— Morgunblaðið/Sverrir
HLUTHAFAFUNDUR FL Group samþykkti í gær að auka hlutafé félagsins um 44 milljarða að markaðsvirði. Þar er meðtalið hlutafé sem afhent verður í skiptum fyrir hluti í Sterling Airlines. Alls mættu fulltrúar 75% hlutafjár á fundinn.

HLUTHAFAFUNDUR FL Group samþykkti í gær að auka hlutafé félagsins um 44 milljarða að markaðsvirði. Þar er meðtalið hlutafé sem afhent verður í skiptum fyrir hluti í Sterling Airlines. Alls mættu fulltrúar 75% hlutafjár á fundinn.

Einnig var samþykkt að fækka stjórnarmönnum úr sjö í fimm. Sjálfkjörnir í stjórn FL Group voru Skarphéðinn Berg Steinarsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Magnús Ármann, Smári S. Sigurðsson og Þorsteinn M. Jónsson. Til vara Kristinn Bjarnason og Þórður Bogason. Á fundinum gerði Hannes Smárason forstjóri grein fyrir breytingum á skipulagi félagsins, nýjungum í rekstri og framtíðarhorfum.

Heildarhlutafé FL Group verður 80 milljarðar króna að markaðsvirði að loknu hlutafjárútboði, eigið fé um 65 milljarðar og gert er ráð fyrir að félagið velti um 100 milljörðum á ári eftir kaupin á Sterling. Heimilt verður að greiða fyrir nýja hluti í FL Group með hlutabréfum í nokkrum tilteknum félögum auk reiðufjár. Núverandi hluthafar hafa þegar skráð sig fyrir 28 milljörðum króna. Gert er ráð fyrir að lykilstarfsmenn fjárfesti fyrir þrjá milljarða, Kaupþing og Landsbankinn fyrir átta milljarða og sölutryggja þeir til viðbótar fimm milljarða króna útboð sem beint verður að fagfjárfestum.

Vilhjálmur Bjarnason, hluthafi og aðjúnkt við HÍ, spurði forstjóra og stjórn FL Group m.a. hvers vegna Sterling hefði ekki verið keypt á öðru og lægra verði og hve mikið bankarnir tækju fyrir að sölutryggja hlutafjárútboðið. Enn fremur hve stór hluti viðskipta með hlutafé í easyJet í ár og í fyrra hefði verið án þess að Flugleiðir og FL Group hefðu átt hlut að máli. Einnig bað hann endurskoðendur að upplýsa hvort þrír milljarðar hefðu verið fluttir af reikningi félagsins í þágu annarra en félagsins sjálfs.