28. október 2005 | Innlendar fréttir | 1559 orð | 2 myndir

Samstarfssamningur um forvarnarverkefni í tíu evrópskum borgum sem stýrt er frá Íslandi

Samstarf háskólafólks hér heima og erlendis

Róbert Wessman forstjóri Actavis sem styrkir verkefnið í fimm borgum.
Róbert Wessman forstjóri Actavis sem styrkir verkefnið í fimm borgum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kostnaður við forvarnarverkefni í tíu Evrópuborgum að frumkvæði Íslendinga verður um 200 milljónir. Sunna Ósk Logadóttir kynnti sér verkefnið.
Okkar vísindafólk sem er að vinna á þessu fræðasviði, með ungt fólk og líðan þess í samfélagi sem verður sífellt flóknara og erfiðara að festa rætur í, kemur að þessu verkefni," segir Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands um aðkomu skólans og Háskólans í Reykjavík að forvarnarverkefninu. "Við munum því leggja fram sérfræðiþekkingu og vísindafólkið okkar taka að sér tiltekin verkefni í þessu forvarnarstarfi."

Guðfinna B. Bjarnadóttir rektor HR segir langtímareynslu komna á að nýta rannsóknargögn um ungmenni sem aflað hefur verið, framkvæma forvarnaraðgerðir og mæla árangur jafnóðum en nefna má að Þórólfur Þórlindsson prófessor í félagsfræðum og Inga Dóra Sigfúsdóttir hófu öflun gagna á vegum Reykjavíkurborgar vegna verkefnisins Ísland án eiturlyfja árið 1992. "Í stefnumótun í forvarnarstarfi þarf að mæla og meta og nota rannsóknir til þess að vita hvað virkar og hvað ekki," segir Guðfinna. Íslenskt "módel" hafi verið þróað hvað þetta varðar í mörg ár og nú er verið að flytja það út. "Það vill svo skemmtilega til að það eru vísindamenn úr báðum skólum sem hafa verið að vinna þetta og ætla að halda því samstarfi áfram."

Kristín Árnadóttir, varaformaður samtakanna Evrópskar borgir gegn fíkniefnum, segir að gagnagrunnur sem orðið hafi til með ungmennarannsóknum hér á landi sýni hvaða aðferðir í forvarnarstarfi virki. Hún tekur fram að rannsóknir sem liggja til grundvallar hafi ekki verið byggðar á úrtaki fárra heldur náð til allra grunnskólabarna í 10. bekk þau ár sem rannsóknin var gerð.

Guðfinna bendir á að í kjölfar rannsóknanna hafi verið bent á einfaldar aðgerðir til að bæta stöðu ungmenna. "Þær snúa meira og minna að nærsamfélagi barnanna, að passa að þau séu ekki lengi úti á ákveðnum aldri eða vakta partíin þeirra. [...] Það er alveg ljóst að þetta hefur áhrif og þess vegna er svo gaman að geta fært svona þekkingu yfir til annarra."

Kristín Ingólfsdóttir tekur í sama streng og segir stórkostlegt að reynsla Íslendinga geti nýst í löndum þar sem ekki er gerlegt að stunda rannsóknir af þessu tagi og vera með forvarnarstarf í kjölfarið.

Stærsta samstarfsverkefnið

Rektorarnir segja að í gangi séu nokkur samvinnuverkefni milli HÍ og HR en ekkert þeirra sé af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir. Guðfinna segir samstarfið eiga eftir að skila miklu, ekki síst sé til framtíðar litið. "Sú hugsun að nota rannsóknir í stefnumótun er svo mikilvæg."

Kristín Árnadóttir segir að í samningum sem gerðir verða við allar borgirnar séu gerðar þær kröfur að faglegur aðili ber ábyrgð á framkvæmdinni í hverju landi. Þetta þýði samstarf við háskólana í viðkomandi löndum.

Þekking og reynsla flutt út

VERKEFNI, sem unnið verður næstu árin í samvinnu tíu Evrópuborga í þeim tilgangi að berjast gegn fíkniefnaneyslu ungmenna, er byggt á íslenskum rannsóknum og árangri í forvörnum. Munu íslenskir vísindamenn, sem hafa áralanga reynslu af ungmennarannsóknum, koma að verkefninu og undirbúningi þess í samstarfi við háskóla í viðkomandi löndum. Fara þar fremst í flokki þau Þórólfur Þórlindsson, prófessor í félagsfræði, og Inga Dóra Sigfúsdóttir, doktor í félagsfræði, sem hafa unnið að viðamiklum rannsóknum á aðstæðum ungs fólks, en verkefnið Ísland án eiturlyfja, sem Dögg Pálsdóttir stýrði á sínum tíma, sýndi ótvíræðan árangur af forvarnarstarfi byggðu á traustum rannsóknargrunni og horfa önnur Evrópulönd nú til þess árangurs.

Í gær var á Bessastöðum skrifað undir samstarfssamning milli Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Reykjavíkurborgar um rannsóknarþátt verkefnisins. Þá var einnig undirritaður samningur milli Reykjavíkurborgar og lyfjafyrirtækisins Actavis um stuðning við verkefnið. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, er verndari verkefnisins en við undirritun samninganna í gær tók hann það fram að hann væri ekki aðeins að setja nafn sitt við verkefnið heldur ætlaði hann að koma að því með virkum hætti. Sagðist hann m.a. telja raunhæfan möguleika á að þjóðhöfðingjar viðkomandi landa tækju að sér að vera stuðningsaðilar verkefnisins. Borgirnar tíu eru, auk Reykjavíkur, Osló, Stokkhólmur, Helsinki, Riga, Vilníus, Belgrad, Sofia, Instanbúl og Pétursborg. Fimm fyrstnefndu borgirnar greiða fyrir eigin þátttöku en með stuðningi Actavis taka austur-evrópsku borgirnar fimm þátt. Fleiri borgir kunna að bætast við síðar.

Aðstæður og neysla rannsökuð

Verkefnið felur í sér rannsóknir á aðstæðum og fíkniefnaneyslu ungmenna og í kjölfar þeirra forvarnir í tíu borgum Evrópu. Verður verkefnið aðlagað aðstæðum í hverju landi fyrir sig, að sögn Kristínar Árnadóttur, varaformanns samtakanna Evrópuborgir gegn eiturlyfjum (European Cities Against Drugs), en verkefnið verður unnið á þeirra vegum en stýrt frá Íslandi.

Dagur B. Eggertsson, formaður evrópska stýrihópsins sem leiðir verkefnið, sagði á Bessastöðum í gær að það væri hið fyrsta sinnar tegundar og markaði útrás íslensks rannsóknarstarfs í félagsvísindum og útflutning á íslenskri þekkingu og árangri í forvörnum. Góður árangur hefði náðst í kjölfar ungmennarannsóknanna hér á landi í samstarfi við grasrótina.

Í tilkynningu um verkefnið kemur fram að í hverri þátttökuborg verði unnar kannanir að íslenskri fyrirmynd á notkun ungmenna á fíkniefnum, viðhorfi þeirra og aðstæðum. Þá verði einnig kannaðir lykilþættir sem rannsóknir sýna að mikilvægt sé að taka tillit til í forvarnarstarfi. Fyrsta könnunin verður gerð strax eftir áramót en stýrihópurinn og fulltrúar allra landanna sem að verkefninu koma munu hittast í Stokkhólmi í nóvember. Kannanir verða gerðar í borgunum reglulega næstu árin til að mæla árangur af forvarnarstarfi sem farið verður í.

Mikilvægur þáttur í verkefninu verður einnig viðamikið átak til að virkja fjölskyldur, íþróttafélög, skóla og aðrar samfélagslegar stofnanir til stórsóknar í baráttunni gegn fíkniefnum. Verkefnið Ísland án eiturlyfja sýndi m.a. að unglingar sem ættu fleiri samverustundir með foreldrum væru síður í hættu á að verða fíkniefnaneyslu að bráð.

Auk framlags Actavis, sem nemur 30 milljónum króna, leggja Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík fram sérfræðivinnu, rannsóknargögn og tölfræðigrunna auk rannsóknarfjár.

Einfaldar aðgerðir geta breytt miklu

"Ég frétti af þessu verkefni Reykjavíkurborgar og að Ólafur Ragnar Grímsson væri verndari þess og vakti það strax áhuga minn," segir Róbert Wessman, forstjóri Actavis, um forsögu þess að fyrirtækið ákvað að styðja við framkvæmd rannsókna á fíkniefnaneyslu ungmenna og aðstæðum þeirra í tíu evrópskum borgum en verkefninu er stjórnað frá Íslandi. Að auki styður Actavis sérstakt forvarnarátak í fimm borgum í Austur-Evrópu. Í heild er kostnaður við verkefnið um 200 milljónir króna og mun Actavis leggja fram stóran hluta beins fjárframlags sem fer í verkefnið eða um 30 milljónir og er fyrirtækið því stærsti styrktaraðilinn.

Róbert segist hafa heyrt af stóru íslensku rannsókninni um notkun ungmenna á fíkniefnum, viðhorfum þeirra og aðstæðum sem verður fyrirmynd kannana sem gerðar verða í þátttökuborgunum, en sú rannsókn var gerð á árunum 1998-2004. "Þar kom í ljós hversu mikil áhrif samfélagsþættir hafa á það hvort unglingar fara út í fíkniefnaneyslu eða ekki," segir Róbert. "Ein niðurstaðan er sú að reykingar, áfengisneysla unglinga og hvort börnin stundi íþróttir og eigi gott samband við foreldrana skipta mestu máli um hvort unglingar leiðist út í fíkniefnaneyslu." Segir Róbert að sér hafi þótt þær niðurstöður áhugaverðar og því hafi Actavis viljað styðja við verkefni byggt á því íslenska, víða í Evrópu. "Við vildum reyna að leggja okkar af mörkum, ekki aðeins hvað varðar rannsóknarþáttinn heldur einnig að koma skilaboðum áleiðis hvað þarf til að hlúa að börnunum."

Fjárstyrkur Actavis fer bæði í að styðja við samanburðarrannsóknir verkefnisins sem unnar verða hér í samvinnu Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík sem og að styrkja ungmennarannsóknir og forvarnir beint í fimm borgum af þeim tíu sem rannsóknin mun ná til. Er þar um að ræða borgirnar Vilníus í Litháen, Belgrad í Serbíu, Sófíu í Búlgaríu, Istanbúl í Tyrklandi og Pétursborg í Rússlandi en Actavis er með starfsemi í öllum þessum borgum.

Verkefni í fimm borgum þar sem Actavis hefur starfsemi

"Við völdum þessar fimm borgir þar sem við erum með starfsemi í þeim öllum í dag og fannst viðeigandi að tengja þær verkefninu," segir Róbert um ástæður valsins.

Actavis á stærsta lyfjafyrirtæki Búlgaríu og það þriðja stærsta í Serbíu. Þá er félagið með eitt stærsta lyfjafyrirtæki Tyrklands og með öfluga starfsemi bæði í Litháen og Rússlandi.

"Þessar borgir sem við erum að styrkja hafa ekki mikið bolmagn til að standa straum af kostnaði af svona forvarnarstarfi," segir Róbert. "Með því að styrkja verkefnið viljum við skila einhverju til baka til þessara samfélaga."

Róbert segist efast um að forvarnir séu öflugar í löndunum fimm og því enn þá meiri ástæða en ella til að styðja við verkefni sem beint sé að ungu fólki.

Spurður um hvað það hafi verið við þetta tiltekna verkefni sem hafi orðið til þess að Actavis tók þátt í því svarar hann: "Mér finnst fíkniefni og fíkniefnaváin vera eitthvað sem menn þurfa að beina kastljósinu að. Þegar ég heyrði af stóra íslenska verkefninu fannst mér niðurstaðan þar vera mjög athyglisverð og fannst að með tiltölulega einföldum aðgerðum væri hægt að koma í veg fyrir fíkniefnaneyslu unglinga. Með því að framkvæma svona rannsóknir og koma niðurstöðum þeirra vel til skila til foreldra og annarra hagsmunaaðila, t.d. skóla, og hvaða lykilþættir það eru sem geta haft áhrif á hvort börn leiðist út í fíkniefni eða ekki, þá tel ég að hægt sé að breyta miklu og þess vegna vildum við taka þátt í því."

Róbert segir þetta verkefni það fyrsta sinnar tegundar sem Actavis styrki en rifjar upp að fyrirtækið hafi m.a. verið styrktaraðili Umhyggju, Sjónarhóls og Unicef, auk þess sem félagið hefur ávallt stutt vel við íþróttafélög hér heima og erlendis.

Hann segir eitt af því mest spennandi við þetta evrópska forvarnarverkefni vera það að verið sé að flytja út íslenska þekkingu á sviði rannsókna og forvarna. "Það hefur ekki verið gert áður á þennan hátt og er mjög gaman að taka þátt í þeirri útrás."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.