MARGT var um manninn í Hafnarhúsinu á laugardag þegar nemendur í hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands og viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík sýndu afrakstur samstarfsverkefnis síns, sem sneri að því að leggja fram hugmyndir að nýstárlegum tækifærum í ferðamennsku.
Alls unnu tíu hópar að verkefnum, fimm til sjö í hverjum hóp og var afraksturinn afar ólíkur og hugmyndaflugið nýtt til hins ýtrasta. Þannig komu m.a. fram hugmyndir um lúxushótel við Langjökul, þjóðlegan veitingastað í Botnsskála í Hvalfirði, hrafnatískuvörur og fleira.
Ekki var annað að sjá á gestum sýningarinnar en að þeir kynnu vel að meta hina fjölbreyttu möguleika til að brjóta upp "Gullna hringinn".