelgi og dalaði einungis um ein 17% sem er með minnsta móti og vitnisburður, að Christof Wehmeier hjá Sambíóunum telur, um hversu vel myndin hefur spurst út. Rúmlega 2.800 manns sáu myndina um helgina sem er nú komin þegar þetta er ritað í um 8 þúsund áhorfendur alls.

Tvær nýjar myndir voru frumsýndar fyrir helgi; myndir sem báðar munu bítast um Óskara á komandi sunnudag. Hin stjörnum prýdda Closer - eða Komdu nær - náði þriðja sæti með rúmlega 2 þúsund manns. "Þetta er önnur stærsta opnun hér á landi á þeim myndum sem fá athygli Óskarsverðlauna Akademíunnar, aðeins Aviator hefur byrjað betur," bendir Jón Gunnar Geirdal hjá Skífunni, sem dreifir myndinni á Íslandi, á. "Með tilliti til þess að Closer fær aðeins 2 tilnefningar þá er þetta rosalega góð opnun."

Þá fór myndin um sálarsöngvarann Ray Charles ágætlega af stað og er nú búin að lokka að á annað þúsund áhorfendur.

Enn sem áður er Hin ótrúlegu vinsælasta mynd ársins það sem af er en nú í vikunni nær hún þeim merka áfanga að skríða yfir 40 þúsund áhorfendur.

Stuðmannamyndin Í takt við tímann gengur einnig vel en nú hafa um 28 þúsund manns séð myndina.

skarpi@mbl.is