19. apríl 2005 | Innlendar fréttir | 341 orð | 1 mynd

Herfræðilega mikilvæg lega Íslands reifuð í frönsku leyniskjali frá 18. öld

Frakkar vildu skipta við Dani á Íslandi og Louisiana

Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is FRAKKAR veltu þeirri hugmynd fyrir sér á 18. öld að skipta við Dani á Íslandi og nýlendunni Louisiana í Norður-Ameríku.
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is
FRAKKAR veltu þeirri hugmynd fyrir sér á 18. öld að skipta við Dani á Íslandi og nýlendunni Louisiana í Norður-Ameríku. Hugmynd Frakka var að byggja franska flotastöð hér á landi til að ógna veldi Breta beggja vegna Atlantshafsins. Þetta kann að vera í fyrsta sinn sem menn áttuðu sig á herfræðilega mikilvægri legu Íslands í miðju Norður-Atlantshafi, að mati Önnu Agnarsdóttur, dósents í sagnfræði við Háskóla Íslands. Þetta kom fram í erindi Önnu á ráðstefnu til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur síðastliðinn föstudag.

Frakkar sýndu Íslandi mikinn áhuga á árunum 1760-70. Franska stjórnin sendi þá herskip tvívegis til Íslands, bæði til verndar franska flotanum í NA-Atlantshafi og eins til að kanna landið. Frakkar töpuðu fyrir Bretum í Sjö ára stríðinu sem lauk 1763 og misstu þá m.a. Kanada.

Skjalið merkt sem leyndarmál

"Ég tel að það hafi verið í tengslum við þennan ósigur sem einhver ónafngreindur Frakki settist niður og lét sér detta í hug að það yrði mikil gæfa fyrir Frakkland ef Danmörk féllist á að skipta á Íslandi og Louisiana, nýlendu Frakka í Norður-Ameríku," sagði Anna. Lousiana náði þá yfir fjórðung af Bandaríkjum nútímans, eða fjórtán ríki, auk hluta af Kanada.

Í skjalasafni franska varnarmálaráðuneytisins er skjal frá þessum tíma, sjö þéttskrifaðar síður, sem ætlað var Choiseul utanríkis- og flotamálaráðherra Frakka. Hann var fremsti stjórnmálamaður í Frakklandi á sínum tíma og náinn vinur Lúðvíks XV Frakkakonungs. Skjalið er ódagsett og óundirritað, en merkt sem leyndarmál. Anna fór til Parísar í febrúar og fékk að sjá skjalið.

"Það er mat höfundar þess að missir Kanada hafi verið þyngstur fyrir Frakka í Sjö ára stríðinu. Nú lá á að efla veldi Frakka og ná fram hefndum á Englendingum. Höfundur skýrslunnar taldi að Danir hefðu lengi haft hug á að ná fótfestu í Norður-Ameríku og gaf sér að þeir hefðu lítið gagn af Íslandi og myndu vera til viðræðna um nýlenduskiptin. Með flotastöð á Íslandi myndi franski flotinn ógna Bretum í vesturátt, með því að hóta að ráðast inn í Kanada, og í austurátt með því að ráðast á Skotland."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.