Ishiguro "Með því að gera bókina að þroskasögu virðist Ishiguro ætla henni að verða tilvistarleg tilraunastofa."
Ishiguro "Með því að gera bókina að þroskasögu virðist Ishiguro ætla henni að verða tilvistarleg tilraunastofa."
Siðfræði- og tilvistarspurningar í tengslum við einræktun manna eru undirliggjandi í nýrri skáldsögu Kazuos Ishiguros, sem ber þann tvíræða titil Never Let Me Go.

Meðal athyglisverðustu bóka frá nýliðnum vetri eru þrjár skáldsögur eftir virta höfunda sem allar fjalla á áleitinn hátt um málefni líðandi stundar og sýna að skáldsagan er enn sprækur og spennandi miðill. Þetta eru bækurnar The Plot Against America eftir Philip Roth, þar sem höfundur fæst við fasískar tilhneigingar í bandarískum stjórnmálum, Saturday eftir Ian McEwan, þar sem hryðjuverkaógnin í kjölfar árásanna á Tvíburaturnana er sett í persónulegt samhengi, og bókin sem hér er til umfjöllunar, Never Let Me Go eftir Kazuo Ishiguro, þar sem höfundur tekur fyrir siðferðis- og tilvistarspurningar er tengjast einræktun manna.

Kazuo Ishiguro hefur allt frá því hann sendi frá sér sína fyrstu bók árið 1982 verið í hópi virtustu rithöfunda Bretlandseyja. Hann er fæddur í Nagasaki í Japan árið 1954 en fluttist til Bretlands með foreldrum sínum þegar hann var sex ára og telst því breskur þótt japanskra áhrifa gæti stundum í skrifum hans, bæði í viðfangsefnunum sem hann velur sér og eins í óvæntri sýn á veruleikann. Best heppnaða bók Ishiguros er tvímælalaust skáldsagan The Remains of the Day ( Dreggjar dagsins í ísl. þýðingu Sigurðar A. Magnússonar), sem kom út árið 1989, þegar höfundurinn var einungis 35 ára. Þar má segja að ofurlítið framandlegt sjónarhorn hafi nýst Ishiguro til þess að gegnumlýsa á einstaklega magnaðan hátt eitt breskasta fyrirbæri sem til er, brytann, og þær skírskotanir til stéttaskiptingar og hefða sem honum fylgja.

Og það má með sanni segja að Ishiguro bregði óvæntu ljósi á veruleikann í nýjustu bókinni, þótt deila megi um hvernig honum hafi tekist upp að þessu sinni.

Svo grói um heilt

Sögumaður Ishiguros í Never Let Me Go er þrjátíu og eins árs kona, Kathy H., sem starfar á stofnun við umönnun svokallaðra gjafa. Þegar bókin hefst hefur henni nýlega verið tilkynnt að hún eigi sjálf að gerast gjafi eftir átta mánuði og hefur þá sinnt umönnun í tæp tólf ár. Þessi tímamót verða henni tilefni til þess að rifja upp ævi sína, ekki síst æskuárin í hinum að því er virðist ofurvenjulega Hailshamskóla, með fótbolta- og krikketvöllum og öðru tilheyrandi.

Svo skemmtilega vill til að orðið "hail" er skylt íslenska orðinu "heill" sem á fullkomlega við hér, því eins og síðar kemur í ljós er krökkunum í Hailsham öllum ætlað að verða varahlutalager fyrir annað fólk. Eini tilgangurinn með lífi þeirra er í rauninni að gefa úr sér líffærin eitt af öðru til að gera sjúka heila, s.s. þá sem þjást af krabbameini. Þótt talað sé bæði um gjafa og umönnun þeirra í blábyrjun bókarinnar er eins víst að lesandinn átti sig ekki fullkomlega á þessu strax þar sem hann fylgist með uppvaxtarsögu barnanna sem beinlínis er haldið óupplýstum um raunverulegan tilgang lífs þeirra. Auk þess er ekki tiltekið um hvers konar gjafa er að ræða. Sé tekið mið af káputexta, þar sem einræktunar er ekki getið, virðist lesanda ætlað að samsama sig sögupersónunum og upplifa með þeim áfallið þegar í ljós kemur að þau geta ekki ákvarðað framtíð sína sjálf, geta ekki eignast börn og valið sér ævistarf. Hitt er svo annað að flestir lesendur bókarinnar eru líklegir til þess að hafa heyrt af viðfangsefni hennar og því fellur þetta herbragð trúlega að hluta til um sjálft sig. Eftir stendur þá heimspekilegri nálgun á söguna þar sem spurt er "hvernig getur þetta gerst?" fremur en "hvað gerðist?"

Fremst í bókinni kemur fram að sagan á að gerast í Englandi á ofanverðum tíunda áratug síðustu aldar. Það þýðir að höfundur kemur einræktunarverkefninu fyrir á tíma sem okkur er í fersku minni, þ.e. um það leyti sem einræktun var fyrst reynd (kindin Dollý var einræktuð árið 1997). Þetta þýðir líka að áherslan er ekki á tækninýjungar sem slíkar, enda er hér ekkert nýtt hvað þær varðar; mönnum er löngu kunnugt um þá möguleika sem Ishiguro leggur til grundvallar sögu sinni. Höfundur dvelur ekki heldur við tæknilegar útfærslur og getur sagan því varla talist með hreinræktuðum vísindaskáldsögum eins og nærtækt hefði verið að álykta. Ishiguro virðist vilja árétta að hinir ískyggilegu atburðir sögunnar gerast á nýliðnum tíma þar sem flest samfélagsviðmið nútímans eru í gildi. Það er eins og hann vilji segja við okkur: Þetta gæti gerst á okkar tímum. Að öðru leyti fer þessi staðsetning í tíma og rúmi fyrir ofan garð og neðan, því bókin er frekar á heimspekilegu plani en félagslegu.

Í viðtali í The Guardian við útkomu bókarinnar staðfestir Ishiguro að hann hafi meiri áhuga á öðru en einræktuninni sjálfri. Hann segist hafa áhuga á því hvernig fólk í þessari stöðu höndli líf sitt, hvernig það fáist við þau nöturlegu örlög sem því eru sköpuð. Örlögin sem hann vísar til fela í sér að einhvern tíma berst hinum einræktuðu tilkynning um að þeir eigi að hefja umönnun líffæragjafa og misjafnlega mörgum árum síðar er þeim tilkynnt að þeir eigi að hefja líffæragjöf. Sumir ná að fara í allt að fjórar líffæragjafir áður en þeir "ljúka störfum", þ.e. safnast til feðranna, og fyrir slíku fólki er borin mikil virðing. En hvernig höndlar tiltölulega ungt fólk og gjörvilegt svo átakanleg örlög?

Skáldsagan sem tilraunastofa

Með því að gera bókina að þroskasögu virðist Ishiguro ætla henni að verða tilvistarleg tilraunastofa. Við fylgjum aðallega eftir þremur ólíkum "tilraunadýrum" sem eiga samleið allt frá barnæsku til fullorðinsára: sögumanninum Kathy sem fátt virðist hagga, vinkonu hennar Ruth sem kann að ráðskast með fólk og Tommy sem er örgeðja og verður að lokum ástmaður beggja. Í takt við persónugerð sína rekur Kathy uppvaxtarár þeirra á Hailshamheimilinu á lágstemmdan hátt eins og öll viðmið séu eðlileg. Það út af fyrir sig er bæði kostur bókarinnar og galli.

Börnin í skólanum eiga sér býsna venjulega æsku og í fyrstu er maður ekki viss nema þau séu eðlileg munaðarlaus börn. Smátt og smátt koma þó fram lítil atriði sem benda til þess að eitthvað sé hér öðruvísi gefið en vanalega, að börnin séu "sérstök". Það er t.d. lögð óvenju rík áhersla á heilbrigði. Börnin fara í læknisskoðun í hverri viku og heilbrigt líferni er haft í hávegum, t.d. sé mun brýnna en hjá venjulegu fólki að þau reyki ekki svo þau haldist "heilbrigð að innan" (63). Mikið er líka gert úr söng sem Kathy hlustar á og bókin dregur nafn sitt af. Að sögn sögumanns fjallar hann um konu sem hefur ekki getað eignast barn en tekst það að lokum fyrir eitthvert kraftaverk og óttast þá mjög að eitthvað komi fyrir barnið, að það fái sjúkdóm eða verði tekið af henni, og fer konan aftur og aftur með þessi orð, "never let me go", en þau er auðvelt að yfirfæra á stöðu og tilgang hinna einræktuðu; þeir eiga að tryggja að lífið sleppi aldrei af þeim hendinni. Í framhaldi af þessu kemur svo ein sterkasta sena bókarinnar, ein af fáum þar sem höfundi tekst að miðla trega, en þar stendur starfsmaður skólans og horfir með tárin í augunum á Kathy í eins konar mömmuleik að hlusta á lagið. Þarna gefur höfundur til kynna að ekki sé allt með felldu. Það er síðan staðfest þegar ein gæslukonan springur að lokum á launungarlimminu og segir nemendum og þar með lesendum allt af létta. Gæslukonan er rekin í kjölfarið og þannig beinir Ishiguro sjónum lesandans að því áhugaverða viðfangsefni hvort hollt sé að þekkja örlög sín.

Í Hailshamskóla er enn fremur lagt mikið upp úr listsköpun og sum verkanna sem krakkarnir búa til eru tekin til hliðar af gæslukonunum. Þetta vekur furðu meðal krakkanna sem smíða sér allt fram á fullorðinsár kenningar um tilganginn með þessu. Síðar kemur í ljós að hugmyndir þeirra eru ekki á rökum reistar, verkin eru tekin til þess að ákveðinn hópur mannúðarsinna geti sýnt almenningi fram á að einræktuðu börnin eigi sér innra líf rétt eins og annað fólk, að þau séu fullkomlega mennsk, en það átti þjóðfélagið erfitt með að horfast í augu við. Þegar hægt var orðið að lækna krabbamein, varð ekki svo auðveldlega snúið til baka af siðferðisástæðum einum og því var þessu óþægilega spursmáli ýtt til hliðar.

Falinn óhugnaður

Sú sérkennilega deyfð sem ríkir yfir frásögninni - atburðirnir sem Kathy lýsir eru flestir fáfengilegir og lítið er um tilfinningaleg ris - felur í senn og magnar þann óhugnað sem grunnhugmynd bókarinnar vekur. Látleysið og barnsleg einfeldnin sem einkenna bókina skapa viss úrdráttaráhrif þegar spenna myndast milli rislítillar frásagnarinnar og hins mikla óhugnaðar sem liggur í rauninni að baki. Óhugnaðurinn felst ekki bara í því að fólk skuli hafa verið framleitt til að gefa úr sér líffærin, heldur líka í því að sæmilega upplýstur og lífsreyndur lesandi veit að mannskepnan lætur fátt stöðva sig þegar kemur að óhæfuverkum og hefur ótakmarkaða hæfileika til þess að ráðskast með samferðalanga sína á Hótel Jörð. Lesandinn veit því að sú staða gæti vel komið upp í einhverju samfélagi að hræðsla okkar við sjúkdóma fengi okkur til að setja á stofn líkamspartasölu í einhverri mynd. Þetta er að vissu marki hliðstætt því þegar vestrænar þjóðir flytja inn fólk til þess að vinna minnst metnu störfin eða hneppa það í kynlífsþrælkun. Það er því ekkert nýtt að ein mannvera eða ákveðið samfélag taki sér vald yfir örlögum annarra; það þarf ekki annað en augnabliks afnám siðgæðisvitundar eða samkenndar til þess að fjandinn verði laus. Áðurnefnd deyfð felur líka í sér geðleysi hinna einræktuðu sem standa að mestu utan hins venjulega samfélags, taka hvorki þátt í því né ögra því, nokkuð sem vekur spurningar um trúverðugleik þess heims sem höfundurinn hefur skapað. Aðeins einu sinni er lýst ferð þeirra út í samfélagið - í leit að mögulegum frummyndum sínum - og þá horfa þau inn um glugga á venjulegt fólk að störfum. Það er engu líkara en þeir klónuðu hafi verið heilaþvegnir og gerðir að leiðitömum einstaklingum. Í því felst næstum jafn mikill óhugnaður og í einræktuninni sjálfri.

Hitt er svo annað að þær aðstæður sem lýst er í bókinni, yfirvofandi dauði á besta aldri, eru ekki ýkja fjarri þeim veruleika sem við lifum öll við: líf mannlegt endar skjótt. Margir þurfa að horfast í augu við banvæna sjúkdóma löngu áður en þeir eru orðnir saddir lífdaga og verða því af þjónustu líffæranna fyrir aldur fram. Þeir eru ekki í ósvipaðri stöðu og einræktuðu líffæragjafarnir. Ishiguro ýkir því sammannlegan tilvistarvanda í bók sinni þótt sá veigamikli munur sé á að ótímabær dauðdagi hinna einræktuðu er af manna völdum. Samt sem áður virðist svar Ishiguros við tilvistarvandanum mikla ekkert ýkja flókið eða óvænt og satt að segja varð bókin sjálf aldrei jafn áhrifamikil og hugmyndin sem býr að baki henni.

Höfundur er rithöfundur.