Víkverji var lengi staðfastur og jafnvel ofstækisfullur innisetumaður. Hann var tortrygginn á allar hugmyndir sem merktu að hann þyrfti að sætta sig við rigningu og rok í andlitið, hvað þá él.

Víkverji var lengi staðfastur og jafnvel ofstækisfullur innisetumaður. Hann var tortrygginn á allar hugmyndir sem merktu að hann þyrfti að sætta sig við rigningu og rok í andlitið, hvað þá él. En hann hefur á seinni árum uppgötvað að til er líf utan dyra. Meira að segja mjög skemmtilegt líf.

Hann komst að því að hægt er að klæða margt af sér og íslensk veðrátta er ekki verri en svo að slagurinn við hana er ekki fyrirfram tapaður. Regngallar og traustar úlpur, gönguskór og kuldastígvél, þetta eru allt góð vopn. Svo má ekki gleyma hetjutilfinningunni sem hríslast um Víkverja þegar afrekinu er lokið, moldin skafin af skónum, vatnið hrist af fötunum og skriðið aftur inn í hlýjuna.

En Víkverji hefur líka fundið sér nýtt áhugamál sem er fuglaskoðun.

Hann nýtur þar góðrar leiðsagnar, meðal annars hjá vinnufélaga sem einnig er nýgræðingur á þessu sviði en samt kominn lengra og þekkir orðið allmargar tegundir. Tegundafjöldinn er að vísu ekki mikill hér á landi miðað við mörg önnur lönd. En Reykvíkingar þurfa ekki að fara langt, Seltjarnarnes er mikil fuglaparadís og þar er fjöldinn allur af sjó- og vaðfuglum. Netið kemur að góðu gagni við þetta áhugamál. Nefna má Fuglavef áhugamanna á Hornafirði en á þeim slóðum sjást oft sjaldgæfir, erlendir flækingar.

Nemenda í Borgarhólsskóla á Húsavík reka líka vefsíðu (http//borgarholsskoli.hexia.net/fuglar) þar sem finna má margvíslegan fróðleik um fugla. Hann er ekki síst góður fyrir byrjendur sem oft þurfa að kljást við vanda sem þjálfaðir náttúruskoðendur þekkja síður. Og heyra má hljóð fjölmargra fugla á vefnum, Víkverji vissi til dæmis alls ekki hvernig þekkja mætti flórgoða á hljóðinu.

Og svo má fylgjast með ferðum spóans Valla sem reyndar heitir Wally í Bretlandi. Víkverji er þakklátur Húsvíkingunum fyrir þetta prýðilega framtak þeirra.