Í Skrúði er að finna eitt glæsilegasta og elsta Evrópulerki á landinu plantað árið 1908 (1912). Nú þegar flest önnur tré skammlífari tegunda eru fallin eða komin að fótum fram stendur Evrópulerkið eitt eftir þeirra trjáa sem Sigtryggur plantaði og á eftir að gera um langan aldur. Á myndinni má líka sjá garðhliðið fallega sem minnt er á í greininni. Mynd Samson Bjarnar Harðarson.
Í Skrúði er að finna eitt glæsilegasta og elsta Evrópulerki á landinu plantað árið 1908 (1912). Nú þegar flest önnur tré skammlífari tegunda eru fallin eða komin að fótum fram stendur Evrópulerkið eitt eftir þeirra trjáa sem Sigtryggur plantaði og á eftir að gera um langan aldur. Á myndinni má líka sjá garðhliðið fallega sem minnt er á í greininni. Mynd Samson Bjarnar Harðarson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er sterk upplifun að koma í Skrúð fyrsta sinni, garðurinn stendur eins og vin í skóglausu landi undir hrikalegu fjalli. Skrúður er sérlega áhugaverður garður vegna sögu sinnar og gerðar.

Það er sterk upplifun að koma í Skrúð fyrsta sinni, garðurinn stendur eins og vin í skóglausu landi undir hrikalegu fjalli. Skrúður er sérlega áhugaverður garður vegna sögu sinnar og gerðar. Hann er einn fyrsti nýklassíski garðurinn hérlendis og þar má finna auk fjölbreytilegs gróðurs áhugaverða hluti eins og gosbrunn, hlið úr hvalkjálkum og eindæma fallegt garðhlið.

Það var hugsjónamaðurinn séra Sigtryggur Guðlaugsson sem byggði garðinn ásamt konu sinni, Hjaltlínu M. Guðjónsdóttur. Séra Sigtryggur var ötull ræktunarmaður og einn helsti frumkvöðull þeirrar stefnu sem kennd hefur verið við ungmennafélagsandann, undir slagorðinu ,,Ræktun lýðs og lands."

Einkunnarorð Sigtryggs sem hann valdi sér: "Maðurinn sáir en guð gefur ávöxtinn", segir okkur einnig að þarna fór maður sem bæði hafði trú á guð og mannsandann.

Á garðhliðinu er áletraður stofndagur garðsins 7. ágúst 1909, en það fannst séra Sigtryggi Guðlaugssyni vel við hæfi, því að þá voru 150 ár síðan Björn í Sauðlauksdal í Patreksfirði plantaði fyrstur Íslendinga kartöflum.

Gerð garðsins

Garðurinn stendur á landi kirkju- og þáverandi héraðsskólasetursins á Núpi í Dýrafirði, þar sem séra Sigtryggur var prestur og skólastjóri og bróðir hans, Kristinn, bóndi.

Garðurinn ber sterk einkenni klassískra garða Evrópu frá 16. og 17. öld og getur því kallast nýklassískur garður. Það sem einkennir slíka garða er formföst uppbygging oft með sterkum ás sem gengur í gegnum garðinn endilangan og annan veikari þvert á, svo myndast krossform. Prestinum séra Sigtryggi hefur efalaust fundist þetta vel við hæfi, en ekki verið ginnkeyptur fyrir bogalaga krúsidúllugörðum í þeim viktoríska anda sem mest var móðins á þessum tíma í Evrópu.

Sigtryggur mun hafa valið garðinum stað um vorið 1905 og var þá hafist handa við að draga að grjót og reisa steingarð en næsta sumar dvaldist hann í útlöndum og hefur hann örugglega veitt ýmsu eftirtekt í þeim görðum og almenningsgörðum sem hann átti leið um á ferð sinni. Þegar um haustið hóf hann að reisa steingarð upp í hlíðina og kláraði einnig að setja upp vírgirðingu efst og neðst um mitt sumar 1909.

Fyrstu trén voru gróðursett árið 1908 en það voru sex reyniviðir. Fram til ársins 1914 gróðursetti hann ásamt nemendum sínum 50 reynitré og var hvert og eitt tré merkt þeim nemanda er gróðursetti. Hann gróðursetti gulvíði frá Sörlastöðum í Fnjóskadal meðfram stígnum að gosbrunni og plantaði margvíslegum runnategundum svo sem rauðblaðarós og rifsi.

Hann ræktaði margs konar grænmeti í garðinum og gerði árlega tilraunir með ýmis afbrigði sem hann mat og skráði samviskulega niður í dagbók sem hann hélt.

Nafnið Skrúður var tillaga ungrar stúlku úr Reykjavík, Sigríðar Einarsdóttur. Því er haldið fram að nafnið Skrúður hafi orðið fyrirmyndin að orðinu skrúðgarður, hugtaki sem bæði er notað um garða í einkaeign og almenningsgarða.

Fjölsóttur af ferðamönnum

Skrúður varð þekktur um land allt og fjölsóttur af ferðamönnum sem sumir hverjir komu langar leiðir til þess að skoða garðinn. Þáttur garðsins í kennslu á Héraðsskólanum á Núpi vakti einnig áhuga margra á garðyrkju og stuðlaði að því að fólk á Vestfjörðum og víðar öðlaðist trú á að hægt væri að stunda garðrækt í þessari óblíðu veðráttu.

Eftir að Sigtryggur féll frá árið 1950 voru ýmsir sveitungar sem sáum um umhirðu garðsins. Á tímabili var miklu safnað af fjölbreytilegum gróðri og breyttist Skrúður í einskonar grasagarð á tímabili. Að lokum féll garðurinn í nokkra órækt eða þar til garðyrkjuskólinn undir forystu Grétars J. Unnsteinssonar tók það hlutverk að sér á árunum 1992-1996 að endurreisa Skrúð.

Ákveðið var að færa garðinn til upprunalegs horfs og var það m.a. fólgið í því að endurgera hlaðinn steinvegg og endurplanta nokkru af reyniviði í stað þeirra sem þegar voru fallnir.

Mikið af upprunalegum gróðri Skrúðs er ekki lengur til staðar, flest trén voru af skammlífum tegundum svo sem reyniviður, og koma til með að falla á næstu 10 árum. Eitt tré sker sig úr, það er Evrópulerkið stæðilega sem stendur í norðvesturhorni garðsins og var gróðursett af Sigtryggi um 1908 (1912), það er nú um 12 metra hátt og er ennþá að bæta við sig, enda getur tegundin náð allt að 250 ára aldri.

Nýverið var gefin út bók á vegum framkvæmdasjóðs Skrúðs sem segir frá sögu garðsins og inniheldur m.a. dagbókarbrot sem Sigtryggur hélt um garðinn á árunum 1907-1950. Garðurinn er síðan 1996 í umsjón og eigu Ísafjarðarbæjar.

Skrúður er einn merkilegasti garður á Íslandi og ætti áhugafólk um garðrækt ekki að láta hjá líða að skoða hann.

Eftir Samson Bjarnar Harðarson landslagsarkitekt FÍLA/ samson@landmotun.is