Allt annar tónn er í George Bush Bandaríkjaforseta í upphafi seinna kjörtímabils hans en var á því fyrra.

Allt annar tónn er í George Bush Bandaríkjaforseta í upphafi seinna kjörtímabils hans en var á því fyrra. Hinn nýi tónn heyrðist þegar í innsetningarræðu Bush og undanfarið hafa bæði Condoleezza Rice utanríkisráðherra og Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra farið til Evrópu í anda sátta. Allt tal um "gömlu Evrópu" og "nýju Evrópu" er horfið. Í fyrradag ávarpaði síðan Bush leiðtoga aðildarríkja Evrópusambandsins og í gær átti hann fund með leiðtogum aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins þar sem þeir hétu því að veita hjálp við uppbygginguna í Írak.

Í ræðu sinni á mánudag sagði Bush að Bandaríkjamenn vildu "öfluga Evrópu" og bætti við: "Sterk vinátta okkar á milli skiptir sköpum fyrir frið og velsæld í heiminum, engin tímabundin umræða, tímabundinn ágreiningur ríkisstjórna, ekkert afl í heiminum mun nokkurn tíma koma upp á milli okkar."

Til marks um sáttavilja forsetans var haft eftir í The New York Times að undir borðum hefði hann sagt að jarðepli djúpsteikt í olíu væru "franskar kartöflur" og yrðu ekki framar kallaðar "frelsiskartöflur".

En ekki er allt sem sýnist. Sáttatónninn á yfirborðinu segir ekki alla söguna. Milli Evrópu og Bandaríkjanna ríkir ekki ágreiningur um markmið. Það er sameiginlegt markmið að efla frið og lýðræði í Mið-Austurlöndum, byggja Írak upp á nýjan leik og binda enda á starfsemi hryðjuverkasamtaka. Ágreiningurinn snýst hins vegar um leiðirnar að settu marki.

Ástæðan fyrir því að nýjan tón kveður við hjá Bandaríkjamönnum er að þeir telja sig þurfa á hjálp Evrópu að halda. Bandaríkjamenn hafa sýnt fram á að þeir geta unnið stríðið, en þeir geta ekki unnið friðinn einir, hvort sem þar er um að ræða Írak eða Norður-Kóreu. Þeir þurfa á samstöðu Evrópu að halda til þess að viðhalda valdajafnvægi í heiminum og nægir í þeim efnum að nefna uppgang Kínverja og stöðu Japana.

En Evrópa þarf sömuleiðis á Bandaríkjunum að halda og því er nauðsynlegt fyrir ríki Evrópu að finna leið til að vinna með Bandaríkjamönnum. Eins og Helmut Schmidt, fyrrverandi kanslari Vestur-Þýskalands, segir í grein í vikublaðinu Die Zeit má slík samvinna ekki byggjast á undirgefni Evrópu: "Við viljum halda virðingu okkar." Helsti veikleiki Evrópu í þeim efnum er augljós. Ríki Evrópusambandsins standa Bandaríkjunum langt að baki að hernaðarstyrk og þurfa að leggja meira af mörkum í þeim efnum eigi að rétta hlut Evrópu gagnvart Bandaríkjunum.

Yfirlýsingin um að öll ríki NATO muni hjálpast að við uppbygginguna í Írak er bara eitt skref og misjafnt hvaða skuldbinding býr að baki. En hún er vísir að því að endurreisa þá samstöðu, sem einkenndi samskipti Evrópu og Bandaríkjanna í kalda stríðinu, og mun skipta sköpum um þróun heimsmálanna á næstunni.