Davíð Oddsson utanríkisráðherra og Jóhannes Eidesgaard, lögmaður Færeyja, undirrita nýjan viðskiptasamning landanna í Þórshöfn í gær.
Davíð Oddsson utanríkisráðherra og Jóhannes Eidesgaard, lögmaður Færeyja, undirrita nýjan viðskiptasamning landanna í Þórshöfn í gær. — Morgunblaðið/Silja Björk
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Davíð Oddsson utanríkisráðherra og Jóhannes Eidesgaard, lögmaður Færeyja, skrifuðu undir nýjan viðskiptasamning ríkjanna í gær. Silja Björk Huldudóttir var viðstödd undirritunina og sat viðskiptaráðstefnu í kjölfarið.

Það er mikilvægt fyrir minni þjóðir veraldar að vinna saman og styðja hver aðra. Samningurinn sem hér er undirritaður í dag er skref í þá átt. Það er sannfæring mín að samningurinn veiti okkur tækifæri til að styrkja sambandið milli Færeyja og Íslands," sagði Davíð Oddsson utanríkisráðherra, við undirritun Hoyvíksamningsins, en svo nefnist fríverslunarsamningur Færeyja og Íslands sem undirritaður var við hátíðlega athöfn í Fornminjasafninu í Þórshöfn í gærdag.

"Hér er um að ræða sögulegan samning sem hefur mikla þýðingu fyrir Færeyjar. Með þessum samningi erum við að stíga fyrsta skrefið í þá átt að opna samfélagið fyrir umheiminum," sagði Jóhannes Eidesgaard, lögmaður Færeyja. Benti hann á að þótt Ísland væri ekki stórt land á heimsmælikvarða þá væri það samt sex sinnum stærra en Færeyjar.

"Og við getum í raun tekið okkur Íslendinga til fyrirmyndar og lært af þeim á öllum sviðum þjóðlífsins," sagði Jóhannes. Benti hann á að sífellt bærust fréttir af árangursríkri útrás íslenskra fyrirtækja og sagðist hann vonast til þess að færeysk fyrirtæki gætu notað sér þennan sama stökkpall.

Ekki gert ráð fyrir neinum eftirlitsstofnunum

Í samtali við Morgunblaðið að undirskrift lokinni sagði Davíð Hoyvíksamninginn þýðingarmikinn fyrir bæði löndin þar sem hann skapi fríverslunarskilyrði fyrir löndin með breiðari hætti en áður hefur verið gert.

"Í rauninni erum við að búa til íslenskt-færeyskt efnahagssvæði. Þess utan er í samningnum að finna ákvæði, sem ekki hefur verið í fyrri samningum landanna, þess efnis að það sé hreinlega brot gegn samningnum ef íbúarnir í báðum löndunum njóta ekki sömu réttinda, bæði í viðskiptum og eins varðandi önnur atriði sem snerta heilbrigðismál, menntamál og menningarmál," sagði Davíð og benti á til dæmis um hvað samningurinn væri víðtækur að í honum væri að finna ákvæði þess efnis að Íslendingar og Færeyingar ættu rétt til kosninga í sveitarstjórnarkosningum í því landi þar sem þeir ættu lögheimili, burtséð frá ríkisfangi.

Benti Davíð á að eitt af því sem gerði samninginn sérstakan væri að ekki er gert ráð fyrir að þörf væri á neinum eftirlitsstofnunum til þess að halda mönnum að samningnum.

"Samningurinn byggir þannig á fullkomnu trausti landanna á milli," sagði Davíð og bætti við að sjálfur hefði hann sannfæringu fyrir því að bæði menning landanna og viðskiptavenjur væru það svipaðar að ekki þyrfti "nein eftirlitströll til að halda mönnum við efnið".

Á blaðamannafundinum gerði Davíð sérstaklega að umtalsefni grein í samningnum þess efnis að heimilt er að veita fleiri aðilum eða hlutum af konungsríkinu Danmörku aðild að samningnum. Sagðist hann þannig sjá fyrir sér að reyndist fyrir því gagnkvæmur áhugi þá gætu Grænlendingar í framtíðinni átt aðild að samningnum. Spurður hvort hann hefði frekari væntingar til samningsins svaraði Davíð:

"Við gerum ráð fyrir að Færeyjar muni stíga frekari skref síðar meir til samstarfs við okkur innan EFTA. Þannig að hvert sem horft er er þessi samningur mikilvægur."

Minni aðilinn græðir á því að fá stærri markað

Í umræðunni í Færeyjum hefur þeirri spurningu verið velt upp hvort Ísland, sem stóri bróðirinn í samskiptum landanna, hagnist meira á Hoyvíksamningnum. Þegar þetta var borið undir Davíð sagðist hann vel geta skilið slíkar áhyggjuraddir.

"Okkar reynsla er hins vegar sú að minna landið sem fær aðgang að stærra landinu græðir á því. Þess vegna erum við að reyna að koma okkur inn í Kína, Indland og önnur stór lönd, vegna þess að við höfum þá reynslu að minni aðilinn græðir á því að fá stærri markað, vegna þess að stóri markaðurinn getur verið án minni aðilans en minni aðilinn síður án stærri aðilans. Ég held að þær áhyggjur séu algjörlega óþarfar."

Hoyvíksamningurinn tekur gildi þegar hann hefur farið fyrir þjóðþing beggja landa, en fastlega má gera ráð fyrir að það verði fyrir áramótin. Samkvæmt upplýsingum blaðsins er innan utanríkisráðuneyta beggja landa verið að skoða hvort þeir þættir samningsins, sem ekki krefjast lagabreytingar, geti hugsanlega komið til framkvæmda fyrr.

Útflutningur landbúnaðarafurða mun stóraukast

ÞAÐ sem er sérstakt við þennan samning, miðað við fríverslunarsamninginn frá 1992, er að hann dekkar öll svið viðskiptanna og er mun víðtækari varðandi vöruviðskipti en áður," segir Grétar Már Sigurðsson, skrifstofustjóri á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Hann bendir á að þótt gamli samningurinn hafi náð yfir vöruviðskipti þá hafi hann ekki náð yfir landbúnaðarafurðir nema að mjög verulega takmörkuðu leyti.

"Þessi samningur er sögulegur að því leytinu til að við höfum aldrei áður gert samning um fríverslun landbúnaðarafurða. Í fríverslunarviðræðum við aðrar þjóðir hefur aldrei einu sinni komið til greina að ræða þennan möguleika. Í þessum samningi tökum við hins vegar inn þetta svið og það þýðir að við munum stórauka útflutning á landbúnaðarafurðum til Færeyja og við munum einnig geta keypt landbúnaðarafurðir frá Færeyjum þar sem þeir eru aflögufærir, s.s. á sviði íss," segir Grétar og nefnir að markaður fyrir íslenskar mjólkurvörur sé stór í Færeyjum. Hann nefnir að öll íslensku skipafélögin séu farin að sigla reglulega til Færeyjar þannig að allar forsendur séu fyrir hendi til að auka viðskiptin sem hafi svo aftur áhrif á þjónustuviðskiptin, en hvort tveggja helst í hendur.

"Við fögnum þessum samningi af heilum hug," sagði Erlendur Garðarsson, markaðsstjóri hjá Kjötframleiðendum ehf.

Í samtali við blaðamann Morgunblaðsins í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn í gær sagði hann samninginn opna mikla möguleika á því að útvíkka sölusvæði Íslands. Að mati Erlends má ljóst vera að samningurinn felur ekki aðeins í sér aukningu á heimamarkaði um þau nærri 50 þúsund manns sem í Færeyjum búa. "Því mitt mat er að þetta feli í sér 60-70 þúsund manna aukningu á heimamarkaði, en það skýrist af því að hversu stór hluti erlendra skipa kostar sig hér í Færeyjum."

Að sögn Erlends munu ferskar landbúnaðarvörur frá Íslandi hafa mikla sérstöðu í Færeyjum. "Staðreyndin er nefnilega sú í dag að Þórshöfn í Færeyjum er eins langt í burtu eins og Þórshöfn á Langanesi með tilliti til flutningstíma, því það tekur næstum jafnlangan tíma að sigla til Þórshafnar í Færeyjum frá Reykjavík og það tekur að keyra á Þórshöfn á Langanesi. Þannig að ferskar vörur frá Íslandi koma til með að verða í sérstöðu hérna og eiga meiri möguleika en ferskar vörur frá Danmörku."

Meðal þess sem nú er í undirbúningi, að sögn Erlends, er að byggja aftur upp íslenska eggjamarkaðinn í Færeyjum, en á árum áður fluttu Íslendingar um 400 tonn af eggjum til Færeyja. Segir Erlendur málið unnið í góðri samvinnu við utanríkisráðuneytið og yfirdýralækni, auk þess sem lögð sé mikil áhersla á að vinna málið í fullri sátt og mögulega í samstarfi við heimamenn, en fundað verður um málið í Færeyjum á næstu dögum.

Felur í sér algera fríverslun og tollfrelsi

NÝR Hoyvíksamningur kemur á fót efnahagssvæði milli Íslands og Færeyja af svipuðu tagi og á Evrópska efnahagssvæðinu. Raunar gengur samningurinn lengra en EES-samningurinn þar sem hann mælir fyrir um að hvers konar mismunun á grundvelli þjóðernis eða búsetu manna, staðfestu lögaðila eða upprunalands vöru á svæðinu sé bönnuð milli samningsaðila, nema aðeins með örfáum undantekningum.

Með samningnum komast á frjáls viðskipti með vörur, þjónustu, fjárfestingar og frjálsa för fólks, en Íslendingum og Færeyingum á að vera jafnauðvelt að búa og starfa í hvoru landi fyrir sig án formlegra leyfa eða umsókna þar um.

Þetta var meðal þess sem fram kom í erindi Herlufs Sigvaldasonar, ráðuneytisstjóra á lögmannsskrifstofu Færeyja, sem hann hélt á viðskiptaráðstefnu sem fram fór fyrir troðfullum sal í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn í gærdag. Var ráðstefnan liður í opinberri heimsókn Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra til Færeyja.

Herluf Sigvaldason sagði samninginn koma á algerri fríverslun og tollfrelsi með allar vörur, þar með talið fiski. Hann muni ná til allra þjónustusviða og er Færeyingum heimilt að veita þjónustu eins og þeir væru Íslendingar og öfugt. Gerð verður krafa um sömu menntunar- og starfskröfur fyrir íslenska og færeyska einstaklinga án mismununar. Einnig er kveðið á um að veita skuli aðgang að skólum og menntastofnunum á jafnræðisgrundvelli, en íbúum landanna tveggja á með gildistöku samningsins að vera tryggður jafn aðgangur að allri þjónustu og heilbrigðiskerfi.

Alþjóðavæðing af hinu góða

Hvað fjárfestingar varðar sagði Herluf Sigvaldason að færeyskum aðilum yrði heimilt að fjárfesta á Íslandi að uppfylltum sömu skilyrðum og íslenskum aðilum er heimilt að fjárfesta á Íslandi, að frátöldum sérreglum um fjárfestingar í sjávarútvegi. Íslendingum eru heimilar fjárfestingar í Færeyjum með sömu skilyrðum og Færeyingum, að frátöldum sérreglum um fjárfestingar í sjávarútvegi og sérreglum um olíuvinnslu úr sjó.

Aðrir fyrirlesarar á ráðstefnunni voru Grétar Már Sigurðsson, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, sem fjallaði um fríverslunarnet Íslands og EFTA. Lagði hann í erindi sínu áherslu á að alþjóðavæðingin væri af hinu góða og kæmi sérstaklega smáríkjum til góða þar sem þau hefðu einmitt meiri þörf fyrir fríverslun. "Okkar sýn er að við þurfum stóra markaði fyrir sérvöru okkar. Þess vegna sjáum við fríverslunarsamninga við t.d. Kína ekki sem ógn heldur sem áskorun," sagði Grétar m.a. í erindi sínu.

Illugi Gunnarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra og formaður einkavæðingarnefndar, ræddi um einkavæðingu á Íslandi. Í erindi sínu fór hann í stuttu máli yfir sögulegar forsendur og nefndi þau lykilatriði sem huga þyrfti að við einkavæðingu. Sagði hann m.a. lykilatriði að hún væri skipulögð og útfærð í þaula og að mikilvægt væri að um hana ríkti almenn stjórnmálaleg samstaða.

Hafa miklar væntingar til samningsins

Marita Rasmussen frá Samtökum iðnaðarins í Færeyjum fjallaði um samstarfsmöguleika í sjávarútvegi. Í samtali við blaðamann sagðist hún hafa miklar væntingar til samningsins. Sagði hún þó ljóst að nokkur vinna væri framundan við að taka á þeim annmörkum og hindrunum, sem að hennar mati er að finna varðandi fiskafurðir. Sem dæmi um hindrun nefnir hún að íslenskir bátar megi aðeins landa á einum stað í Færeyjum á sama tíma og færeyskir bátar mega landa í öllum höfnum Íslands. Einnig nefnir hún að Færeyingar séu ekki alls kostar sáttir við að þeim íslensku bátum sem landi í Færeyjum sé refsað með kvótaálagi, þar sem 10% aukakvóti leggist við vigtaðan afla, sem þýðir að verðmætið verður minna. Segir hún mikið hagsmunamál að þessi verði breytt. Þess má geta að samkvæmt upplýsingum úr utanríkisráðuneytinu eru menn þegar farnir að skoða þetta og er unnið að því að finna lausn á þessu eins fljótt og auðið er til þess að þetta fyrirkomulag verði afnumið.

Velvild sem nýtist í viðskiptum

Í erindi sínu beindi Jákup Jacobsen, forstjóri Rúmfatalagersins, sjónum sínum bæði að útrás frá Íslandi og útrás frá Færeyjum til Íslands. Fjallaði hann þar um reynslu sína af því að koma fyrirtæki sínu á fót á Íslandi. Rifjaði hann upp ýmsa þá erfiðleika sem hann lenti í á upphafsárum Rúmfatalagersins þar sem hann mátti hvorki eiga hlutafé né leysa út vörur en hvort tveggja hefði verið auðsótt mál hefði Hoyvíksamningurinn þá verið í gildi.

Í máli sínu gerði Jákup Jacobsen velvild Íslendinga að sérstöku umtalsefni og sagði raunar um afar gagnkvæma velvild að ræða sem nýttist í samskiptum og viðskiptum þjóðanna. Þegar blaðamaður leitaði álits hjá honum á því hvort hann teldi samninginn mundu stuðla að auknum viðskiptum milli þjóðanna sagðist hann vona það og sagðist þegar hafa fengið allnokkrar fyrirspurnir samlanda sinna um það hvernig þeir ættu að bera sig að við að koma upp fyrirtæki á Íslandi.

silja@mbl.is