ENSKI kylfingurinn Luke Donald lék á 8 höggum undir pari á lokadegi Target World mótsins í Kaliforníu í gærkvöld eða á 64 höggum og dugði það til sigurs þar sem Darren Clarke frá N-Írlandi missti flugið þegar mest á reyndi og endaði hann tveimur höggum...

ENSKI kylfingurinn Luke Donald lék á 8 höggum undir pari á lokadegi Target World mótsins í Kaliforníu í gærkvöld eða á 64 höggum og dugði það til sigurs þar sem Darren Clarke frá N-Írlandi missti flugið þegar mest á reyndi og endaði hann tveimur höggum á eftir Donald. Donald var samtals á 16 höggum undir pari eða 272 höggum og fékk hann rúmlega 83 millj. kr. fyrir sigurinn en aðeins 16 kylfingar tóku þátt á mótinu þar sem Tiger Woods var gestgjafi en samhliða mótinu fer fram mikil söfnun til góðgerðarmála.

Clarke var með tveggja högga forskot fyrir lokadaginn, en hann fékk skolla á 16. og 18. braut, og missti þar með Donald fram fyrir sig. "Ég lék vel og sem betur fer fyrir mig gerðu þeir það ekki sem voru í efstu sætunum fyrir lokadaginn. Það má með réttu segja að ég hafi fengið hjálp frá þeim," sagði Donald en Clarke lék lokahringinn á 72 höggum og 274 höggum en jafnir í þriðja sæti voru þeir Padraig Harrington frá Írlandi og Michael Campbell frá Nýja-Sjálandi á 276 höggum en þeir léku lokahringinn á 73 höggum.

"Ég vissi að ég ætti möguleika ef ég næði að leika á 7-8 höggum undir pari. Átta undir pari var markmiðið hjá mér og á þessum velli er hægt að ná í nokkra fugla hér og þar. Að þessu sinni lék ég stöðugt frá teig og að flöt og pútterinn sveik mig ekki," bætti Donald við.

Lokastaðan:

272 - Luke Donald 72-68-68-64

274 - Darren Clarke 65-73-64-72

276 - Padraig Harrington 68-70-65-73,

Michael Campbell 63-72-68-73

277 - Kenny Perry 69-70-66-72

279 - David Toms 73-70-70-66,

Tim Clark 71-70-69-69

280 - Thomas Björn 70-71-70-69

282 - Fred Couples 71-68-70-73,

Jim Furyk 73-68-73-68

283 - Chris DiMarco 72-68-70-73,

David Howell 72-68-73-70

284 - Fred Funk 72-73-69-70

286 - Tiger Woods 72-72-69-73,

Colin Montgomerie 76-70-69-71

290 - Davis Love 76-67-73-74