* SNORRI Steinn Guðjónsson skoraði sjö mörk, þar af þrjú úr vítakasti, þegar lið hans GWD Minden vann stórsigur á Pfullingen , 27.16, á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik á laugardag. Þar með lyftist GWD Minden upp í 15. sæti deildarinnar.
* STURLA Ásgeirsson var markahæstur hjá Århus GF með sjö mörk þegar liðið tapaði fyrir Veszprem , 28:31, á heimavelli í síðari leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í Árósum á laugardag. Århus GF er fallið úr leik, liðið tapaði fyrri leiknum einnig.
* DANÍEL Ragnarsson gerði fjögur mörk fyrir Team Helsinge þegar liðið vann Fredericia , 26.29, á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Fannar Þorbjörnsson skoraði ekki fyrir Fredericia .
* HRAFNHILDUR Skúladóttir skoraði sjö mörk þegar lið hennar SK Aarhus vann Silkeborg-Voel KFUM , 28:21, í næstefstu deild danska handknattleiksins í gær. SK Aarhus er í efsta sæti deildarinnar með 22 stig að loknum 12 leikjum, tveimur stigum á undan Tvis Holstebro .
* EINAR Örn Jónsson skoraði ekki mark fyrir Torrevijea þegar liðið tapaði á heimavell fyrir Cantabria , 28:29, í spænsku 1. deildinni í handknattleik. Torrevieja er í 13. sæti af 16 liðum í deildinni með 9 stig.
* ÞÓRIR Ólafsson komst ekki heldur á blað yfir markaskorara hjá TuS N-Lübbecke þegar liðið tapaði naumlega fyrir Düsseldorf í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gær, 26:25. Lübbecke er í 11. sæti deildarinnar en Düsseldorf í því þréttánda.
* HEIÐMAR Felixson gerði þrjú mörk fyrir Burgdorf þegar liðið vann HSG Varel , 30:27, á heimavelli í norðurhluta þýsku 2. deildarinnar í handknattleik í gær. Burgdorf er komið upp í 6. sæti deildarinnar með 18 stig að loknum 16 umferðum.
* ÆGIR Hrafn Jónsson , varnarmaðurinn sterki í Val, er meiddur og er ekki reiknað með að hann leiki á ný með Valsmönnum fyrr en í febrúar.
* DEJAN Peric , markvörður Barcelona og landsliðs Serbíu/Svartfjallalands , leikur ekki handknattleik næstu átta vikurnar hið minnsta eftir að hafa meiðst illa á hásin í leik Barcelona og Magdeburg í meistaradeild Evrópu á laugardaginn. Peric er einn allra besti markvörður heims og verður skarð fyrir skildi fyrir hann í landsliði Serbíu/Svartfjallalands á EM í Sviss í byrjun næsta árs þar sem það er m.a. í riðli með íslenska landsliðinu.