3. mars 2005 | Viðskiptablað | 749 orð | 1 mynd

Jákvæðir þættir stjórnunar í pilluformi

Í bókinni The Leadership Pill eftir Ken Blanchard og Marc Muchnick er að finna hárbeitta gagnrýni á ýmsar skyndilausnir stjórnunar úr skyndihjálparbókum

— Morgunblaðið/Arnaldur
Ímyndum okkur að eftir margra ára rannsóknir yrði sett á markaðinn pilla sem gæfi notendum alla jákvæða þætti stjórnunar og nauðsynlega leiðtogahæfileika þannig að ótvíræður árangur næðist.
Ímyndum okkur að eftir margra ára rannsóknir yrði sett á markaðinn pilla sem gæfi notendum alla jákvæða þætti stjórnunar og nauðsynlega leiðtogahæfileika þannig að ótvíræður árangur næðist. Gengi hlutabréfa framleiðandans mundi rjúka upp í virði í þeirri fjölmiðlaumræðu sem fylgdi tilkynningu fyrirtækisins um kosti pillunnar og hún mundi seljast eins og heitar lummur. Framleiðendur mættu kokhraustir á blaðamannafundi og staðhæfðu að daglegur skammtur af pillunni yki einbeitingu á verkefnum sem fyrir lægju og fyrir nauðsynlegar aðgerðir sem tengjast fyrirtækjarekstri.

Ofangreint er söguþráður bókarinnar The Leadership Pill eftir Ken Blanchard og Marc Muchnick. Augljóslega er um að ræða skáldsögu en bókin felur einnig í sér hárbeitta gagnrýni á ýmsar skyndilausnir stjórnunar sem iðulega má lesa um í alls konar sjálfshjálparbókum. Á gamansaman hátt koma höfundar á framfæri mikilvægi mannlega þáttarins í farsælum rekstri fyrirtækja og barnaskap þess að halda að hægt sé að koma með töfrauppskrift að því hvernig reka eigi fyrirtæki. Bókin er auðlesin og í stað þess að predika eins og margar viðskiptafræðibækur hvernig gera á hlutina frá a-ö, þá vefur hún boðskap sinn í söguþráðinn með léttum hætti og tekur skemmtilega á mörgum gullnum reglum stjórnunar.

Ekki var um að villast að pillan hefði tilætluð áhrif, þeir sem tóku hana náðu fljótt betri árangri. Því kom það á óvart þegar þekktur stjórnandi kom fram á sjónarsviðið sem sagði að pillan hefði ranga efnasamsetningu. Hún einblíndi á að notendur skiluðu árangri en gerðu ekkert í því að skapa traust og virðingu meðal samstarfshópa, svolítið nauðsynlegt fyrir langtíma árangur. Hann gerðist svo djarfur að skora á framleiðandann í keppni, hvor gæti stjórnað betur hópi fólks, hann án pilluáts og annar stjórnandi sem mátti bryðja í sig stjórnandapillur að vild. Báðir hópar hefðu sömu markmið og áttu það einnig sameiginlegt að vera nánast óstarfhæfir. Eftir eitt ár yrði árangurinn mældur og þóttist hinn þekkti stjórnandi hafa á þeim tíma náð betri árangri en pillustjórnandinn. Fyrirtækið samþykkti þessa áskorun og hófst nú áhugavert kapphlaup sem vert er að fylgjast með.

Lesendur fylgjast með því hvernig árangurinn kemur smám saman hjá þessum þekkta pillulausa stjórnanda. Í upphafi gengur miklu betur hjá pillustjórnandanum enda nauðsynlegar aðgerðir keyrðar í gegn frá fyrsta degi. Neikvæð eftirköst, sem oft fylgja slíkri harðstjórn, fóru aftur á móti að gera vart við sig á sama tíma og hinn hópurinn fór smám saman að þjappa sér saman í því að ná settum markmiðum og sköpunargleði innan hópsins fór að virkja áður óþekktar víddir í að skara fram úr. Það þarf ekki að verja mörgum orðum í hver niðurstaðan varð að ári liðnu enda er boðskapur bókarinnar fólginn í slíkri stjórnun.

Í lok bókarinnar er samantekt á helstu þáttum hennar. Ég hef heyrt þá gagnrýni um bókina að nóg væri að lesa þessa einu síðu og þannig nema boðskap hennar á broti þess tíma sem tekur að lesa hana. Þetta er eingöngu að hluta til rétt. Án heildarsamhengis verða orðin innantóm í þann heildarboðskap sem höfundar eru að koma á framfæri. Grunntónn bókarinnar er áhersla á að stjórnun felist ekki í hlutum sem þröngvað sé upp á fólki að gera heldur að hvað sé gert í samstarfi með fólki. Slíkt gerist ekki á einni nóttu. Heiðarleiki er lykillinn að velgegni í stjórnun sem felst í því að stjórnandi gerir sömu kröfur til sín og annarra. Fleiri hafa bent á þetta. Dæmi um það er Jack Welch, fyrrverandi forstjóri General Electric, sem telur heiðarleika vera grunnatriði í stjórnun í ævisögu sinni. Þannig skapast traust á öllum sviðum sem mótar ákveðin gildi innan fyrirtækis sem fólk virðir og starfar í samræmi við.

Með trausti, virðingu og sameiginlegum gildum sem keppt er að hefur jarðvegur myndast til samstarfs sem aftur skilar sér í meiri skilvirkni í að takast á við vandamál. Í slíku vinnuumhverfi er frekar hægt að sýna velþóknun á vel unnin verk á sannfærandi hátt. Á sama tíma og samstillt átak innan hóps er að eiga sér stað fer sjálfstæð hugsun að njóta sín betur meðal einstaklinga og hópsins. Þannig næst fram sú sköpunargleði sem virkjar bæði einstaklinginn og hópinn.

Ofangreint gæti virst vera á þeim nótum að aðeins vanti hallelújakór til að fullkomna myndina. Tæplegast halda höfundar því fram að hér sé um heildarverk að ræða og má ætla að verið sé að stikla á sumum atriðum sem virkilega skipta máli. Frekar á því að líta á The Leadership Pill sem einfalda bók til að koma á framfæri nokkrum grunnatriðum í stjórnun. Flestir ættu að geta aðlagað nokkur atriði bókarinnar að sínum eigin vinnustað, bæði jákvæða og neikvæða hluti.

marmixa@yahoo.com

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.