FJÖLDI kaupsamninga í nóvember dróst saman um 37% í samanburði við sama mánuð í fyrra og um 6% á milli október og nóvember í ár leið, samkvæmt frétt frá Fasteignamati ríkisins.

FJÖLDI kaupsamninga í nóvember dróst saman um 37% í samanburði við sama mánuð í fyrra og um 6% á milli október og nóvember í ár leið, samkvæmt frétt frá Fasteignamati ríkisins.

Í frétt Fasteignamats ríkisins eru birtar tölur um veltu og fjölda samninga og þær greindar eftir tegund eignar fyrir höfuðborgarsvæðið í heild og tölur um fjölda samninga, greindar eftir bæði tegund eignar og sveitarfélagi. Þessar upplýsingar gefa þeim sem fylgjast náið með fasteignmarkaðinum kost á að draga upp nákvæmari og skýrari mynd en áður.

Fjöldi þinglýstra kaupsamninga um fasteignir við embætti sýslumannanna á höfuðborgarsvæðinu í nóvember 2005 var 735. Heildarupphæð veltu nam 20,7 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning var 28,2 milljónir króna. Fjöldi kaupsamninga um eignir í fjölbýli var 532 og veltan nam 11,8 milljörðum króna. Meðalupphæð á hvern kaupsamning í fjölbýli var 22,2 milljónir króna. Fjöldi samninga um sérbýli var 103, samtals að upphæð 4,3 milljarðar króna og var meðalupphæð samnings 41,8 milljónir króna. Fjöldi samninga um annars konar eignir var 100 og nam veltan 4,6 milljörðum króna og meðalupphæð hvers samnings var 46 milljónir króna.

Þegar nóvember í ár er borinn saman við sama mánuð í fyrra kemur í ljós samdráttur í fjölda kaupsamninga um 37%. Samningum um eignir í fjölbýli fækkaði um 45%, samningum um eignir í sérbýli fækkaði um 26% en samningum um aðrar eignir en íbúðarhúsnæði fjölgaði um 64%. Samanburður á milli október og nóvember leiðir í ljós samdrátt um 6% í heildarfjölda kaupsamninga, samningum um eignir í sérbýli fjölgaði um 27%, samningum um aðrar eignir en íbúðarhúsnæði fjölgaði um 4%. Samningum um fjölbýli fækkaði hins vegar um 12% en viðskipti með fjölbýli vegur þyngst í viðskiptum með fasteignir.

Á línuritinu má sjá hvernig fjöldi kaupsamninga hefur þróast mánuð fyrir mánuð undanfarin tvö ár, annars vegar fyrir íbúðarhúsnæði og hins vegar fyrir annars konar eignir. Þar má glögglega sjá að undanfarið hefur verulega dregið úr viðskiptum með íbúðarhúsnæði á sama tíma og viðskipti með annars konar eignir hafa aukist.