Erna V. Ingólfsdóttir
Erna V. Ingólfsdóttir
Erna V. Ingólfsdóttir fjallar um erfitt hlutskipti aldraðra: "Það væri kannski ráð að kaupa dollara í von um að þeir hækkuðu einhvern tímann. Bezt að fá sér læstan kistil eins og Jóakim frændi og dunda við að telja peninga."

"HEYRÐU elskan," sagði Jón bóndi við hana Gunnu sína. "Það er aldeilis farið að meta okkur gamlingjana. Mér var boðið starf upp á 70 þúsund kall á mánuði. Við getum bara farið til Kanarí og vikið heilmiklu að krökkunum. Þú getur meira segja líka fengið vinnu".

Þau gömlu hjónin voru himinlifandi og fóru að skoða utanlandsferðir með meiru. En svo fékk Jón kaupið sitt. Það voru ekki ekki 70 þúsund sem hann fékk heldur 15 þúsund. Hvað hafði gerst. Jú skatturinn fékk sitt og Tryggingastofnun restina.

Og gamlingjarnir ræddu málin sín og milli og við fleiri. Ef eitthvað ætti að verða eftir í buddunuun yrði að næla sér í eitthvað svart.

En það var fleira gruggugt. Gamall kunningi kom í heimsókn. Sá hafði lagt 1 milljón í séreignasjóð. Hann vildi hafa vaðið fyrir neðan sig þar sem hann var enn 66 ára. Hvað fengi hann þegar hann yrði 67?. Til að byrja með 40% í skatt. Skattleysismörkin voru 75 í stað rúmlega 102 hefði ekki allt verið tekið úr sambandi árið 95.

Núll frá Tryggingastofnun

Hann lagði dæmið fyrir Tryggingastofnun. Hann fengi 14 þúsund á mánuði, auðvitað mínus skattur. En bætur frá Tryggingastofnun lækkuðu um 10 þúsund svo að útkoman var Núll með stórum staf. Þetta voru jú viðbótartekjur. Eins gott að vera með það á hreinu svo að hann fengi ekki 0 krónur fyrir jólin ef hann gerði ekki ráð fyrir þessu á tekjuáætlun fyrir árið eins og Tryggingastofnun heimtar.

Kunninginn tók því út milljónina sína, borgaði skattinn og setti afganginn ínn á bankabók. Þar þarf hann að sjálfsögðu að borga 10% í fjármagnstekjuskatt

En hann var fjárglöggur maður og spáði því í að kaupa skuldabréf. Þá myndi hann nú fyrst fara að græða. Ef þetta væru sniðug skuldabréf gæti hann selt þau með 20% gróða að ári. Nei. Ekki aldeilis. Tryggingastofnun myndi þá bara lækka bæturnar svo að ekkert yrði eftir.

Það væri kannski ráð að kaupa dollara í von um að þeir hækkuðu einhvern tímann. Bezt að fá sér læstan kistil eins og Jóakim frændi og dunda við að telja peninga.

700 kall fyrir ömmu

Jón og Gunna fóru að hugsa um hvað yrði ef þau færu á elliheimilið eins og hún amma, sem loksins komst inn eftir þriggja ára bið og var í herbergi með 2 öðrum. Hún amma fær nefnilega 700 krónur á dag og getur ekki einu sinni tekið á móti barnabörnunum fyrir þrengslum. Hvað þá haft nokkrar myndir á veggjum.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur, í miðstjórn Frjálslynda flokksins.