Jouneshmine, ÍS, með skell - Jóhann Arnarson og Hannes Ingi Geirsson, Stjörnunni, til varnar.
Jouneshmine, ÍS, með skell - Jóhann Arnarson og Hannes Ingi Geirsson, Stjörnunni, til varnar. — Morgunblaðið/Þorkell
STJÖRNUMENN tryggðu sér deildameistaratitlinn í blaki þriðja árið í röð þegar þeir lögðu ÍS að velli í síðasta leik sínum í deildinni með glæsibrag, 3:0. Framundan er úrslitarimman um Íslandsmeistaratitilinn, þar sem fjögur lið mætast í undanúrslitum.
Stjörnumenn glíma við Stúdenta, en í hinni rimmunni eigast lið Þróttar Reykjavík og HK við. Reiknað er með að undanúrslitin hefjist mánudaginn 7. mars og verður leikið heima og heiman. Það lið sem er fyrr til að fagna tveimur sigrum stendur uppi sem sigurvegari og leikur um Íslandsmeistaratitlinn.

ÍS fær verðugt verkefni í undanúrslitunum þar sem liðið heimsækir Stjörnuna í fyrsta leik. Stjarnan hefur átt góða leiktíð og liðið hefur unnið ÍS fjórum sinnum í vetur. "Við ætlum ekki breyta út af vananum og ætlum að fara alla leið. En fyrst ætlum við að klára leikina við ÍS í undanúrslitum," sagði Vignir Hlöðversson, fyrirliði Stjörnunnar, í samtali við Morgunblaðið.

Lið ÍS hefur ekki átt gott tímabil í vetur. Þjálfari liðsins er Zdravko Demirev, sem hefur verið leikmaður ÍS í 12 ár. Zdravko meiddist á hné í vikunni og segir óvíst hvort hann geti leikið í úrslitakeppninni.

Liðin í öðru og þriðja sæti leika í hinni undanúrslitarimmunni. HK endaði í öðru sæti og tekur því á móti Þrótti Reykjavík í fyrsta leik. Leikir liðanna í vetur hafa verið mjög jafnir en HK hefur unnið tvo þeirra og Þróttur einn, en fjórði leikur liðanna fer fram um helgina. Liðskipan Þróttar breyttist töluvert fyrir leiktíðina. Ungur Japani, Subaru Takenaka, gekk til liðs við Þrótt og Valur Guðjón Valsson tók fram skóna að nýju. Valur Guðjón er fyrirliði Þróttar og sagði í samtali við Morgunblaðið að liðin væru svipuð af styrkleika. "Þetta verður mjög jafnt eins og leikir liðanna hafa verið í vetur en ég held að dagsformið eigi eftir að ráða miklu. Þrátt fyrir það stefnum við á Íslandsmeistaratitilinn í ár," sagði Valur Guðjón.

HK-liðið var eina liðið sem gat ógnað Stjörnunni á toppi deildarinnar í vetur. Einar Sigurðsson, þjálfari og fyrirliði HK, sagði í samtali við Morgunblaðið að hann búist við hörkukeppni. "Þetta er í raun nýtt mót þar sem allir geta unnið alla - það hefur alveg sannað sig í vetur. Þetta verða jafnir leikir við Þrótt, við töpuðum fyrir þeim í síðasta leik og leikurinn í deildinni á morgun verður eflaust spennandi," sagði Einar. Jafnframt sagði Einar að nú væri kominn tími á að fleiri lið fái titla en Stjarnan, sem hefur unnið alla titla síðastliðin tvö ár.

Sævar Már Guðmundsson skrifar