[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hólar í Hjaltadal eiga 900 ára afmæli á næsta ári. Má gera ráð fyrir, að þeirra merku tímamóta í sögu staðarins verði minnzt með margvíslegum hætti.

Hólar í Hjaltadal eiga 900 ára afmæli á næsta ári. Má gera ráð fyrir, að þeirra merku tímamóta í sögu staðarins verði minnzt með margvíslegum hætti. Fáir staðir á Íslandi eiga sér jafnmerka sögu og Hólar og ánægjulegt að staðurinn er að rísa til vegs og virðingar á ný, þegar haldið verður upp á afmælið.

Á Hólum er nú að rísa fjölmennt háskólaþorp. Að vísu ekki eins fjölmennt enn sem komið er og háskólaþorpin á Hvanneyri og Bifröst en í ljósi hraða þeirrar uppbyggingar, sem nú stendur yfir má gera ráð fyrir, að Hólar verði ekki langt á eftir að nokkrum árum liðnum. Hvanneyri og Bifröst hafa þegar haft gífurleg áhrif á umhverfi sitt og átti ótrúlegan þátt í þeirri miklu uppbyggingu, sem nú stendur yfir í Borgarfirði.

Hólar eru þegar byrjaðir að hafa slík áhrif í sinni sveit og þarf ekki annað en skoða merkilegt rannsóknarsetur á Sauðárkróki þar sem fram fara rannsóknir í fiskeldi og fiskalíffræði til þess að átta sig á því.

Þeir, sem hafa markað Hólaskóla þá nýju stefnu, sem fylgt hefur verið um nokkurra ára bil hafa átt sína óskastund. Þegar skólinn var að leggjast af sem hefðbundinn landbúnaðarskóli fyrir tveimur áratugum eða svo lá kannski ekki beint við að hægt væri að endurnýja hann á grunni þriggja þátta; ferðamálafræða, hestamennsku og fiskeldisrannsókna. En það hefur tekizt með skemmtilegum hætti. Á Hólum er allt fullt af ungu fólki, sem stundar nám og rannsóknir á öllum þessum sviðum.

Á staðnum eru merkar byggingar, sem mikil áherzla hefur verið lögð á að varðveita. Eldri hluti gamla skólahússins, sem nú stendur er teiknaður af Rögnvaldi Ólafssyni en síðan teiknaði Guðjón Samúelsson hinn hlutann og er athyglisvert að sjá, hvernig hann hefur umgengist sköpunarverk starfsbróður síns. Ekki sízt nú á tímum, þegar mikil áherzla er lögð á að varðveita þær byggingar, sem Guðjón teiknaði. Guðjón fylgir forskrift Rögnvaldar en þó má finna mun á andrúmi þegar gengið er um þessi hús og ekki fráleitt að Rögnvaldur hafi vinninginn. Það hefur verið lögð mikil áherzla á að varðveita þetta hús. Á Hólum eru líka fjárhús, sem Guðjón Samúelsson teiknaði og ástæða til að varðveita þau og halda þeim við, þótt þau séu nú til annarra nota.

Hólar eru auðvitað þekktastir sem biskupsstóll og Hóladómkirkja einstök. Kirkjan hefur verið endurreist og endurnýjuð af þeirri vandvirkni, sem einkennir öll verk Þorsteins Gunnarssonar, arkitekts og leikara. Verk hans á þessu sviði eru raunar komin á það stig að tilefni væri til að taka saman yfirlit um þau í bók í máli og myndum.

Auðunarstofa setur sérstakan svip á Hóla. Um hana segir Jón Aðalsteinn Baldvinsson, vígslubiskup á Hólum, í aðfaraorðum bókar um það hús:

"Herra Bolli Gústavsson, vígslubiskup vakti fyrstur manna máls á því að nauðsyn væri á að byggja biskupsstofu á Hólum, enda hefði biskupinn þar enga viðhlítandi starfsaðstöðu. Kom honum þá til hugar að gaman væri að byggja hana í stíl við það hús, sem lengst gegndi því hlutverki á staðnum, sjálfa Auðunarstofu."

Og vígslubiskup lýkur orðum sínum á þennan hátt:

"Þar sem ég sit í Auðunarstofu hinni nýju og nýt þeirra forréttinda að mega hafa hana að vinnustað er mér efst í huga þakklæti til allra þeirra, sem lagt hafa gjörva hönd að því meistaraverki, sem þetta hús er. Guði sé lof fyrir listfengi þeirra og aðrar góðar gáfur, sem hann hefur þeim léð."

Hin nýju fræði

Nú er mikil uppsveifla í landbúnaði, sérstaklega í kúabúskap og mjólkurframleiðslu. Ný tækni hefur rutt sér til rúms og augljóst að þessi grein landbúnaðar er að blómstra á ný. Sumir segja, að sjá megi merki þess, að hið sama sé að gerast í sauðfjárrækt. Og þá má spyrja, hvort það hafi verið rétt stefna hjá Hólaskóla, að leggja kennslu í þessum greinum af. Svarið við þeirri spurningu er sjálfsagt einfalt. Sú uppsveifla, sem nú er sjáanleg í þessum gömlu landbúnaðargreinum var ekki hafin, þegar spurningin var um að marka Hólaskóla nýja stefnu eða horfast í augu við að skólinn yrði lagður niður. Og Hvanneyri sér um þessar gömlu greinar.

Getur hestamennska verið háskólanám? Það fullyrða þeir Hólamenn, sem halda því fram, að íslenzki hesturinn sé auðlind og rannsóknir á honum og kynbætur hafi leitt til þess, að við njótum nú þegar mikillar arðsemi af þeim fjármunum, sem lagðir hafa verið í íslenzka hestinn á undanförnum áratugum. Heim að Hólum koma ungmenni frá útlöndum til þess að stunda háskólanám í hestafræðum.

Sumir segja, að kynbæturnar hafi leitt til þess, að íslenzki hesturinn hafi ekki sama úthald og þrek og áður. Því neita sérfræðingarnir á Hólum en bæta við að hann sé að stækka vegna betra atlætis og betra fóðurs. Eru þeir að missa stækkunina út úr höndunum á sér?!

Eru ferðamálafræði efni í háskólanám? Þeir sem ekki eru innvígðir í þeim fræðum eiga kannski erfitt með að sjá það fyrir sér en þegar rýnt er í rannsóknarstarf sérfræðinga á þessu sviði opnast ný veröld. Er hægt að breyta strandmenningu Íslendinga í nýja auðlind? Hvað er strandmenning? Lífshættir fólksins í sjávarþorpunum og við blasir að hægt er að nýta þá lífshætti í þágu ferðamennsku.

Hitt fer ekki á milli mála, að rannsóknir á fiskeldi og fiskalíffræði hafa mikla þýðingu fyrir íslenzkan þjóðarbúskap. Í Skagafirði er starfandi merkilegt kaupfélag, sem er eitt af fáum kaupfélögum, sem hafa lifað af. Þetta kaupfélag er aðaleigandi eins stærsta sjávarútvegsfyrirtækis okkar Íslendinga og rekur bæði veiðar og vinnslu. Fyrir þá, sem muna vandræðin í útgerð og fiskvinnslu á Norðurlandi vestra fyrir nokkrum áratugum og endalausar ferðir forráðamanna þeirra fyrirtækja til Reykjavíkur til þess að fá liðsinni ráðamanna þar er ævintýri líkast að kynnast þeim umskiptum, sem orðið hafa á Sauðárkróki.

Þetta myndarlega sjávarútvegsfyrirtæki hefur afhent Hólaskóla til afnota glæsilega starfsaðstöðu við höfnina á Sauðárkróki til þess að stunda rannsóknir. Og kalla gjarnan "Hafnarháskóla". Þarna má sjá í verki samstarf atvinnulífs og háskóla. Þetta húsnæði er um 1500 fermetrar að flatarmáli. Skilar þetta sér í krónum og aurum í rekstri fyrirtækisins? Skagfirðingar segjast horfa til framtíðar og vera sannfærðir um að rannsóknarstarfið skili sér að lokum í krónum og aurum.

Sú mynd af Norðurlandi vestra, sem margir hafa í huga sér um landsvæði, sem sé að dragast aftur úr öðrum breytist, þegar starfsemin á Hólum og í "Hafnarháskóla" er skoðuð. En líkurnar á því að það verði álver, sem öllu breyti í þessum landshluta eru litlar. Líklegra er að blómleg háskólastarfsemi, öflugur sjávarútvegur og uppsveifla í landbúnaði eigi eftir að setja mark sitt á þennan landshluta. Kaupfélagsmenn í Skagafirði voru í hópi þeirra fyrstu, sem gerðu sér grein fyrir mikilvægi mjólkurkvótans fyrir landbúnaðinn og stuðluðu snemma að því að bændur þar í grennd gætu keypt kvóta. Með því var lagður grunnur að sterkri landbúnaðarstarfsemi til framtíðar.

En þegar horft er til sögu Hólastóls hljóta þær spurningar að vakna, hvort samstarf við guðfræðideild Háskóla Íslands geti ekki orðið ein af þeim stoðum, sem standa undir háskólastarfsemi að Hólum. Hvar er betra að stunda rannsóknir í kirkjusögu en einmitt þar?

Það væri sjálfsagt efni í heila ráðstefnu að velta því fyrir sér hver hafi verið merkastur þeirra biskupa, sem setið hafa að Hólum. Var það Guðbrandur Þorláksson eins og sumir halda fram eða var það Jón Arason eins og aðrir mundu telja? Það má sjá merki þess, að kirkjunnar menn haldi fram Guðbrandi en stjórnmálamenn Jóni. Það gæti verið fróðlegt að fá fram sjónarmið kirkjumálaráðherrans um það efni.

Það er líka hægt að spyrja, hvort rannsóknir í prentsögu okkar Íslendinga eigi betur heima á Hólum en annars staðar í ljósi þeirra miklu afreka, sem þar voru unnin á því sviði.

Þegar horft er heim til Hóla fer ekki á milli mála, að ríkt tilefni er til að halda upp á afmæli staðarins með veglegum hætti. Á Hólum hefur verið unnið afrek við nýja uppbyggingu staðarins. Skúli Skúlason, rektor og hans fólk geta horft með stolti yfir farinn veg á undanförnum árum. Alþingi og ríkisstjórn hafa stutt við bakið á þeim, sem hafa forráð á Hólum og eiga að gera það áfram. Nái áform Hólamanna fram að ganga munu Hólar verða einn helzti kjarni menningarstarfs á Norðurlandi á komandi árum.

Söguskýringar sagnfræðings

Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, vék orðum að umfjöllun hér í Reykjavíkurbréfi um bók hans um stjórnarmyndanir Kristjáns Eldjárns í grein hér í blaðinu sl. miðvikudag. Hér verður einungis vikið að einu atriði í athugasemdum hans. Guðni dregur í efa, að frásögn Kristjáns Eldjárns af samtali við Gunnar Thoroddsen sumarið 1974 geti talizt svo mikil tíðindi, sem talið var í umræddu Reykjavíkurbréfi þar sem svipaðra orða sé getið í valdatafli í Valhöll eftir þá Anders Hansen og Hrein Loftsson, sem út kom árið 1980 en bætir því við, að þau hafi að vísu ekki verið höfð beint eftir Gunnari. Á þessum heimildum er auðvitað grundvallarmunur. Frásögn Kristjáns Eldjárns setur þetta mál allt í nýtt ljós.

Gunnar heitinn Thoroddsen réttlætti stjórnarmyndun sína og klofning Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma með því að hann hefði verið að bjarga stjórnarkreppu, sem komin hefði verið í algera sjálfheldu. Vísbendingar, sem fram hafa komið um, að hugmyndir hans hefðu átt sér lengri aðdraganda og að hann hefði jafnvel rætt þær við einstaka trúnaðarvini sína fyrir kosningar í desember 1979 settu þá stjórnarmyndun í annað ljós.

En um leið og staðfest er að þessar hugmyndir eigi sér svo langa sögu, sem fram kemur í dagbókarfærslum Kristjáns Eldjárns verður að sjálfsögðu að skoða allt þeta mál upp á nýtt.

Hefði Gunnar Thoroddsen ekki tekið ákvörðun um að hverfa af vettvangi stjórnmálanna árið 1965 eru yfirgnæfandi líkur á því að hann, sem verið hafði varaformaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1961 hefði tekið við formennsku í Sjálfstæðisflokknum við andlát Bjarna Benediktssonar sumarið 1970. Jafnvel þótt hann hefði átt andstöðu að mæta frá forsetakosningunum 1952.

Ummæli Gunnars við Kristján Eldjárn sumarið 1974 benda eindregið til þess að hann hafi aldrei sætt sig við niðurstöðu varaformannskjörsins milli hans og Geirs Hallgrímssonar á landfundi 1971, þar sem Geir gekk með sigur af hólmi og tók svo við formennsku í Sjálfstæðisflokknum af Jóhanni Hafstein.

Þegar horft er til ummæla Gunnars sumarið 1974 og stjórnarmyndunar hans tæpum sex árum síðar verður ljóst að stjórnarmyndun undir hans forsæti hefur verið markmið hans árum saman, kannski vegna þess að hann tók úrslitum forsetakosninganna 1968 þunglega eins og allir vissu, sem ræddu við hann í Kaupmannahöfn næstu misserin á eftir.

Það fór ekkert á milli mála á árunum 1974 til 1978, að það ríkti ekki eindrægni með formanni og varaformanni Sjálfstæðisflokksins á þeim árum, sem ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar sat, þótt Gunnar hefðist lítt að framan af. Og í ljósi þeirra upplýsinga, sem nú liggja fyrir er auðvitað ljóst, að það hefur verið meira en erfitt fyrir Geir Hallgrímsson að eiga samstarf við ríkisstjórnarborðið annars vegar við eigin varaformann, sem hafði annað í huga og við Ólaf Jóhannesson, sem átti afar erfitt með að sætta sig við hrakfarir vinstri stjórnar hans undir lokin.

Á þeirri stundu, sem úrslit borgarstjórnarkosninganna lágu fyrir vorið 1978 var Geir Hallgrímssyni ljóst, að atlaga yrði gerð að honum innan Sjálfstæðisflokksins, sem og var gert næstu árin á eftir og þar voru fremstir í flokki Gunnar heitinn Thoroddsen og Albert heitinn Guðmundsson. Sú atlaga verður enn skýrari, þegar fyrir liggur hvað Gunnar hafði haft í huga frá sumrinu 1974.

Leiftursóknin 1979 skiptir í sjálfu sér ekki meginmáli í þessu sambandi. Hún átti rætur að rekja til kröfugerðar ungra manna á þeim tíma um að Sjálfstæðisflokkurinn segði fyrir kosningar hvað hann ætlaðist fyrir eftir kosningar. Hinir eldri og reyndari menn innan flokksins töldu slíka pólitík tóma vitleysu en Geir Hallgrímsson var alltaf veikur fyrir sjónarmiðum ungu kynslóðarinnar og vildi láta á þau reyna.

Það eru meiri efni til að gagnrýna Geir Hallgrímsson fyrir ákvarðanir hans veturinn 1978 í stríðinu, sem þá stóð við verkalýðshreyfinguna. Þá var spurningin þessi: á að sýna ábyrgð og grípa til nauðsynlegra ráðstafana strax eða á að reyna að halda efnahagslífinu gangandi fram yfir kosningar og grípa þá til óhjákvæmilegrar kjaraskerðingar.

Viðbrögð Geirs Hallgrímssonar sem stjórnmálamanns við þessari spurningu sýndu hverjar grundvallarskoðanir hans voru í pólitík. Hann taldi óhjákvæmilegt sem forsætisráðherra að sýna ábyrgð, hvað sem svo gerðist í kosningunum um vorið. Honum og flokki hans var refsað fyrir að sýna þessa ábyrgð.

Samstaða í stjórnmálaflokki skiptir miklu máli. Ummæli Gunnars Thoroddsens sumarið 1974 sýna að engin slík samstaða var innan Sjálfstæðisflokksins þegar á þeim tíma. Þær röksemdir, sem Gunnar Thoroddsen notaði í ársbyrjun 1980 til þess að réttlæta stjórnarmyndun sína standast ekki. Hann hafði stefnt að því í nokkur ár að grípa slíkt tækifæri ef það gæfist og stuðlaði að því að það gæfist með því að gefa andstæðingum til kynna hvað hann hefði í huga. Það er með þessum rökum, sem því var haldið fram í Reykjavíkurbréfi fyrir tveimur vikum, að um sögulega uppljóstrun væri að ræða í bók Guðna Th. Jóhannessonar og illskiljanlegt hvers vegna sagnfræðingurinn ungi er ekki ánægður með að athygli skuli vakin á því að slíkar upplýsingar skuli vera að finna í bók hans.

Getur verið að hann hafi "haldið með" einhverjum söguhetjum, sem hafi truflað dómgreind hans?!