Kristín Jóhannesdóttir fæddist á Svínhóli í Miðdölum í Dalasýslu 11. mars 1927. Hún andaðist á hjúkrunarheimilinu Seljahlíð í Reykjavík 5. desember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Jóhannes Ólafsson, bóndi og kennari, f. 11. júlí 1885, d. 24. febrúar 1950, og Halldóra Helgadóttir, húsmóðir, f. 10. janúar 1885, d. 25 ágúst 1956. Eftirlifandi systkini Kristínar eru: Helgi, f. 11.10. 1915, og Ragnheiður, f. 30.12. 1919. Látin eru: Guðný, f. 24.5. 1907, Ólafur, f. 15.5. 1912, Guðbjörg, f. 10.8. 1913, Jón, f. 6.10. 1917, og Óskar, f. 30.12. 1921.

Kristín var tvígift en sleit samvistum við eiginmenn sína og var hún barnlaus.

Kristín hlaut m.a. menntun við húsmæðraskólann á Staðarfelli. Hún fór til Reykjavíkur um tvítugt og vann fyrst hjá Sælgætisgerðinni Víking. Eftir störf sín þar vann hún margs konar skrifstofustörf m.a. hjá Heildsölu Sigurðar Skjaldberg, Olíuverslun Íslands og Grænmetisverslun Íslands.

Útför Kristínar verður gerð frá Seljakirkju í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Í dag kveðjum við ástkæra móðursystur mína Kristínu Jóhannesdóttur, sem í daglegu tali okkar systkinanna var alltaf kölluð Stína frænka. Hugurinn reikar aftur til barnæskunnar þegar Stína var alltaf sem ein af okkar fjölskyldu, enda leigði hún fyrstu ár sín í Reykjavík hjá foreldrum mínum en þá var búið þröngt í litla húsinu við Grettisgötuna. Stína hélt alltaf áfram að vera ein af okkar fjölskyldu og tók þátt í gleði-, sorgar- og hátíðarstundum með foreldrum mínum, okkur systkinunum og börnunum okkar meðan heilsan leyfði. Móðir mín, Ragnheiður, var átta árum eldri en Stína og það kom því strax í hennar hlut að passa litlu systur sína þar sem Halldóra amma hafði mikið að gera á mannmörgu sveitaheimili. Móðir mín hætti ekki að líta eftir og annast "litlu systur" sína þó þær væru báðar komnar á fullorðinsár og voru þau pabbi og mamma einstaklega góð og umhyggjusöm við hana, ekki síst þegar veikindi steðjuðu að. Stína gat að einhverju leyti endurgoldið mömmu pössunina með því að líta eftir okkur systkinunum þegar við vorum lítil, enda var hún barngóð og vildi allt fyrir alla gera. Við Stína frænka urðum fljótt góðar vinkonur. Þó aldursmunurinn væri talsverður gátum við rætt saman um hin ýmsu mál, enda hafði hún frá mörgu að segja af sínu fjölbreytilega lífshlaupi. Á Kvennaskólaárunum mínum kom ég oft við hjá henni á Snorrabrautinni með handavinnuna mína og við sátum saman í nokkurs konar saumaklúbb. Stína var mikil hannyrðakona og saumaði út myndir og heilu stólana af vandvirkni, enda leið henni aldrei eins vel og þegar hún átti eitthvað til að sauma út.

Stína fór ung í sína fyrstu "siglingu", eins og það var kallað þá. Hún fór m.a. með Esjunni til Evrópu og varð henni tíðrætt um ýmis ævintýri í þeirri ferð. Hún var mikill sóldýrkandi og fór því í sólarlandaferðir með vinkonum sínum, áður en slíkar ferðir urðu jafnvinsælar og nú til dags. Úr öllum sínum ferðum kom hún hlaðin af varningi frá útlöndum, hún keypti m.a. heilu matarstellin fyrir mömmu. Hún keypti líka föt fyrir okkur fjölskylduna, kápur og skó á okkur mömmu, stælföt á Birgi, litla bróður, og meira að segja fermingarfötin á Hrein, stóra bróður. Birgir man sérstaklega eftir stóru flottu bílunum, sem hann gat montað sig af við vini sína og fallega dúkkan mín með ljósu krullurnar er ennþá jafnfalleg og fín eins og þegar Stína frænka gaf mér hana í jólagjöf fyrir tæplega 50 árum, enda fékk ég aldrei að leika mér að henni, heldur bara knúsa hana og segja henni leyndarmálin mín.

Stína giftist tvisvar sinnum en þau hjónabönd gengu ekki upp þannig að hún bjó einsömul megnið af sínu lífi og eignaðist ekki börn.

Stína frænka átti snemma við veikindi að stríða og varð hún því stundum að gefast upp á vinnustöðum sínum og jafnvel að leggjast inn á sjúkrastofnanir. Hún varð samt alltaf frískari aftur og stoppaði hana þá fátt í að taka sér fyrir hendur það sem hún fékk áhuga á, enda var hún ævintýragjörn manneskja. Sem dæmi um það var að eitt sumar tók hún þátt í ævintýri sem því miður stóð bara í tvö sumur. Þetta var rekstur fljótandi hótels í formi víkingaskips á Hlíðarvatni á Snæfellsnesi. Stína var ráðin sem ráðskona og fékk Hrein bróður, sem þá var 14 ára, sem aðstoðarmann til að aðstoða gestina varðandi veiðiskap o.fl. sem þeir áttu að hafa sér til dægrastyttingar. Á þessum tíma, fyrir rúmlega 40 árum, var ekki auðvelt um vik um markaðssetningu á svona "óvanalegri" gistingu og því var gestafjöldinn ekki nægjanlegur til að hugmyndin gengi upp. Svona hlutum hafði Stína frænka samt gaman af að taka þátt í.

Stína hélt alltaf mikilli tryggð við átthagana og flest sumur meðan afi og amma voru ennþá á Svínhóli fór hún þangað og tók þátt í heyskapnum af miklum krafti og ánægju. Eftir að afi og amma féllu frá heimsótti hún yfirleitt á hverju sumri systur sína, Guðnýju, sem bjó í Stóra-Skógi, og hennar fjölskyldu, og bróður sinn, Óskar, sem bjó á æskustöðvunum, Svínhóli, og hans fjölskyldu. Hún vildi alltaf hafa eitthvað fyrir stafni og hjálpaði þá til við heimilisstörfin og heyskapinn eða fór í berjamó, en ef sólin fór að skína var hún fljót að fara með stól út á hlað og njóta sólargeislanna. Stína var mikill dýravinur og átti hún mjög oft ketti og sinnti þeim eins og þeir væru börnin hennar.

Hún hafði gaman af að fá gesti og bauð hún oft öllum skyldmennum sínum í kaffiboð í tilefni jólaloka og afmælis Halldóru ömmu hinn 10. janúar. Þá var oft fjölmennt í litlu íbúðunum hennar en nógar kræsingar á borð bornar og urðu þetta stundum nokkurs konar ættarmót.

Stína hafði unun af lestri góðra bóka og átti gott safn bóka eftir gömlu meistarana okkar, bækur um andleg málefni og mikið af ljóðabókum. Hún var mjög trúuð kona og sótti guðsþjónustur eins oft og færi gafst og kynntist hún prestunum í Langholtskirkju og síðar í Seljakirkju vel og settist oft niður með þeim og opnaði hjarta sitt fyrir þeim. Hún mat það mikils að þeir voru til staðar fyrir hana og gáfu sér tíma til að hlusta, þegar hún þurfti á andlegum stuðningi að halda.

Hún hafði líka gaman af að hlusta á tónlist, hvort sem það voru gömul dægurlög eða andleg tónlist. Meðal uppáhaldslaganna hennar var lagið Undir Dalanna sól, enda er ljóðið ort af Dalamanni og fjallar um ástkærar æskustöðvarnar og birti ég það því hér með.

Undir Dalanna sól, við minn einfalda óð

hef ég unað, við kyrrláta för.

Undir Dalanna sól, hef ég lifað mín ljóð,

ég hér leitað og fundið mín svör.

Undir Dalanna sól hef ég gæfuna gist,

stundum grátið, en oftast í fögnuði kysst.

Undir Dalanna sól á ég bú mitt og ból

og minn bikar, minn arin, minn svefnstað og skjól.

Undir Dalanna sól, man ég dalverjans lönd

eins og draumsýn um átthagans rós.

Undir Dalanna sól, fann ég heitfenga hönd

eins og heillandi, vermandi ljós.

Undir Dalanna sól, geymir döggin mín spor,eins og duldir er blessa hið náttlausa vor.

Undir Dalanna sól, hugsjá hjartans ég vann

og ég hlustaði, skynjaði, leitaði og fann.

(Hallgr. J. frá Ljárskógum.)

Stína frænka bjó alla tíð í Reykjavík, fyrst í leiguíbúðum en síðar í sínu eigin húsnæði, lengst af í Álftamýri, þar sem hún bjó þar til hún fékk íbúð í dvalarheimilinu Seljahlíð. Síðasta eitt og hálfa árið dvaldi hún á hjúkrunardeild Seljahlíðar, þar sem hún lést hinn 5. desember síðastliðinn. Ég vil fyrir hönd fjölskyldunnar þakka öllu starfsfólki í Seljahlíð fyrir frábæran félagsskap og umönnun þau rúmlega tíu ár sem hún dvaldi þar.

Fyrir hönd móður minnar, Ragnheiðar, og allra hennar afkomenda, þakka ég Stínu frænku hjartanlega fyrir allar samverustundirnar, sem munu lifa í hjarta okkar allra um ókomin ár.

Guð blessi sálu þína, elsku Stína frænka.

Hanna Dóra Haraldsdóttir.

Elsku Stína frænka, ég á eftir að sakna þín mikið, þar sem þú varst svo litsterkur einstaklingur. Í gegnum öll mín uppvaxtarár varst þú svo tíður gestur á heimili mömmu og pabba, að mér fannst þú nánast eins og önnur mamma mín. Ég man sérstaklega vel eftir öllum jólaboðunum sem voru heima í Álfheimunum og eins heima hjá þér og fínu gjöfunum frá þér. Þar sem þú varst á þessum tímum stundum í ferðalögum til útlanda sem ekki var kannski algengt þegar ég var lítill drengur og þá keyptir þú svo margt fallegt þar, eins og leikfangabíla sem voru í algjörum sérflokki. Sjálf áttir þú engin börn, en við systkinin í Álfheimum, börnin hennar Rögnu systur þinnar, vorum að segja má þín börn, hálfpartinn. Ævi þín var ekki auðveld, veikindi af andlegum toga voru ávallt nærri og hafðir þú gist mörg sjúkrarúmin á þinni lífsleið. En gleði þín, brosið og hláturinn eru þó efst í mínum huga er ég lít yfir farinn veg. Man ég t.d. svo vel hvað þú þráðir að baða þig í sólskininu þegar það loks kom, þú horfðir beint upp í sólina eins og þú værir að hlaða þig upp af orku og fylla hug og hjarta af birtu og gleði.

Ferð okkar hjónanna með þér og mömmu vestur í Dali á þínar heimaslóðir fyrir nokkrum árum, er einnig sterk í minningunni. Við gistum í Stóra-Skógi eins og svo oft áður, þar sem Guðný systir þín bjó áður fyrr. Morguninn eftir komu okkar þangað var glampandi sól og var ég úti á hlaði að viðra hvolpinn okkar hann Benna, þegar þú kemur út með kaffibolla í hendi og ferð að fylgjast með Benna leika sér í gamla bæjarlæknum og hvað þú hlóst og varst ánægð, þér leið svo greinilega vel, sem var allt of sjaldan í þínu lífi. Síðan horfðir þú á sveitina þína með svo miklum sælusvip að ógleymanlegt verður. Seinna um daginn var svo farið í sólbað með systur þinni, henni Rögnu og okkur Lillu undir bæjarveggnum og var þá ýmislegt spjallað um lífið í sveitinni í gamla daga þegar þið systkinin voruð að alast upp á Svínhóli. Margs er að minnast, elsku Stína frænka, t.d. hvað þú varst alltaf svo góð við mín börn eftir að þau bættust við í okkar lífi, eins og jólagjafirnar frá þér til þeirra voru einnig alltaf svo skemmtilegar og fallegar.

En hvíldin er góð og endurfundir við áður gengna vel þegnir og þér sem ávallt varst svo kirkjurækin og trúuð kona verður vafalaust vel tekið á nýjum áfangastað. Megir þú ávallt verða umleikin birtu og yl hér eftir, sem þú átt svo innilega skilið. Takk fyrir allar ánægjulegu samverustundirnar, elsku Stína frænka.

Angrið sækir okkur tíðum heim

sem erum fávís börn í þessum heim

við skynjum fátt, en skilja viljum þó

að skaparinn oss eilíft líf til bjó,

að upprisan er öllum sálum vís

og endurfundir vina í paradís.

(Guðrún Jóhannsdóttir.)

Blessuð sé minning þín, elsku Stína frænka.

Þinn frændi,

Birgir.