Birna Arnbjörnsdóttir er fædd 1952 og uppalin í Keflavík. Hún er málfræðingur að mennt. Hún lærði við háskólann í Texas í Austen. Hún starfaði í 15 ár við háskólakennslu í Bandaríkjunum og hefur kennt við enskuskor Háskóla Íslands frá árinu 2000. Hún er gift kona og á fjögur börn og tvö barnabörn.
Birna Arnbjörnsdóttir er fædd 1952 og uppalin í Keflavík. Hún er málfræðingur að mennt. Hún lærði við háskólann í Texas í Austen. Hún starfaði í 15 ár við háskólakennslu í Bandaríkjunum og hefur kennt við enskuskor Háskóla Íslands frá árinu 2000. Hún er gift kona og á fjögur börn og tvö barnabörn.

Nú er búið að opna framhaldsnámskeið í íslensku fyrir útlendinga á slóðinni www.icelandic.hi.is.

"Námskeiðið Icelandic Online 2 er frítt og öllum opið og fólk getur sinnt náminu hvenær sem því hentar," segir Birna Arnbjörnsdóttir, dósent í rannsóknum og kennslufræði erlendra tungumála við enskuskor Háskóla Íslands.

Námskeið þetta er að sögn Birnu þróað við HÍ í samvinnu við fimm erlenda háskóla.

En hvað kom hugmyndin?

"Hugmyndin vaknaði innan HÍ, þar var fólk sem áttaði sig á að það væru mun fleiri úti í heimi sem vildu læra íslensku en þeir sem hafa aðgang að námskeiðum hér á landi. Við erum með um 150 manns á dag á námskeiðinu og yfir 4.000 manns á mánuði í heild, af þeim eru fjórðungur á Íslandi," segir Birna.

Hvernig hafa viðbrögðin verið?

"Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð frá nemendum og í fræðasamfélaginu, allt frá Bangladesh til Brasilíu. Icelandic Online er notað í sjálfsnámi við Háskóla Íslands og einnig til að kenna erlendu starfsfólki HÍ íslensku. Síðan er það notað til þess að undirbúa þá mörg hundruð nemendur sem koma til Íslands á sumrin, m.a. á vegum Stofnunar Sigurðar Nordals, til þess að læra íslensku. Námskeiðið hentar engu að síður til kennslu í framhaldsskólum og í kennslu fullorðinna á Íslandi.

Þetta verkefni hefur verið unnið í samvinnu tæknifólks og íslenskufræðinga, kennara og íslenskulektora erlendis.

Kennslan er byggð á myndrænni framsetningu orðaforða og málnotkunar og gagnvirkum æfingum til þess að þjálfa málnotkun. Tölvan gerir okkur kleift að sýna breytingu orðanna á myndrænan hátt, t.d. hvernig orðin beygjast, fylgst er með á skjánum hvernig orðin taka breytingum í takt við notkun þátíðar og nútíðar, beyginga og svo framvegis.

Icelandic Online hefur verið í vinnslu í fjögur ár. Hitann og þungann af þessu verki hefur Kolbrún Friðriksdóttir verkefnisstjóri borið. Þetta námskeið er styrkt af Evrópusambandinu, Rannís og sjóðum Háskóla Íslands.

Námskeiðið er aðallega notað af uppkomnu fólki á ýmsum aldri, jafnt af báðum kynjum. Nýbúar á Íslandi hafa notað þetta talsvert þótt námskeiðið hafi ekki verið sniðið að þeirra þörfum sérstaklega ennþá. Í framtíðinni er hugmyndin að bæta á kennsluumhverfi sem er sérstaklega þróað til tungumálakennslu og hefur fengist til þess styrkur frá Minervuáætlun ESB.