Jólatréskandídatar skoðaðir Anna B. Sigurðardóttir og Benedikt Sigurjónsson í Hjallaskógi við Neskaupstað.
Jólatréskandídatar skoðaðir Anna B. Sigurðardóttir og Benedikt Sigurjónsson í Hjallaskógi við Neskaupstað. — Morgunblaðið/Kristín Ágústsdóttir
Neskaupstaður | Skógræktarfélag Norðfjarðar hefur legið í dvala í nokkur ár, en á aðalfundi sem haldinn var nýlega var kjörin ný stjórn.
Neskaupstaður | Skógræktarfélag Norðfjarðar hefur legið í dvala í nokkur ár, en á aðalfundi sem haldinn var nýlega var kjörin ný stjórn. Í henni eru: Anna Bergljót Sigurðardóttir formaður, Kristín Ágústsdóttir varaformaður, Gunnar Ólafsson ritari, Sigurborg Hákonardóttir gjaldkeri, Benedikt Sigurjónsson meðstjórnandi. Varamenn í stjórn eru Þórður Þórðarson og Bjarni Aðalsteinsson.

Mörg verkefni blasa við nýrri stjórn, en einna brýnast telur stjórnin vera að laga umhverfi Hjallaskógar ofan Neskaupstaðar, sem er mikið notað útivistarsvæði. Til þess að svæðið nýtist sem best þarf að lagfæra stíga og grisja skóginn.

Þá vill ný stjórn gera félagið sýnilegra í samfélaginu og í því skyni er m.a. stefnt að því að bjóða íbúum í Neskaupstað og Fjarðabyggð að koma í Hjallaskóg og saga sitt eigið jólatré. Til gamans má geta þess að Skógræktin hefur í mörg ár gefið jólatré úr Hjallaskógi sem Fjarðabyggð færir vinabæ sínum Sandavogi í Færeyjum á hverju ári.