Markús Örn Antonsson
Markús Örn Antonsson
Eftir Markús Örn Antonsson: "Starfsmenn fréttastofu útvarpsins höfðu látið allt faglegt mat lönd og leið fyrirfram, er þeir lögðust gegn skipun Ívars Guðmundssonar í fréttastjórastarfið forðum. Þeir einblíndu bara á að fá einn úr sínum hópi sem hæstráðanda. Hið sama er uppi á teningnum nú ..."
MARGRÉT Indriðadóttir, fyrrum fréttastjóri á fréttastofu útvarpsins, fjallar um ráðningu mína á nýjum fréttastjóra í grein í Morgunblaðinu í gær. Hún hefst á smáskírskotun til atburða árið 1968, þegar ráðinn var fréttastjóri að sömu fréttastofu. Eins og Margrét réttilega nefnir, voru þau Ívar Guðmundsson umsækjendur og bæði faglega vel undir það búin að takast á hendur slíkt ábyrgðarstarf. Margrét hafði verið blaðamaður á Morgunblaðinu og fréttamaður hjá útvarpinu í 19 ár. Ívar hafði verið fréttaritstjóri á Morgunblaðinu um árabil en við stofnun Sameinuðu þjóðanna var honum boðið starf við upplýsingadeild þeirra, og síðar var hann forstöðumaður við upplýsingaskrifstofur samtakanna í Karachi og Kaupmannahöfn. En Margrét Indriðadóttir rétt tæpir á þessu máli í grein sinni og segist hafa verið ráðin þegar Ívar "gekk frá starfinu". Þar er mjög léttilega tiplað á staðreyndum og skal nú fyllt upp í hið stóra skarð í þeirri frásögn.

Árið 1968 fýsti Ívar að koma aftur heim til Íslands og sótti þá um starf fréttastjórans, sem þá var auglýst laust til umsóknar að Jóni Magnússyni fréttastjóra látnum. Í útvarpsráði hlaut Ívar fjögur atkvæði en Margrét Indriðadóttir þrjú. Þáverandi útvarpsstjóri Andrés Björnsson taldi báða umsækjendur hæfa en það var Gylfi Þ. Gíslason menntamálaráðherra sem skipaði í starfið og varð Ívar Guðmundsson fyrir valinu.

Það er kjarni þessa fréttastjóramáls hins fyrra, að faglegt mat á umsækjendum varðaði litlu sem engu heldur fyrst og fremst ásetningur starfsmanna fréttastofunnar að fá einn úr sínum hópi til að stjórna. Ég var fréttamaður á fréttastofu Sjónvarpsins á þessum tíma og fylgdist allvel með því sem var að gerast í aðalstöðvum útvarpsins á Skúlagötu 4. Nokkrum dögum eftir að ráðherra tilkynnti um niðurstöðu sína í júní 1968 birtist yfirlýsing í blöðunum frá 10 starfandi fréttamönnum til stuðnings samstarfsmanni sínum Margréti Indriðadóttur.

Þar kom fram, að umræddir fréttamenn hefðu skorað á Margréti Indriðadóttur að sækja um, áður en starfið var auglýst. Þeir sendu menntamálaráðherra og formanni útvarpsráðs bréf, "svo að öllum sem um málið fjölluðu væri ljós vilji okkar", sagði í yfirlýsingu fréttamannanna. Þessi eindregni vilji bar það augljóslega með sér að alls engu máli skipti, hverjir myndu endanlega sækja um starfið samkvæmt auglýsingu og hversu hæfir þeir væru faglega. Og ennfremur stóð í yfirlýsingu fréttamannanna: "Engum hefðum við treyst betur en Margréti Indriðadóttur til þess að stjórna fréttastofunni áfram í þeim anda, sem farsælastur er." Hefði reyndar verið athyglisvert að sjá frekari útlistun á því hvað væri talið "farsælast" í þessu samhengi.

Um niðurstöðu útvarpsráðs og útvarpsstjóra höfðu fréttamennirnir þetta að segja: "Hefðum við kosið, að ráðamenn útvarpsins sýndu starfsmanni, sem þar hefur unnið nær tvo áratugi með miklum ágætum, þann viðurkenningarvott að beita sér fyrir því að ekki yrði framhjá honum gengið". Síðan komu mjög dularfull skilaboð, þar sem ýjað var að því að einhverjir ótilgreindir huldumenn hefðu lagt stein í götu Margrétar Indriðadóttur: "Einn alvarlegasta þátt þessa máls teljum við þó það undarlega kapp, sem við vitum, að ákveðnir aðilar hafa á röngum forsendum lagt á að koma í veg fyrir skipun hennar." sögðu fréttamenn. Þetta er mér nokkur ráðgáta enn þann dag í dag en virðist fljótt á litið vera sömu ættar og þær getgátur, sem uppi eru hjá fréttamönnum þessa dagana um að þessir ódrepandi "ákveðnu aðilar" séu enn á kreiki og reki puttana í þeirra innri mál, sem mér og öðrum eigi að vera óviðkomandi, svo sem ráðningar starfsmanna á fréttastofunni.

Er skemmst frá því að segja, að Ívar Guðmundsson sagði starfinu lausu í september 1968 og tilgreindi þær ástæður, að sér reyndist ekki unnt að flytja til Íslands að sinni. Það var hin opinbera skýring. Ástæðan var í raun sú, að með undirskriftasöfnunum og töluverðum fyrirgangi tókst fréttamönnum útvarpsins að koma í veg fyrir að þessi margreyndi og víðförli blaðamaður áræddi að sýna sig og sanna í starfi, sem hann hafði verið löglega skipaður til. Hann starfaði áfram hjá Sameinuðu þjóðunum um skeið og síðar sem ræðismaður Íslands í New York við góðan orðstír. Fréttastjórastarfið var auglýst að nýju og mælti meirihluti útvarpsráðs með því að Margrét Indriðadóttir yrði skipuð í starfið.

Starfsmenn fréttastofu útvarpsins höfðu látið allt faglegt mat lönd og leið fyrirfram, er þeir lögðust gegn skipun Ívars Guðmundssonar í fréttastjórastarfið forðum. Þeir einblíndu bara á að fá einn úr sínum hópi sem hæstráðanda. Hið sama er uppi á teningnum nú, þegar ráðinn hefur verið nýr fréttastjóri útvarpsins. Nú er því borið við, að hann standist ekki hinar faglegu kröfur sem gera þurfi til starfsins. Það er fyrirsláttur. Að mati Boga Ágústssonar, forstöðumanns fréttasviðs Ríkisútvarpsins, var Auðun Georg Ólafsson metinn hæfur til starfsins miðað við þær kröfur um menntun og starfsreynslu, sem tíundaðar voru í auglýsingu. Í umsögn sinni til útvarpsráðs tók forstöðumaður fréttasviðsins fram, að hann teldi fimm starfandi fréttamenn meðal umsækjenda helzt koma til greina vegna starfs- og stjórnunarreynslu. Á fundi útvarpsráðs, hins eina lögformlega umsagnaraðila í málinu, sem skipað er fulltrúum stjórnarflokka og stjórnarandstöðu, var gerð tillaga til útvarpsstjóra um að Auðun Georg yrði ráðinn. Hlaut hann meirihluta atkvæða, fjögur af sjö. Aðrir sátu hjá. Enginn annar umsækjandi fékk atkvæði í ráðinu. Auðun Georg var ráðinn.

Höfundur er útvarpsstjóri.