Halldór Kristinn Halldórsson til heimilis að Hrafnistu í Hafnarfirði fæddist á Mábergi á Rauðasandi 4. júní 1918 Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði hinn 5. desember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Halldór Ólafur Bjarnason, f. 15. nóvember 1874, og Magnfríður Ívarsdóttir, f. 25. nóvember 1875. Systkini Halldórs eru: Guðmundur Jóhannes, Jónína Bergþóra, Guðrún, Ívar Rósinkrans, Bjarni Trausti, Ingimundur Benjamín, Sigurður Breiðfjörð, Sigríður og Ólafur. Af þeim lifir Sigurður bróður sinn. Fjögurra ára fluttist Halldór með fjölskyldunni að Gröf á Rauðasandi en sex ára missti hann föður sinn og var þá komið í fóstur að Kirkjuhvammi á Rauðasandi þar sem hann ólst upp.

Hinn 10. desember 1939 kvæntist Halldór Sesselju Halldórsdóttur, f. 28. ágúst 1920. Foreldrar hennar voru Halldór Sveinsson og Guðrún Þórðardóttir. Þau eignuðust eina dóttur, Rósu Kristínu, f. 13. ágúst 1940. Halldór vann við sveitastörf frá unga aldri til 1953 að fjölskyldan flutti til Reykjavíkur og fékk hann þá strax atvinnu við Áburðarverksmiðju ríkisins sem þá var í byggingu. Þar vann hann meðan starfsaldur leyfði.

Halldór verður jarðsunginn frá Hafnarfjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku frændi. Nú hefur þú kvatt okkur í bili, en þannig er það víst. Bara Siggi í Njarðvík einn eftir af ykkur systkinahópnum frá Móbergi tíu að tölu sem ólust upp á Rauðasandi á fyrri hluta síðustu aldar. Fyrst þegar ég man eftir þér var verið að baða féð á Melanesi. Í mínum huga þá var það stór dagur. Eins minnist ég hvað ég var forfrömuð að koma einu sinni að Skápadal í heimsókn til ykkar áður en þið fluttuð suður þegar Rósa veiktist. Síðan þegar ég fluttist sjálf suður var ómetanlegt að eiga góða að, það var sama hvar borið var niður hjá þessum stóra systkinahópi, alltaf var tekið vel á móti manni, matur, kaffi, spjall og ekki síst mikill hlátur og smá prakkaraskapur í bland. Þetta eru ómetanlegar minningar, það er óneitanlega tómlegt að ekki sé hægt að skreppa í heimsókn eins og í gamla daga, en svona er það.

En 1966 flyst ég til ykkar Sellu, þá ófrísk að henni Sædísi eins og þú sagðir svo oft. Var ég þá hætt námi, ekki björgulegt í þá daga að koma sér áfram einn og óstuddur.

Talaðist til að ég dveldi í dekrinu hjá Sellu og þér þangað til barnið væri fætt.

En árin urðu tæp fjögur. Þið buðuð mér að ef ég vildi halda námi áfram væri mér velkomið að dvelja hjá ykkur og það þáði ég með þökkum. Seint fæ ég þakkað þessa miklu góðvild ykkar hjóna, og pössun á Sædísi Ívu var með í pakkanum. En eitt vil ég segja þér, mikið varstu oft glaður á svip þegar sú stutta sagði "frændi taka mig". Þá var bókin fljótt lögð til hliðar. Alveg er víst að ekki hefði ég klárað námið mitt hefði ykkar Sellu ekki notið við. Fyrir þetta vil ég þakka af heilum hug og biðja þér blessunar guðs. Eins bið ég góðan guð að vera með Sellu Rósu og Ragnari. Við huggum okkur við að það hafa verið margir sem tóku á móti þér og kannski glatt á hjalla eins og oft var.

Takk fyrir allt og allt.

Erla Ívars.

Hann frændi hefur nú kvatt þessa jarðvist og víst er að hann var orðinn saddur lífdaga. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa hann og ömmu sem hluta af lífi mínu svo lengi sem ég man en við mamma bjuggum hjá þeim fyrstu æviár mín. Að þeim tíma liðnum var þeirra heimili mitt annað heimili öll æskuárin.

Margar minningar koma upp í hugann frá þessum árum og fylgir þeim öllum birta og ylur. Við frændi brölluðum ýmislegt saman, ég pússaði á honum skallann, við fórum saman að skoða "gula draslið" í Öskjuhlíðinni með nesti frá ömmu, tókum strætó niður í bæ ef hann þurfti að reka erindi og margt fleira.

Frændi vann í Áburðarverksmiðjunni í fjölda ára og mjög sterk mynd af honum í huga mínum er þegar hann var að fara á vaktina með derhúfuna sína á höfðinu og nestistöskuna í hendinni, í veg fyrir áætlunarbílinn sem flutti hann í Gufunes.

Lestur ævisagna og þjóðsagna heilluðu frænda og var hann hafsjór af fróðleik. Hann hafði gaman af að segja manni sögur og gæddi þær lífi með einstakri frásagnarlist. Stundum efaðist maður um að allar dagsetningar sem hann hafði á takteinum gætu staðist en heyrði maður sömu sögu tvisvar voru allar dagsetningar í gildi.

Tóbaksdósin hans var jafn mikill hluti af honum og nefið sjálft og var hrein unun að fylgjast með honum nostra við að taka í nefið, alltaf með sömu handtökunum var slegið á dósarlokið og það opnað, tóbakið tekið á milli tveggja fingra og sogið kröftuglega í aðra nösina. Ekki löngu seinna brá hann klútnum að nefi og snýtti sér hraustlega. Þessi athöfn var alltaf jafn heilög hjá honum þrátt fyrir að kraftur til annarra verka væri enginn orðinn.

Seinustu æviárin á Hrafnistu voru honum að sumu leyti erfið, að vera skilinn frá ömmu, einn á sjúkradeildinni, var hlutskipti sem hann sætti sig illa við þó hann tjáði sig ekki mikið um það. Hann vissi að þar fór vel um hann og hann fékk þá hjálp sem hann þurfti.

Með einlægu þakklæti og virðingu kveð ég hann frænda og bið góðan Guð um að gæta hans.

Elsku amma og Rósa, megi Guð vera með ykkur og styrkja ykkur og styðja. Við yljum okkur við minninguna.

Sædís Íva Elíasdóttir.