[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Grænmetið er ódýrara en heima en Hjörtur Einarsson sem býr í Amsterdam saknar íslenska fisksins og lambakjötsins. Laila Sæunn Pétursdóttir skrapp með honum í matvörubúð.

Hjörtur Einarsson er 28 ára íslenskufræðingur og málvísindamaður sem hefur geyst um Amsterdam á hjóli síðastliðin tvö ár. Hjörtur ferðast nánast allt á hjóli og fer næstum á hverjum degi út í búð til að kaupa í matinn.

Aðalbúðin sem Hjörtur gerir innkaupin í er Albert Heijn sem er Hagkaup Amsterdam en hann skýst þó oft niður til kaupmannsins á horninu sem er beint fyrir neðan íbúðina sem hann býr í og nær sér þar í nauðsynjar eins og appelsínusafa og brauð.

Grænmeti í staðinn fyrir kjöt

"Allir ferðast um á hjóli hér í Amsterdam og er það í menningunni að versla einungis í matinn fyrir hvern dag í senn og kannski morgunmatinn daginn eftir." Hjörtur er algjörlega búinn að aðlagast þessari menningu og er nú staddur í Albert Heijn til að kaupa í matinn. Það fyrsta sem blasir við þegar í verslunina er komið er grænmeti. "Ég kaupi mikið grænmeti, kærastan mín er grænmetisæta svo núna elda ég bara allt með grænmeti sem ég gerði áður með kjöti," segir Hjörtur og glottir. "Í kvöld ætla ég einmitt að gera hrísgrjóna-piccalilli með grænmeti sem ég gerði áður oft með kjúklingi. Ég uppgötvaði einmitt piccalilli þegar ég flutti hingað til Hollands þar sem Danir sem ég bjó með notuðu það til að búa til remúlaði." Hjörtur ákveður að hafa klassískt grænmeti í réttinum og setur ofan í körfuna spergilkál, sveppi, pakka með rauðri, grænni og gulri papriku, lauk, hvítlauk og chilli. Svo grípur hann snittubrauð, sem er við hliðina á grænmetinu, til að hafa með réttinum. "Mér finnst gaman að elda og hef einstaklega gaman af tilraunaeldhúsi - að elda er í raun eitt af mínum aðaláhugamálum. Ég vissi að það væri ódýrara grænmeti hér og því væri gott að nota tækifærið og prófa sig áfram með alls lags grænmeti. Reyndar bjóst ég við að lenda í grænmetisparadís sem stóðst reyndar ekki alveg væntingar mínar - en grænmetið er allavega ódýrt svo maður þorir að gera tilraunir."

Kaupir beint af bændum

Hjörtur fer stundum líka á markað í Amsterdam þar sem hann getur keypt beint af bændum sem er heldur ódýrara en í stórverslununum. "Maður getur keypt ýmislegt skrýtið grænmeti hér sem er svo miklu dýrara heima og maður tímir alveg að kaupa hér og gera tilraunir með. Svo er ég reyndar sjálfur með minn eigin grænmetisgarð úti á gluggakistunni minni og þar hef ég verið að rækta basilíku, oregano og mintu og nýlega var ég líka að sá papriku - það eru svo gaman að teygja sig bara út og ná í sína eigin ræktun og nota í matargerðina."

Þrátt fyrir að Hirti finnist einstaklega gott grænmetið í Amsterdam saknar hann nú þrátt fyrir allt íslenska lambakjötsins og fisksins. "Fiskur er rosalega dýr hér og hann er eiginlega bara spari. Svo er það saltið - saltið hér er bara "ónýtt", það er bragðlítið og ég veit að flestir Íslendingarnir sem búa hér taka með sér salt að heiman." Hjörtur heldur áfram að þeysast um búðina og nær í jógúrt fyrir morgunmatinn og hrísgrjón fyrir kvöldmatinn.

"Þó að ég sé búinn að búa hér í tvö ár er ég ekki enn farinn að átta mig á skipulaginu í búðunum hérna - ég meina - hrísgrjón við hliðina á súrum gúrkum og ólífuolíu - hvað er það?"

Nú er bara eftir að finna grænar baunir í dós og rauðvín til að hafa með matnum. "Það er annað sem er gott við að búa hér - það er allt í lagi að kaupa vín með matnum þar sem það er ekki svo dýrt, maður getur fengið ágætis rauðvín fyrir um 220 krónur og getur notið þess að fá sér eitt glas með dýrindis mat. Ég er líka svo heppinn í dag að ég á fullt af kryddi heima, og öðru dóti sem ég þarf í kvöldmatinn í kvöld svo ég slepp við að kaupa óþarfa dóterí - svo er náttúrlega snilld að hafa sinn eigin kryddjurtagarð," bætir Hjörtur svo við með brosi.

Nú er bara eftir að fara á kassann og borga, setjast á hnakkinn og hjóla svo heim að elda.

Piccalilli-hrísgrjón

Risotto hrísgrjón

grænmetisteningur

vatn

papríka

laukur

hvítlaukur

sveppir

spergilkál

grænar baunir

3 tsk piccalilli

smávegis af grófu sinnepi,

salt og pipar

basilíka til skreytingar

Hrísgrjónin soðin uppúr vatni og einum grænmetisteningi. Grænmetið steikt og hrísgrjónunum svo blandað saman við grænmetið. Látið krauma í svolítinn tíma og loks grænu baununum og kryddinu bætt við ásamt piccalilli og sinnepi og látið malla í smátíma.

Loks er basilíku stráð yfir og borið fram með brauði.

Laila Sæunn Pétursdóttir er sjálfstætt starfandi blaðamaður, búsett í London.