3. apríl 2005 | Innlendar fréttir | 202 orð | 1 mynd

Umfangsmiklar njósnir Sovétmanna á Íslandi

Ólafur og Guðmundur Benediktssynir við njósnatæki úr Kleifarvatni, sem eru á minjasafni lögreglunnar. Er þetta í fyrsta skipti sem bræðurnir sjá tækin, sem þeir fundu fyrir 30 árum.
Ólafur og Guðmundur Benediktssynir við njósnatæki úr Kleifarvatni, sem eru á minjasafni lögreglunnar. Er þetta í fyrsta skipti sem bræðurnir sjá tækin, sem þeir fundu fyrir 30 árum. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
RANNSÓKNIR í lok sjötta og byrjun sjöunda áratugar sl.
RANNSÓKNIR í lok sjötta og byrjun sjöunda áratugar sl. á meintum hlerunum Rússa þóttu leiða í ljós með óyggjandi hætti umfangsmiklar njósnir Sovétmanna á Íslandi; að í sovézka sendiráðinu við Garðastræti væru hleruð símtöl Íslendinga og varnarliðsins og að Rússarnir gætu með sérsmíðuðum njósnatækjum fylgzt með Nato-samtölum milli Bandaríkjanna og Evrópu.

Til þessara rannsókna var í tvígang flutt til landsins sérbúin bifreið og bandarískir sérfræðingar aðstoðuðu íslenzka lögreglumenn við rannsóknirnar. Þetta kemur fram í grein í Tímariti Morgunblaðsins í dag.

Haustið 1973 fundu tveir bræður, Guðmundur og Ólafur Benediktssynir, tæki í Kleifarvatni, sem rannsókn leiddi í ljós að voru sovézk njósnatæki, sem skipt hafði verið út fyrir önnur nýrri og fullkomnari.

Njósnatækin úr Kleifarvatni vöktu mikla athygli, en opinberlega voru þau ekki rakin til eigenda sinna, en samkvæmt alþjóðlegum reglum er ekki hægt að kveðja sendiráðsstarfsmenn fyrir rétt í því landi sem þeir vinna í. Opinberar niðurstöður málsins urðu því þær einar að tækin voru gerð upptæk, þar sem þau höfðu verið flutt inn í landið með ólögmætum hætti.

Tækin, sem voru á þriðja tuginn, voru lengi vel geymd í húsakynnum útlendingaeftirlitsins í lögreglustöðinni við Hverfisgötu, en fyrir um áratug var þeim eytt, utan lítils sýnishorns sem sett var í minjasafn lögreglunnar.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.