"Það er allt hægt. Manni er kannski sagt að batahorfurnar séu 90 prósent eða 50 prósent eða eitt prósent, en maður verður að trúa og maður verður að berjast.

"Það er allt hægt. Manni er kannski sagt að batahorfurnar séu 90 prósent eða 50 prósent eða eitt prósent, en maður verður að trúa og maður verður að berjast. Með því að berjast á ég við það að brynja sig með öllum mögulegum upplýsingum, leita álits hjá öðrum, þeim þriðja og þeim fjórða. Reyna að skilja hvað það er sem hefur gert innrás í líkamann og hvaða lækningaleiðir koma til greina. Sýnt hefur verið fram á að upplýstur og meðvitaður sjúklingur er líklegri en aðrir til að verða langlífur.

Hvað ef ég hefði tapað? Hvað ef krabbameinið hefði tekið sig upp aftur? Ég trúi því samt að ég hefði grætt eitthvað á baráttunni því ég hefði verið heilli, haft meiri samlíðan með náunganum og verið skynsamari þann tíma sem ég hefði átt eftir og þar af leiðandi verið meira lifandi. Það er eitt sem sjúkdómurinn hefur algjörlega sannfært mig um - fremur en reynslan af því að vera íþróttamaður - og það er að við erum miklu betri en við höldum. Við búum yfir ónýttum hæfileikum sem stundum koma ekki fram fyrr en syrtir í álinn.

Og ef það er einhver tilgangur með þeirri þrautagöngu sem krabbamein er, hlýtur hann að vera þessi: Að gera okkur að betri mönnum.

Ég mun alltaf geyma í hjarta mínu lexíuna sem krabbameinið kenndi mér og mér finnst ég vera hluti af krabbameinssamfélagi.

Mér finnst að mér beri skylda til að gera eitthvað meira og betra úr lífi mínu en áður og hjálpa öðrum sem berjast við sjúkdóminn. Þetta er samfélag þeirra sem deila þessari reynslu. Hver sá sem hefur heyrt orðin Þú ert með krabbamein, og hugsað: Guð minn almáttugur, ég dey, er hluti af því.

Ef maður hefur einu sinni tilheyrt því gerir maður það um aldur og ævi.

Úr bókinni Þetta snýst ekki um hjólið eftir Lance Armstrong sem er nýkomin út í íslenskri þýðingu.

Úr bókinni Þetta snýst ekki um hjólið eftir Lance Armstrong sem er nýkomin út í íslenskri þýðingu.