Ketill Högnason fæddist í Reykjavík 20. maí 1944. Hann lést á líknardeild Landspítalans 19. júní síðastliðinn. Foreldrar hans eru Högni Helgason, fulltrúi hjá Rafmagnsveitum ríkisins í Reykjavík, f. 26. sept. 1916, d. 14. apríl 1990, og Kristín Halldórsdóttir, verslunarmaður í Reykjavík, f. 3. júlí 1920. Systkini Ketils eru: Guðrún, f. 18. des. 1941, d. 21. nóv. 1969; Hildur, f. 9.des. 1946; og Haukur, f. 1. ágúst 1950.

Hinn 26. des. 1964 kvæntist Ketill Hildigunni Davíðsdóttur, f. á Bergsstöðum í Aðaldal í S-Þing. 27. jan. 1943. Foreldrar hennar voru Davíð Áskelsson kennari, f. 10. apríl 1919, d. 14. júlí 1979, og Guðbjörg Kristjánsdóttir, f. 7. nóv 1918, d. 30. nóv. 1972. Börn Ketils og Hildigunnar eru: 1) Helgi, húsasmiður, f. 27. maí 1965, kvæntur Guðrúnu Jóhönnu Sveinsdóttur, f. 5. sept. 1966. Þeirra börn eru a) Katla Dóra, f. 24. mars 1993. b) Hildigunnur, f. 10. júní 2005. Fyrir átti Helgi soninn Arnar Frey, f. 30. mars 1987. Barnsmóðir Auður Sigurjóna Jónasdóttir. 2) Davíð, íþróttakennari og húsgagnasmiður, f. 14. des. 1969, kvæntur Drífu Lind Gunnarsdóttur, f. 12. júní 1969. Börn þeirra: a) Hildur, f. 7. mars 1997. b) Kjartan, f. 7. júní 1999. 3) Guðbjörg, sjóntækjafræðingur, f. 8. apríl 1973, gift Mikael Svend Sigursteinssyni, f. 16. jan. 1970. Börn þeirra: a) Helena, f. 20. nóv. 1995. b) Kristján, f. 28. febr. 2001.

Ketill lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1964, varð cand.odont. frá Háskóla Íslands 1972 og stundaði framhaldsnám í tannréttingum við Óslóarháskóla 1982-1984. Ketill starfaði sem tannlæknir í Reykjavík til 1973, bjó á Ísafirði 1973-1975 og rak tannlæknastofu, og á Selfossi frá 1975-1982. Hann var aðstoðarkennari við Óslóarháskóla, Det Odontologiske fakultet, veturinn 1983-1984 og stundakennari í tannréttingum við tannlæknadeild Háskóla Íslands veturinn 1986-1987. Hann starfaði við tannréttingar í Reykjavík frá 1984 og rak eigin stofu þar frá mars 1986 til dauðadags. Hann starfaði jafnframt reglulega á tannlækningastofunni á Egilsstöðum frá 1991 til 2002.

Ketill gegndi ýmsum félags- og trúnaðarstörfum; Hann var ritstjóri Harðjaxls 1969, formaður stjórnar Félags íslenskra tannlæknanema 1970, í stjórn Félags sérmenntaðra tannlækna frá 1990. Hann var félagi í Lionsklúbbum á Ísafirði, Selfossi og í Kópavogi og formaður Samkórs Kópavogs 1998-2000.

Útför Ketils Högnasonar verður gerð frá Kópavogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, er setning sem maður hefur oft heyrt og aldrei lagt neinn sérstakan skilning í hvað þýðir, en núna fyrst skilur maður almennilega hvað hún þýðir í raun og veru. Það að þú hafir þurft að kveðja þennan heim svo skyndilega og svo miklu fyrr en maður hafði reiknað með er eitthvað sem ég á aldrei eftir að sætta mig við.

Þegar maður horfir um öxl og hugsar til baka þá eru margar góðar minningar sem koma upp í kollinn, til dæmis öll skiptin sem þú komst til þess að hjálpa okkur bræðrunum að byggja og maður þurfti nánast að reka þig heim á kvöldin því þú vildir bara halda áfram af því að veðrið var svo gott og þér fannst þetta svo spennandi og gaman, eða þær stundir sem við áttum saman þegar við fórum að veiða bæði uppi á Arnarvatnsheiði og uppi í veiðivötnum. Veiðiskapurinn var kannski ekki aðalatriðið hjá þér heldur það að vera úti í náttúrunni og það að geta verið saman. Ferðin sem við fórum í fyrrasumar þú, ég, Davíð bróðir, Mikael mágur og Haukur bróðir þinn er eitthvað sem ég á aldrei eftir að gleyma. Eins öll skiptin sem fjölskyldan var saman komin í bústaðnum, þar sem þið mamma reynduð að vera eins oft og þið gátuð. Þar var þín paradís og þar leið þér alltaf best, að ganga um landið þitt og skoða trén sem þið mamma höfðuð sett niður hundruðum ef ekki þúsundum saman, fylgjast með þessu stækka ár frá ári og njóta þess að finna friðinn þarna uppfrá.

Minningarnar eru margar og þær eru eitthvað sem ég mun geyma og varðveita í hjarta mínu um aldur og ævi. Það verður ekki eins að vera til í þessum heimi eftir að þú ert farinn og ég bið guð um að veita öllum þeim sem þig syrgja styrk til þess að takast á við þessa miklu sorg.

Ég kveð þig, pabbi minn, með þessum fátæklegu orðum

Ég elska þig, pabbi.

Þinn sonur

Helgi.

Elsku Ketill, þessir síðustu dagar hafa verið erfiðir og erfitt að trúa því að þú sért farinn frá okkur. Þegar ég hugsa um þig sé ég þig fyrir mér með stríðnissvip og bros í augunum, því alltaf var stutt í stríðnina og hláturinn. Þú hefur alltaf staðið við hlið okkar í einu og öllu og hefur það verið okkur ómetanlegt og ekki síst fyrir Hildi og Kjartan sem elska þig svo heitt. Við höfum átt margar góðar stundir saman í gegnum árin en þær stundir sem við höfum átt uppi í sumarbústað finnst mér standa upp úr. Það var ótrúlegt að fylgjast með þér uppi í bústað og sjá hversu mikla alúð þú lagðir í að rækta landið og byggja upp stað fyrir okkur öll þar sem okkur gæti öllum liðið vel saman. Það voru ófá skiptin sem ég horfði á eftir þér þar sem þú gekkst með krökkunum hönd í hönd um landið og sýndir þeim hvar fuglarnir höfðu búið til hreiður eða fræddir þau um lífið og tilveruna. Þú varst alltaf tilbúinn að hlusta á þau, taka þau í fangið, strjúka þeim um bakið eða bara halda í hendina á þeim og hefur það gefið þeim minningu um góðan afa og "hjartsaman" eins og Hildur hefur orðað það.

Elsku Ketill, takk fyrir allan stuðninginn, þann styrk og þá hlýju sem þú hefur gefið okkur. Þú munt alltaf eiga stað í hjörtum okkar.

Þín tengdadóttir,

Drífa.

Elsku afi Ketill, við söknum þín svo mikið, okkur þykir svo óendanlega vænt um þig og elskum þig svo heitt. Við biðjum góðan guð að gæta þín og hugsa vel um þig. Við vitum að þú munt halda áfram að passa okkur og vera hjá okkur og hjálpar það okkur að sjá ljósið í myrkrinu.

Við kveðjum þig með þessu ljóði, sem langafi Davíð samdi og heitir "Við leiði afa míns".

Ég spyr þig, heimur, hvert er takmark þitt?

Og hvaða tilgang áttu, jarðarbarn?

Er lífið aðeins leit að gleym-mér-ei

á leiðið mitt?

Er lífið aðeins lítið kertisskar,

er lýsir skammt og slokknar allt of fljótt?

Vor fyrirheit: tár, og athvarf: opin gröf?

- - Nei, ekkert svar.

Ef þetta líf er bara blekking tóm,

bára við strönd, sem laus við takmark deyr,

skilurðu þá, þú skelfda jarðarbarn,

þinn skapadóm?

Var þá í blindni unnið afrek hvert,

sem áður virtist spor á þroskabraut?

Er allt vort lífsstríð unnið fyrir gýg

og einskisvert? - -

Nei, minningin um löngu drýgða dáð

í draumi um nýja framtíð markar spor.

Og hvert þitt verk mun vitna um lífsins rök,

ef vel er gáð.

Ég kveð þig, afi minn, og þakka þér,

að þennan arf og skoðun gafstu mér.

Þín barnabörn,

Arnar Freyr, Katla Dóra, Helena, Hildur, Kjartan, Kristján og Hildigunnur.

Skarð er höggvið í hóp samhentrar fjölskyldu. Heimilisfaðirinn Ketill Högnason er kallaður burt í blóma lífsins.

Kynni okkar systra og mága ná lengra en samband þeirra hjóna, því Ketill og Haraldur voru bekkjarbræður og skátabræður frá barnsaldri. Kynnin endurnýjuðust er þeir "bræður" hófu að gera hosur sínar grænar fyrir væntanlegum eiginkonum og systrum, Ásrúnu og Hildigunni, sem bjuggu á Kópavogsbrautinni. Í fyllingu tímans blómstruðu þau kynni með brúðkaupum, og nokkrum árum síðar bað Norðmaðurinn Ívar litlu systur, Kristínar. Ketill reyndist börnum þeirra, Róberti og Malín, ætíð einstakur frændi.

Í þau fjörutíu ár sem fjölskyldur okkar hafa átt samleið höfum við átt óteljandi gleðistundir saman og aðeins fáar sorgarstundir; við lát systur og föður Ketils og lát foreldra okkar systra, en þeim reyndist Ketill sem besti sonur. Þau Ketill og Hildigunnur hafa verið einstaklega samhent, unnið saman við tannlækningar, verið í leikfélögum og staðið á leiksviði saman, sungið saman í kór og bæði skapað listaverk úr tré og gleri. Þau reistu saman sumarhús í Fossholti, sem átti hug Ketils allan, störfuðu saman að ræktun og breyttu og bættu heimili og garð í Melgerðinu. Þau ferðuðust saman, og er skemmst að minnast samveru okkar er húsbíllinn var vígður í ferð á ættarmót okkar systra norður í Aðaldal sl. sumar. Við höfum haldið saman jól, nær ár hvert, ýmist á Íslandi eða í Noregi og sérlega minnisstæð eru jólin í Noregi, þar sem Ketill var við framhaldsnám í Ósló í tvö ár. Þar létu þau tannlæknahjónin sig ekki muna um að drýgja framfærslulífeyri fjölskyldunnar með vinnu við þrif. Við höfum verið saman um fjölmörg áramót og dansað saman á Óperuballinu ár hvert og ljúfar eru minningarnar frá samverustund á Kanaríeyjum, aðeins nokkrum dögum áður en sjúkdómur sá, er dró Ketil til dauða á tveimur mánuðum, var greindur.

Ketill hefur verið börnum og barnabörnum einstök hjálparhella og vinur. Þau eru ófá handtökin sem hann hefur átt við uppbyggingu heimila þeirra. Hann var barnabörnunum hlýr og hjálpsamur afi, enda hændust þau mjög að honum. Ómetanlegt var að honum hlotnaðist að halda Hildigunni Helgadóttur nýfæddri í faðmi sér, hún fæddist aðeins tíu dögum fyrir andlát hans.

Við kveðjum vin, mág og svila með miklum trega og þökkum fyrir að eiga svo ómetanlegar minningar um samverustundir. "Sú stund kemur aldrei aftur, sem einu sinni var". Hildu systur, börnum, barnabörnum, móður og systkinum færum við samúðarkveðjur á þessari sorgarstundu, en minning um góðan vin mun lifa.

Ásrún og Kristín Davíðsdætur, Haraldur Friðriksson og Ívar Ramberg.

Glaðr ok reifr

skyldi gumna hverr,

unz sinn bíðr bana

Þessi orð Hávamála eiga vel við snaran þátt í lífi Ketils Högnasonar.

Flestum hygg ég hafi getist vel að græskulausri glettni hans, en oft leyndist alvara að baki. Sterk réttlætiskennd og hjálpsemi hans er mér hugstæð. Ógleymanlegar eru hátíðar- og gleðistundir á heimili þeirra Hildigunnar bróðurdóttur minnar þar sem húsbóndinn lék á als oddi og "kláravín, feiti og mergur með" voru til rétta veitt.

Að loknum ströngum degi á stofu voru þau vinnufélagarnir samhent í að sinna sameiginlegum hugðarefnum, svo sem kórsöng, glerlist, útskurði og trjárækt, enda margt til lista lagt. Eflaust hafa þau vænst þess að geta helgað sig slíkum áhugamálum eftir að stofan hafði verið seld og þau hættu starfseminni þar fyrr á þessu ári.

En "Völt er veraldar blíða" eins og Davíð, tengdafaðir Ketils, nefndi ljóðabók sína. Vágestur sem fá boð gerði á undan sér og engin grið gaf, lagði Ketil að velli á örskömmum tíma án þess að nokkur fengi rönd við reist, á 62. aldursári. Votta ég bróðurdóttur minni og afkomendum þeirra Ketils og öllu skylduliði og tengdafólki dýpstu samúð mína og hluttekningu í sorg þeirra.

Við sem eftir lifum erum þakklát fyrir að hafa átt samleið með Katli um stund. En hvort heldur okkur þykja orð Hómers um að hinir ódauðlegu guðir muni "flytja sig til hins Elysiska vallar" við hæfi eða við tökum undir inngangsorð hinnar íslensku Hómilíubókar um að "Fögnuður verður þessa heims sá hæstur, er góður maður fagnar engla tilkvomu á dauðastund sinni", er víst að minningin lifir um góðan dreng.

Heimir Áskelsson.

Mig langar til að minnast í nokkrum orðum frænda míns Ketils Högnasonar, sem lést 19. júní, umvafinn eiginkonu og börnum. Ég kveð Ketil með sárum trega og harm í hjarta eftir áralöng kynni. Eitt er víst að líf sem kviknar, mun síðar deyja. Að skrifa minningargrein um Ketil núna, er eitt af því sem ég átti alls ekki von á fyrir nokkrum mánuðum.

Mér brá mikið þegar Hildigunnur, eiginkona Ketils, hringdi í mig 15. apríl sl. og sagði mér að Ketill hefði greinst með krabbamein deginum áður. Núna, rúmum tveimur mánuðum síðar, er hann allur.

Náin samskipti okkar Ketils hófust árið 1981, þegar eiginkona mín hóf störf á tannlæknastofu hans á Selfossi. Segja má að Ketill og Hildigunnur hafi verið ákveðnar fyrirmyndir í lífi okkar hjóna. Í framhaldi af sumarstarfi eiginkonunnar hjá Katli, æxluðust hlutir þannig að við fluttum til Selfoss haustið 1982 og búum þar enn.

Haustið 1982 fór Ketill í framhaldsnám í tannréttingum til Noregs. Það kom í hlut okkar, að gæta sumarhúss þeirra í Langholtslandi í Hraungerðishreppi. Sumarbústaðarlífið heillaði, og varð til þess að við hjónin byggðum okkar eigið sumarhús.

Frá árinu 1982 hef ég annast bókhald, uppgjör og ráðgjöf fyrir Ketil og Hildigunni. Mjög gaman var að ráðleggja Katli í ýmsum málum. Hann vildi skilja hlutina og fá nákvæmar útskýringar, áður en ákvörðun var tekin hvað gera skyldi.

Ketill var búinn að segja mér að hann vildi hætta störfum eftir um það bil tvö ár og selja tannlæknarekstur sinn í framhaldi af því. Hann vildi njóta næstu ára og helga sig fjölskyldu sinni og áhugamálum. En eins og Hildigunnur eiginkona hans sagði, þá fékk hann ekki hálfan dag fyrir sjálfan sig.

Frændi minn var hamingjusamur, mikill fjölskyldumaður og jákvætt hugsandi. Fjölskyldan var alltaf í fyrsta sæti. Honum var umhugað um velferð barna sinna og studdi þau vel. Góðmennska, örlæti, og gamansemi kemur upp í hugann þegar hugsað er til Ketils og Hildigunnar.

Þegar leiðir skilur um sinn, vil ég þakka honum innilega fyrir alla hans umhyggju og ástúð sem hann hefur sýnt mér og fjölskyldu minni.

Hans verður sárt saknað í skötunni hjá foreldrum mínum 23. desember nk.

Kæra Hildigunnur, Kristín móðir Ketils, börn og fjölskyldur. Guð gefi ykkur styrk í sorginni.

Blessuð sé minning Ketils.

Ég vil enda greinina á síðustu setningunni sem Ketill sagði við mig. "Svona er lífið."

Hlöðver Örn Rafnsson

og fjölskylda.

Ketill frændi er farinn yfir móðuna miklu og hefur lokið sinni vist hér hjá okkur. Ketill frændi er þó ekki horfinn, hann lifir í minningunni og mun aldrei gleymast þeim sem nutu þess að fá að kynnast honum. Öll eigum við góðar minningar um Ketil og þori ég að fullyrða að flestar þeirra tengjast glettni og gríni þar sem hann lék aðalhlutverkið. Minningar mínar um Ketil má rekja allt til æskuáranna. Strax sem barn gerði ég mér grein fyrir hversu skemmtilegur og traustur Ketill var og þegar hann og Haukur frændi hittust í fjölskylduboðum var alltaf glatt á hjalla. Þó var skemmtilegast þegar þeir bræður léku við okkur systkinabörnin eða bara stríddu okkur sem þeim var svo tamt. Þegar ég varð eldri kunni ég enn betur að meta Ketill og hans skapgerð, enda verður seint sagt að hann hafi verið leiðinleg manneskja eða slæmur frændi. Ketill var mikill húmoristi og eins þegar hefur komið fram, verulega stríðinn. Hann var hins vegar alltaf tilbúinn að leika við okkur krakkana (bæði þegar við vorum börn og líka fullorðin) og hafði þá framkomu að maður hlustaði á hann og tók mark á því sem hann sagði. Ég hef ávallt borið mikla virðingu fyrir Katli, þrátt fyrir alla hrekkina sem hann gerði mér og hef farið eftir þeim heilræðum sem hann skaut að mér. Hrekkirnir hans Ketils voru reyndar allir góðlátlegir en höfðu þó ákveðnar afleiðingar því það urðu margir símasölumenn fyrir barðinu á mér þegar ég hélt að þar væri kominn Ketill frændi. Vafalaust hafa margir þeirra álitið að ég ætti frekar heima á lægra númeri á Kópavogsbrautinni en reyndin var.

Við fráfall Ketils frænda hefur stórt skarð verið rofið í okkar ættgarð. Galtarættin hefur rýrnað og mun það skarð sem Ketill fyllti ekki bætt. Þrátt fyrir veikindin sem lögðust svo skyndilega á Ketill mátti enn sjá stríðnisglampann í augunum og hann læddi einu og einu gullkorni að okkur.

Elsku frændi, þér gleymi ég aldrei en veit að nú ertu kominn í vist á stað með öðrum góðum ættmennum okkar. Kæru amma, Hilda, Helgi, Davíð, Guðbjörg, Haukur og mamma, ekkert getur bætt ykkur þann missi sem þið hafið orðið fyrir en það er þó huggun harmi gegn að þið búið að góðum minningum um mann sem var meiri en margur annar. Við megum öll vera þakklát fyrir að hafa fengið að vera samferða Katli og sá tími mun koma að við hittumst öll aftur á öðrum og jafnvel enn betri stað. Höfum í huga að það er betra að hafa átt og misst en aldrei kynnst. Með trega og söknuði kveð ég frábæran frænda og góðan mann. Elsku Ketill, takk fyrir öll góðu árin.

Þótt kveðji vinur einn og einn

og aðrir týnist mér,

ég á þann vin, sem ekki bregzt

og aldrei burtu fer.

Þó styttist dagur, daprist ljós

og dimmi meir og meir,

ég þekki ljós, sem logar skært,

það ljós, er aldrei deyr.

(Margrét Jónsdóttir.)

Kristín Völundardóttir.

Heiðursmaðurinn Ketill, besti vinur okkar hjóna, er farinn frá okkur svo skyndilega. Það er gott að eiga minningarnar, þær tekur enginn frá mér. Í gleðinni á sorgin sinn uppruna. Sá sem aldrei hefur átt vináttu syrgir hana ekki heldur.

Okkar samskipti hófust fyrir 30 árum þegar Ketill og Hilda fluttu í götuna okkar, Grashagann á Selfossi. Þá var sumarbyrjun eins og nú. Þetta sumar bundum við þau vinabönd sem hafa haldið allan þennan tíma og orðið traustari með hverju árinu.

Minningar leita á hugann. Ég man eftir öllum ferðalögunum okkar bæði erlendis og innanlands. Ég sé og heyri þegar við sátum við "Sigga" með rauðvínsglas í hönd og biðum eftir steikinni. Man hvað það var dásamlegt að heyra þig segja allar sögurnar af Pekka.

Ketill bjó yfir listrænni getu til að skapa, hvort sem það var í tré eða gler og svo var hann líka maður söngsins og leiklistarinnar. Hann fór sínar eigin leiðir og bar ekki tilfinningar sínar á torg. Allt sem hann tók sér fyrir hendur bar listrænum hæfileikum og snyrtimennsku hans vitni. Hann var húmoristi og hafði svolítið "öðruvísi" húmor. Hann var hreinskilinn og sagði álit sitt á mönnum og málefnum. Aldrei man ég hann leggja nokkrum manni illt orð.

Þegar ég kom til þín daginn fyrir andlátið datt mér ekki í hug að þetta yrði í síðasta skipti sem ég héldi um fallegu, styrku og mjúku höndina þína. En svona er lífið. Það eina sem er öruggt í því er dauðinn.

Það eru í raun forréttindi að fá að eignast svona góða vini eins og Ketil og Hildu. Og eitt er víst að líf okkar Erlings hefði orðið öðruvísi og fátækara ef ekki hefði notið vináttu þeirra.

Elsku Ketill, ég þakka þér þann tíma sem við áttum saman þótt hann væri alltof stuttur. En þetta var sá tími sem okkur var ætlaður. Ég þakka alla vináttu sem þú gafst okkur hjónum og bið algóðan guð að vaka yfir þér.

Elsku Hildigunnur, þér og fjölskyldunni færum við Erlingur innilegustu samúðarkveðjur og biðjum guð að líkna ykkur í sorginni.

Hvíl í friði, besti vinur.

Hlín Daníelsdóttir.

Gamall æskuvinur og skólafélagi er látinn, alltof snemma og ískyggilega snögglega.

Það var fyrir minna en mánuði að ég frétti að Ketill hefði greinst með ólæknandi sjúkdóm aðeins örfáum vikum áður. Að endalokin kæmu svona fljótt kom þó flatt upp á okkur öll.

Við Ketill kynntumst fyrst þegar við mættum sjö ára gamlir í skólann til að hefja skólagöngu okkar í Kópavoginum. Digranesskóli hét gamli barnaskólinn og sá eini í Kópavoginum í þá daga. Við fylgdumst síðan að í bekk í barnaskóla, gagnfræðaskóla, landsprófi og öll árin í MR, þar sem við vorum sessunautar. Við vorum nokkur úr Kópavoginum, sem vorum í MR á þeim árum, Kópavogsklíkan, sem ferðaðist í strætó saman alla daga í skólann, þá áttu óbreyttir menntaskólanemar ekki bifreiðar.

Við vorum sem strákar líka saman öllum stundum utan skóla, í leik og tómstundum, hvort sem við fórum í hjólreiðaferðir í Heiðmörk, skriðum inn í ókláraðan bíósal félagsheimilisins til að fíflast, stálumst út á bát til að veiða, fórum um árabil daglega í sund til Reykjavíkur eða sinntum skátastarfinu og öllum útileguferðunum en það starf þurftum við að sækja til Hafnarfjarðar þar eð ekki var þá til Skátafélag í Kópavoginum. Þetta var sem sé á frumbýlisárum Kópavogsbúa og þau voru ekki ýkja mörg íbúðarhúsin á Kársnesinu, þar sem Ketill bjó yst á Kópavogsbrautinni en ég í Hófgerðinu; ég bar út Þjóðviljann sem strákur í allan Vesturbæinn eins og hann lagði sig, frá Hafnarfjarðarvegi og vestur úr - og þætti eflaust barnaþrælkun í dag - þ.ám. heim til Ketils. Og oftar en ekki vorum við samferða í skólann, frá sjö ára aldri til tvítugs!

Já, það er margs að minnast; við vorum líka liðtækir knattspyrnumenn í Breiðabliki og þroskuðumst saman úr strákpollum í unglinga og loks fullorðna menn og fjölskyldufeður. Það var heima hjá Katli sem fyrsta "partíið" var haldið, við bara 13 ára og þótti þetta fyrirbæri stórmerkilegt og eiginlega aðeins ætlað fullorðnum. Þar vönguðum við stelpur í fyrsta sinn og þóttumst miklir menn.

Snemma á menntaskólaárunum tókst samband með honum og Hildigunni, skemmtilegu stelpunni sem hafði flutt í Kópavoginn frá Norðfirði meðan við vorum enn í barnaskólanum, en nú tókust með þeim ástir og voru þau komin í sambúð fyrr en varði.

Eftir menntaskólann skildu leiðir. Samband okkar dvínaði á fullorðinsárunum, við oft í sitt hvoru landinu við nám og störf en vissum þó alltaf vel hvor af öðrum og hittumst stöku sinnum. Svo seint sem í fyrra hélt ein skólasystir okkar matarboð fyrir gömlu Kópavogskrakkana; við hittumst þarna sex saman, ógleymanlegt kvöld yfir góðum mat og gömlum myndaalbúmum, þar sem farið var rækilega yfir hvað hefði orðið um hvern og einn af skólafélögunum, allir frískir og kátir, grunlausir um að svo snögglega myndi fækka í hópnum.

Ketill var skemmtilegur félagi, skapgóður, kvikur og snaggaralegur, ákveðinn en samstarfsfús. Það fór ekki alltaf mikið fyrir honum en hann var traustur félagi, án efa farsæll fjölskyldufaðir, hafði húmorinn í góðu lagi og gat verið orðheppinn og fyndinn.

Eftir á að hyggja finnst mér að hann hafi alltaf verið í góðu skapi og hann hafði góð áhrif á umhverfi sitt með glaðlegu viðmóti og jákvæðu lífsviðhorfi.

Eftir að Ketill hóf tannlæknastörf bjuggu þau hjón á Selfossi um árabil og tóku virkan þátt í starfi leikfélagsins á staðnum. Það var gaman fyrir mig, hans gamla félaga að sjá hann - og reyndar þau hjón bæði - í hverju leikritinu á fætur öðru, þar sem Ketill sýndi oft heilmikil tilþrif og var prýðilegur leikari á þessum vettvangi, lék meðal annars aðalhlutverkin í Músagildrunni alræmdu og verki Dario Fo Sá sem stelur fæti er heppinn í ástum.

Eftir að ég frétti um veikindi Ketils á dögunum, var ég svo lánsamur að ná að heimsækja hann. Þótt sjúkdómurinn hefði sett sitt greinilega mark á hann, var húmorinn á sínum stað og gamla stríðnisglampanum brá fyrir í augunum, sem annars náðu ekki lengur að fókusera, hann sagðist sjá allt í móðu.

Elsku Hilda, ég votta þér og fjölskyldunni innilega samúð mína og fjölskyldu minnar, ber þér sömuleiðis kveðju bekkjarfélaga okkar Ketils úr gamla B-bekknum í MR. Jafn snöggleg og sorgleg veðrabrigði í mannlífinu eru óásættanleg en huggunin þó sú að minningin um góðan dreng mun lifa með okkur öllum.

Stefán Baldursson.

Jarðarfarirnar koma

þéttar og þéttar

eins og umferðarskiltin

þegar maður nálgast stórborg.

Þessar línur úr ljóði Tomas Tranströmer, Snö faller, koma í hugann þegar mér berst frétt um að stuttu en erfiðu dauðastríði Ketils Högnasonar tannlæknis sé lokið. Einn af öðrum fellur í valinn úr gamla vinahópnum í 6. bekk B í Menntaskólanum í Reykjavík 1964. Þá vorum við 28, nú eru 23 eftir; við nálgumst víst stórborg á vegferðinni.

Í bekkjarsystkinahópnum var Ketill, eins og ég hygg hafi verið á öllum sviðum þar sem hann lét til sín taka, afar traustur félagi. Skapgóður, gamansamur, vel lagður til leiks og söngs, eins og sagt hefði verið um fornmenn, tranaði sér samt aldrei fram og var umfram allt áreiðanlegur og hlýr. Glaðvær og yndisleg vinkona hans í skóla og síðar ævifélagi, Hildigunnur Davíðsdóttir, varpaði engum skugga á góða kosti Ketils, heldur studdi þá og efldi. Skilningur minn á því styrktist með árunum þegar samvinna okkar Hildigunnar í bekkjarráði leiddi okkur saman bæði á glöðum og döprum stundum.

Fyrir hönd B-bekkjarins þakka ég Katli Högnasyni skuggalausa samferð og sendi Hildigunni og öllum öðrum ástvinum hans innilega samúðarkveðju.

Heimir Pálsson.

Árið 1972 útskrifaðist óvenju stór hópur tannlækna frá tannlæknadeild HÍ. Þessi hópur hafði deilt saman kjörum í sex ár í námi og leik og bundist sterkum vináttuböndum. Hópurinn dreifðist til starfa víða um land. Þrátt fyrir fjarlægðir rofnuðu tengslin ekki og hópurinn hittist árlega með fjölskyldurnar á mismunandi stöðum á landsbyggðinni og naut samveru og fræddist um Ísland og íslenska náttúru. Þessar stundir eru mikilvægar minningar í hugum okkar og barna okkar. Nú er í fyrsta sinn höggvið skarð í hópinn er Ketill Högnason fellur frá langt um aldur fram, eftir skamma sjúkdómslegu. Hann var mikilsmetinn félagi í okkar hópi, traustur, hæglátur með góða kímnigáfu og gat verið hnyttinn í tilsvörum. Hann var dulur, en þó tilfinninganæmur maður. Hann var mikill fjölskyldumaður, pabbi og afi, sem helst vildi eyða frítíma sínum við að hlúa að heimili sínu og fjölskyldu. Hann var mikill leikhúsunnandi og tónelskur. Hann lék með áhugaleikfélögum og söng í mörg ár í Samkór Kópavogs ásamt eiginkonu sinni Hildigunni.

Ketill starfaði fyrst að almennum tannlækningum á Ísafirði og á Selfossi, en tók sig síðan upp og hélt til framhaldsnáms í tannréttingum í Noregi með stóra fjölskyldu studdur af sinni góðu eiginkonu.

Að námi loknu hóf hann störf sem tannréttingasérfræðingur í Reykjavík, mikils metinn sem slíkur og starfaði við það til dauðadags. Hildigunnur starfaði við hlið manns síns á tannlæknastofunni enda voru þau hjón mjög samstiga í öllu starfi.

Það er erfitt að setjast niður og skrifa minningargrein um félaga sinn, sem er kvaddur úr þessum heimi með svo stuttum fyrirvara. Fyrir tæpum tveimur mánuðum sátum við félagarnir á föstum laugardagsfundi og ræddum hin ýmsu málefni eins og við höfum gert mánaðarlega í mörg ár. Nú er sætið hans Ketils autt, en minningar um góðan dreng munu lifa í hugum okkar.

Við og fjölskyldur okkar vottum Hildigunni, börnum þeirra, aldraðri móður og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúð á þessum sorgartímum. Megi Guð blessa ykkur öll.

Skólafélagar útskrifaðir 1972.

Ketill Högnason er fallinn frá eftir stutta baráttu við illkynja sjúkdóm. Fregnin af veikindum Ketils kom eins og reiðarslag, og með fráfalli hans, eftir aðeins rúmlega tveggja mánaða sjúkdómslegu, er höggvið stórt skarð í þann litla hóp, sem fæst við að fegra bros Íslendinga með tannréttingum.

Fundum okkar Ketils bar fyrst saman föstudaginn 2. desember 1983, en þá kom ég í heimsókn í Tannlæknaháskólann í Ósló til að kynna mér sérnám í tannréttingum. Ketill var þar við nám á seinna ári og lauk sínu sérnámi sama sumar og ég hóf mitt. Þessi heimsókn er mér minnisstæð, því Ketill var mér afar hjálplegur, leiddi mig um deildina og kynnti mig fyrir starfsfólki og nemendum. Ég hafði ekki hitt Ketil áður og áttaði mig fljótt á því að hann hafði skemmtilegan, græskulausan húmor, sem hann beitti óspart þá og á síðari samfundum. Að kvöldi laugardagsins stóð Íslendingafélagið fyrir 1. desember skemmtun, og bauð Ketill mér að hitta þau Hildigunni og hann á heimili þeirra hjóna, þiggja fordrykk og fylgja þeim síðan á gleðskapinn. Ég hafði þá heyrt, að til siðs væri í Noregi að koma færandi hendi í boð sem þetta. Ég vildi sýna þessum nýju vinum mínum nokkurn sóma og brá því á það ráð að kaupa bjórkassa, sem ég burðaðist með og rétti Katli, þegar hann opnaði dyrnar. Ketill varð hálf hvumsa við, horfði fyrst á bjórana 24 og síðan mig, leit svo á klukkuna og sagði: "Ja, við höfum enn hálftíma til að klára þetta!" Þau hjón tóku mér opnum örmum, og ég kynntist þarna Hildigunni, sem reyndist vera einstaklega glaðvær og yndisleg kona og augljóst, að með þeim hjónum ríkti djúp ást og gagnkvæm virðing.

Ketill kom síðan heim sumarið 1984 og hóf störf við sérgrein sína. Eftir að ég hóf sjálfur störf við tannréttingar að loknu sérnámi urðu fundir tíðari, og hefur ekki borið skugga á samskipti okkar upp frá því. Þrátt fyrir að Ketill virtist dálítið hrjúfur á yfirborðinu varð maður þess fljótt var, að þar fór drengur góður, karlmaður með víkingasvip, viðkvæmt hjarta og hlýja lund. Ketill var mikill fagmaður, vandvirkur mjög og lagði metnað í að veita sjúklingum sínum persónulega þjónustu. Árangurinn hefur birst mér undanfarnar vikur í ummælum þeirra, sem til mín hafa leitað við starfslok Ketils. Þykir mér ákaflega vænt um að heyra hve fallega sjúklingar og foreldrar tala um Ketil, bæði sem fagmann og persónu.

Að leiðarlokum vil ég, fyrir hönd Tannréttingafélags Íslands, þakka Katli samfylgdina og votta fjölskyldu hans okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning Ketils Högnasonar.

Árni Þórðarson.

Við Ketill kynntumst þegar við áttum samleið í tannlæknanámi og bundumst þá vináttuböndum sem áttu eftir að reynast traust. Seinna fórum við í framhaldsnám í sömu grein og í sama skóla, þó á mismunandi tíma væri, og áttum síðan stöðugt samskipti vegna starfa okkar og hittumst á fundum og þingum. Ketill var athugull fagmaður, úrræðagóður, vandvirkur og farsæll. Í félagsskap okkar kolleganna lagði hann alltaf gott til mála, en baðst í hógværð sinni undan forystustörfum, hvað þá vegtyllum sér til handa. Það var miður, því enginn stóð honum á sporði þegar hann tók til máls eða stakk niður penna til að rökstyðja mál sitt. Þá fór hann einnig einatt á flug með sitt einstaka skopskyn sem var kaldhæðið og beitt, en þó aldrei persónulegt eða særandi.

Ógleymanlega ferð fórum við hjónin vestur um haf með þeim Hildu, sinntum faglegum erindum og könnuðum saman brennheitar indíánaslóðir í Mexíkó. Ekki var heldur í kot vísað að hitta þau hjónin heima eða í sumarbústaðnum þar sem hver hlutur ber vitni um handlagni, dugnað og listfengi þeirra beggja. Best var þó að njóta samvista við Ketil í árlegum ferðalögum okkar félaganna úr tannlæknadeildinni sem staðið hafa óslitið í tæpan aldarfjórðung. Fyrstu árin settu börnin mikinn svip á þessar fjölskylduferðir, en við skólabræðurnir höfum haldið áfram að hittast með eiginkonum okkar, skoðað nýja staði heima og erlendis, rætt um heima og geima, sungið, skálað og sagt sögur.

Nú er Ketill horfinn á braut úr þessum litla og samstillta hópi eftir stutta baráttu við illskeyttan sjúkdóm og ekkert verður aftur eins og fyrr. Það er sárt að sjá svo snögglega eftir Katli, en huggun er að hugsa til þess að hann átti góða ævi, samhenta fjölskyldu og vini sem munu minnast hans með virðingu og þakklæti. Á þessari sorgarstundu er hugur okkar Valgerðar hjá Hildigunni, Helga, Davíð, Guðbjörgu og fjölskyldum þeirra.

Teitur Jónsson.

Kveðja frá Samkór Kópavogs

Fallinn er í valinn einn dyggasti félagi okkar í Samkór Kópavogs svo furðu skjótt og alltof, alltof fljótt. Hver spinnur þennan örlagaþráð?

Minningar tengdar Katli hrannast upp, ótal ógleymanlegar stundir á kóræfingum, úr söngbúðum, frá tónleikum, úr utanlandsferðum, frá sumarferðum, allar jafn skemmtilegar.

Ketill með sínar hnyttnu, beinskeyttu athugasemdir og snaggaralegu framkomu, óborganlegur félagi og góður bassi.

Ketill söng með kórnum í rúm tíu ár. Þegar hann byrjaði hafði hann verið í "klappliðinu" álíka lengi. Hildigunnur hans sem sungið hefur með kórnum í fjölda ára átti örugglega sinn þátt í því að Ketill fór líka að syngja. Hann var kórnum sannkallaður happafengur.

Ketill var ekki einungis söngmaður í kórnum heldur tók alla tíð mikinn þátt í félagsstarfinu. Hann var meðal annars formaður kórsins frá 1998-2000.

Það kom í hans hlut að kveðja einn söngstjórann okkar í veislu sem haldin var þegar við sigldum um Dóná á söngferðalagi í Ungverjalandi. Þá talaði hann um að sér þætti erfitt að kveðja fólk. Sama gildir um okkur félaga hans í Samkórnum nú þegar við stöndum óvænt í þeim sporum að þurfa að kveðja Ketil í hinsta sinn.

Við kveðjum hann með söknuði og þökk og ljóðinu "Syngjum" sem flutt var á tónleikum kórsins vorið 1996.

Lagið og ljóðið er eftir Loft S. Loftsson:

Syngjum, syngjum sofendum draum,

vöktum vökuljóð.

Barni bænum bjartari heim,

sigurljóð og ástaróð.

Huggum, huggum hvar sem er þörf.

Þann er sorgir þjá.

Vermum hann með vinar hug

lát hann fá oss hugsvölun hjá.

Söngurinn þá svo ef ég má

sefi harm og þrá.

Okkar kæru Hildigunni og allri fjölskyldunni vottum við innilega samúð.

F.h. Samkórs Kópavogs,

Sesselja G. Sigurðardóttir.

Eftir stutta sjúkralegu er hann Ketill Högnason vinur minn frá unglingsárum látinn. Við kynntumst er við vorum 13 ára og erum búnir að fljóta saman æ síðan. Við bjuggum báðir á Kópavogsbrautinni í nábýli og gengum í sama skólann. Ég var heimagangur hjá Díu og Högna líkt og hann á heimili foreldra minna. Ketill var mjög sterkur persónuleiki, ákveðinn ef hann tók eitthvað í sig og fylgdi sinni sannfæringu út í eitt. Þær voru margar góðu minningarnar sem við áttum saman frá þessum árum frá ýmsum uppátækjum. Það skorti t.d. ekki ráðsnilldina er við rerum yfir í Arnarnes á árabáti búnum seglum sem Högni átti, í aftaka veðri og hugðumst sigla til baka yfir Kópavoginn. Ferðin yfir tók um það bil 30 mín. en flugið til baka 1-2 og var það mikil gæfa að við hittum á lendinguna og gátum kippt upp blýkilinum áður en báturinn þeyttist upp fjöruna.

Við vorum báðir í sveit í Bitrunni, að vísu hvor á sínum bænum og hvor á sínum tíma. Það voru því skemmtilegar stundir sem við áttum er við fórum nokkur haust saman í göngur í Bitrufjörðinn.

Við fórum í hvor í sinn menntaskólann en héldum samt sambandi. Ketill kynntist Hildigunni eftirlifandi eiginkonu sinni í MR. Þau tengdust strax mjög sterkum böndum og voru dugleg við stofnun heimilis. Leiðir okkar lágu svo enn á ný saman er við hófum báðir nám við tannlæknadeild HÍ.

Þau Ketill og Hilda byggðu sér sumarhús fyrir austan Selfoss og stunduðu þar skógrækt af kappi. Þar var of kátt á hjalla og ein minnisstæðasta ferðin þangað var er við Kristín kona mín vorum þar gestkomandi er allstór jarðskjálfti reið yfir líkt og hann hefði verið pantaður til að rugga húsinu sem byggt er á súlum.

Ketill og Hilda voru mjög samrýnd og áttu mörg sameiginleg áhugamál, t.d. leiklist, útskurð og sungu bæði í Samkór Kópavogs. Þau eignuðust þrjú mannvænleg börn, Helga, Davíð, og Guðbjörgu, og áttu alltaf nægan tíma fyrir þau og barnabörnin.

Það er með mikilli eftirsjá sem við sjáum á bak Katli en getum þó glaðst yfir minningunum um góðan dreng.

Við Kristín biðjum Guð að blessa Hildu, Díu, börnin og barnabörnin í sorg þeirra við þetta snögga brotthvarf ástvinar.

Jens S. Jensson.

"Við sjáumst í sumar." Svona kvöddumst við símleiðis á fallegu vorkvöldi. Ekki óraði mig fyrir því að þetta yrðu okkar síðustu orðaskipti, þrátt fyrir að fáum dögum áður hefði Ketill verið greindur með heilaæxli. En honum var ekki ætlaður lengri tími. Samt átti hann eftir að lifa heilan kafla í viðbót með Hildu og fjölskyldunni; kaflinn átti að innihalda rólegheitalíf án daglegs amsturs skakkra tanna, teina og víra. Kaflinn, þar sem Hilda og Ketill ætluðu að halda áfram að njóta lífsins; enn betur hvort með öðru. Hér lauk lífsbók Ketils Högnasonar alltof fljótt.

Við kynntumst Katli og Hildu fyrir 13 árum þegar þau komu austur á Egilsstaði til að sinna tannréttingum Austfirðinga. Áður höfðu þeir Austfirðingar sem kusu að láta rétta tennur sínar þurft að fara reglulega til Reykjavíkur með tilheyrandi kostnaði og umstangi. Í tíu ár komu Hilda og Ketill reglulega á sex vikna fresti með tangir og tól í farteskinu. Ekki hlaust af því einungis mikill sparnaður bæði fyrir sjúklingana og ríkið, heldur einnig umtalsvert hagræði fyrir alla aðila. Nema fyrir Ketil, sem reglulega lokaði fullum praxís í Reykjavík í viku og flaug austur á eigin kostnað ásamt sinni hægri hendi, henni Hildu. Faglega voru sjúklingar Ketils ekki sviknir, hvorki austanlands né sunnan heiða. Ketill hafði frábært auga fyrir fallegu brosi og kunni sitt fag betur en flestir. Hann var opinn fyrir nýjungum og alltaf tilbúinn í að hjálpa sjúklingum sínum, jafnvel þótt ekki væru alltaf farnar hefðbundnar leiðir. En Ketill var ekki bara frábær fagmaður. Hann var traustur og góður vinur, talaði ætíð af virðingu og háttvísi um aðra og það var gott að leita ráða hjá honum. Í pönnukökuveislunni um síðastliðin jól, lofaði hann mér því að ég gæti leitað í reynslubanka hans þegar ég myndi hefja störf á Íslandi. Af því verður ekki og verður hans sárt saknað. Missir Hildu, barna svo og barnabarna er þó mestur og geta engin orð huggað á slíkum stundum. Minningin um einstaklega vandaðan dreng mun lifa.

Kristín og Bjarni.

Hinsta kveðja

Leiðrétt 28. júní:

Glaðr og reifr skyli gumna hverr

Í minningargrein Heimis Áskelssonar um Ketil Högnason á blaðsíðu 24 í Morgublaðinu í gær, mánudaginn 27. júní, urðu tvær leiðar misritanir. Önnur varð í örstuttri tilvitnun í Hávamál. Þar átti að standa:

Glaðr og reifr

skyli gumna hverr

unz sinn bíðr bana

Hin villan var í tilvitnun í Hómer. Þar átti að standa: "En hvort heldur okkur þykja orð Hómers um að hinir ódauðlegu guðir muni "flytja þig til hins Elysiska vallar" við hæfi eða við tökum undir inngangsorð hinnar íslezku Hómilíubókar um að "Fögnuður verður þessa heims sá hæstur er góður maður fagnar engla tilkvomu á dauðastund sinni", er víst að minningin lifir um góðan dreng."