4. nóvember 2005 | Tónlist | 590 orð | 1 mynd

Tónlist | Dimma sendir frá sér samnefnda plötu

Þyngri og kraftmeiri

Dimmu-menn eru ekki í því að mýkjast og stillast með aldrinum.
Dimmu-menn eru ekki í því að mýkjast og stillast með aldrinum.
Eftir Árna Matthíasson arnim@mbl.
Eftir Árna Matthíasson arnim@mbl.is
Hljómsveitin Dimma er á meðal þeirra sem láta fyrst í sér heyra á þessu hausti, en í næstu viku kemur út fyrsta breiðskífa sveitarinnar, samnefnd henni, og í dag og í kvöld heldur sveitin tvenna útgáfutónleika til að kynna væntanlega plötu. Þó Dimma sé ekki gömul í hettunni, aðeins ríflega ársgömul, hafa liðsmenn hennar víða komið við í íslensku og erlendu rokki, en þeir Geirdalsbræður fara fyrir Dimmu.

Þeir bræður Ingólfur og Sigurður Geirdal, Ingó og Silli, gerðu garðinn frægan með rokksveitinni Stripshow fyrir nokkrum árum sem vakti meðal annars athygli fyrir framsækið þungarokk og einkar líflega og lifandi leikræna tónleika. Hljómsveitinni auðnaðist að gefa út eina plötu, sem naut meðal annars talsverðrar hylli austur í Asíu, en lagði síðan upp laupana.

Þeir bræður voru ekki af baki dottnir og lögðust í ferðalög, spiluðu meðal annars víða um Bandaríkin með liðsmönnum úr hljómsveit Alice Cooper. Ingó gekk síðar til liðs við Quarashi um hríð, en Silli hefur verið iðinn við að aðstoða aðrar hljómsveitir í hljóð- og upptökumálum.

Langaði að gera bræðraplötu

Fyrir ári fóru þeir síðan að velta fyrir að sér að taka upp þráðinn við að gera músík saman. Þá langaði að taka upp bræðraplötu þar sem þeir myndu vera í aðalhlutverki en fá síðan hina og þessa í heimsókn í hljóðverið eftir því sem verkast vildi. "Þetta átti að vera okkar verkefni fyrst og fremst," segja þeir, en málin skipuðust á annan veg.

Fyrsti trommuleikari sem þeir kölluðu til sögunnar var Birgir Jónsson, en hann spilaði í titillagi plötunnar, laginu Dimmu, sem er einskonar "tónlistarmanifesto" sveitarinnar. Þegar kom að því að syngja lagið leituðu þeir til Hjalta Ómars Ágústssonar, góðkunningja þeirra bræðra, "en við vorum svo rosalega ánægðir með það að við sáum um leið að við myndum ekki fá okkur annan söngvara, hann myndi bara syngja allt." Þá voru þeir komnir með grunn að hljómsveit og svo slóst fjórði maðurinn í hópinn þegar Bjarki Þór Magnússon settist við trommusettið. "Hann átti líka bara að spila tvö eða þrjú lög, en svo var hann bara áfram eftir það og við vorum komnir með hljómsveit."

Allt bar þetta við fyrir ári, en á þeim tíma sem liðinn er hefur sveitin verið að grípa í að taka upp fyrstu breiðskífuna eftir því sem færi hefur gefist, þó ekki hafi hún eytt öllu árinu í upptökur.

Kórsöngur og tölvutækni

Eins og getið er var Stripshow fræg fyrir leikrænt rokk og reyndar líka hádramatískt, rokk í anda Alice Cooper, David Bowie og álíka kóna. Þeir bræður segja að enn eimi eftir af þess lags tónlist í því sem þeir gera í dag, en þeir hafi leiðst út í æ harðari tónlist, séu farnir að hlusta á Manson, Korn, Slipknot og álíka, og þess megi óneitanlega sjá stað í tónlist Dimmu - í stað þess að mýkjast og stillast eins og vill verða með menn eftir því sem aldurinn færist yfir eru þeir að verða þyngri og kraftmeiri. Þeir hafa líka tekið tölvutæknina í gagnið, nota hljóðsmala talsvert á plötunni og eins á tónleikum, enda gefur það tækifæri til að skreyta lög með kórsöng, svo dæmi sé tekið, en á plötunni eru einmitt tvö lög þar sem fjölmennur kór kemur við sögu, karlakór í öðru og kvennakór í hinu.

Dimma, fyrsta breiðskífa Dimmu, kemur út næstkomandi þriðjudag, en tvennir útgáfutónleikar sveitarinnar verða á Gauknum í dag. Fyrri tónleikarnir eru fyrir alla aldurshópa og byrja kl.17 en seinni tónleikarnir hefjast á miðnætti og er aðgangseyrir 500 kr. Á báðum tónleikunum spila einnig færeysku rokksveitirnar SIC og 48 Pages.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.