ERNIE Els sigraði á Dunhill meistaramótinu í heimalandi sínu S-Afríku í gær og sagði hann að sigurinn væri draumi líkastur enda hefur hann verið frá vegna meiðsla á hné frá því í lok júlí.

ERNIE Els sigraði á Dunhill meistaramótinu í heimalandi sínu S-Afríku í gær og sagði hann að sigurinn væri draumi líkastur enda hefur hann verið frá vegna meiðsla á hné frá því í lok júlí. Þetta er fyrsta mótið á Evrópumótaröðinni sem hann tekur þátt í frá því hann sleit krossband en hann var frá í fjóra mánuði og er þetta aðeins annað mótið sem hann tekur þátt í frá þeim tíma. Els, sem er enn í fimmta sæti heimslistans, hafði tvívegis áður sigrað á þessu móti en Ulrich van den Berg sem var í efsta sæti mótsins fyrir lokadaginn lék skelfilega af sér á lokasprettinum. Els lék á fjórum höggum undir pari á lokadeginum eða 68 höggum en hann var tveimur höggum á eftir Berg fyrir lokadaginn. Els lék samtals á 14 höggum undir pari vallar og var þremur höggum á undan löndum sínum Louis Oosthuizen og Charl Schwartzel, sem hafði titil að verja á þessu móti

Van den Berg þoldi ekki álagið á lokasprettinum og lék síðari 9 holurnar á 44 höggum. "Fyrir viku hefði ég sætt mig við að leika á 80 höggum þar sem ég hef verið lengi frá vegna meiðsla," sagði Els eftir sigurinn en hann á húseign við Leopard Creek-völlinn þar sem mótið fór fram og er hann einnig meðlimur í klúbbnum.

"Ég var stöðugur í leik mínum alla fjóra keppnisdagana og sá síðasti var besti dagurinn. Ég lenti aldrei í vandræðum og ég hafði ekki látið mig dreyma um sigur enda er ég nýbyrjaður að leika á ný eftir meiðsli," sagði Els en hann hughreysti Ulrich eftir mótið. "Ég finn til með honum, enda lék hann vel allt þar til á lokakafla mótsins. Hann er frábær kylfingur og heiðursmaður," bætti Els við.