Líkan af skipulagstillögunni. Efst er grunnskólinn og íþróttahúsið. Við skólalóðina er líka leikskóli og norðvestan við skipulagssvæðið og á milli þess og leikskólans er fyrirhugaður bæjargarður. Aðalgatan liggur í gegnum svæðið frá Suðurnesvegi, en síðan liggja tvær húsagötur í sitt hvora áttina út frá þessari aðalgötu, önnur til austurs og endar í 3-4 botnlöngum en hin til vesturs og endar í tveimur botnlöngum.
Líkan af skipulagstillögunni. Efst er grunnskólinn og íþróttahúsið. Við skólalóðina er líka leikskóli og norðvestan við skipulagssvæðið og á milli þess og leikskólans er fyrirhugaður bæjargarður. Aðalgatan liggur í gegnum svæðið frá Suðurnesvegi, en síðan liggja tvær húsagötur í sitt hvora áttina út frá þessari aðalgötu, önnur til austurs og endar í 3-4 botnlöngum en hin til vesturs og endar í tveimur botnlöngum. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú er til kynningar tillaga að nýju deiliskipulagi miðsvæðis á Álftanesi. Tillagan nær til íbúðabyggðar, atvinnustarfsemi og byggðar Eirar. Magnús Sigurðsson kynnti sér tillöguna.

Miðsvæðið svonefnda á Álftanesi á án efa eftir að hafa mikið aðdráttarafl fyrir marga. Eins og nafnið ber með sér er svæðið landfræðilega í miðju sveitarfélagsins, en skipulagssvæðið, sem nú er til kynningar, er 11,6 ha að stærð og afmarkast af Breiðumýri í vestri, lóð leikskóla, grunnskóla og byggðar við Skólatún og Suðurtún í norðri, Norðurnesvegi í austri og Suðurnesvegi í suðri. Fresti til þess að skila athugasemdum við skipulagstillöguna lýkur 23. desember nk.

Um helmingur af landi skipulagssvæðisins er í eigu sveitarfélagsins en hinn helmingurinn í eigu einkaaðila. "Meginmarkmið skipulagstillögunnar er að þétta byggðina á miðsvæðinu, sem er í hjarta Álftaness en hafa dreifðari byggð með strandlengjunni," segja höfundar skipulagstillögunnar, þeir Sigurður Einarsson og Anders Möller Nielsen, sem báðir starfa sem arkitektar hjá Teiknistofunni Batteríið í Hafnarfirði.

"Ætlunin er að fá fram heilsteypt miðbæjarsvæði. Byggð verður upp verslun og þjónusta á miðsvæðinu auk íbúða fyrir breiðan hóp íbúa, allt frá þeim sem eru að hefja búskap og til eldri borgara.

Götur verða tiltölulega fáar og gangandi umferð á því greiða leið um svæðið, enda göngustígar bæði meðfram götunum og í kringum svæðið. Aðalgatan liggur í gegnum svæðið frá Suðurnesvegi, en síðan liggja tvær húsagötur í sitt hvora áttina út frá þessari aðalgötu. Önnur liggur til austurs og endar í 3-4 botnlöngum en hin til vesturs og endar í tveimur botnlöngum."

Fjölbreyttar húsagerðir

Húsagerðir verða fjölbreyttar. Við aðalgötuna verður byggðin þéttust, en þar verða reistar tvær þriggja hæða byggingar, sem standa sín hvorum megin við fyrirhugað bæjartorg. Í þeim er gert ráð fyrir verslun og þjónustu þar á meðal þjónustumiðstöð Eirar auk íbúða fyrir aldraða.

Norðan megin við þessar byggingar rísa svo einnar hæðar raðhús með sérbýli fyrir aldraða og vestan megin raðhús upp á tvær hæðir og ris. Innangengt verður úr þessum íbúðum í þjónustumiðstöðina. Við jaðra miðsvæðisins verða íbúðarhúsin fyrst og fremst raðhús, tvær hæðir og ris.

"Ætlunin er að fá svolítið uppbrot í þessa byggð, svo að við notum fagmál, til þess að byggðin verði ekki of einsleit en jafnframt gert ráð fyrir, að byggðin fái fremur fíngert yfirbragð í líkingu við þá lágreistu byggð, sem er annars staðar á Álftanesi," segja arkitektarnir. "Jafnframt er ætlunin að koma fyrir verslun og þjónustu á miðsvæðinu, en það er ekki reiknað með umfangsmikilli starfsemi af því tagi í þessu litla sveitarfélagi."

Samtkvæmt skipulagstillögunni er hægt að byggja um 300 íbúðir á svæðinu, en sú tala er þó sveigjanleg. Miðað við 300 íbúðir, þar af allt að 130 íbúðir fyrir aldraða, gætu íbúar á miðsvæðinu orðið um 700.

Þeir Sigurður og Anders leggja áherslu á, að náttúrunni sé ekki vikið til hliðar í skipulagstillögunni. Næst Suðurnesvegi, þar sem ekið verður inn í miðsvæðið, gera þeir ráð fyrir tveimur tjörnum sín hvorum megin við innkomuna, sem eiga að vekja skemmtilega tilfinningu og stemnningu líkt og tjarnirnar annars staðar á Álftanesi. Fólki mun finnast það vera í miklum tengslum við náttúruna.

Við enda miðbæjartorgsins, næst skólalóðinni, er fyrirhugaður sérstakur garður, sem verður náttúrugarður með gróðri og tjörn, er tengir hverfið við útivistarsvæði og skólasvæði. Þetta verður afar aðlaðandi útivistarsvæði fyrir íbúana og tilvalið fyrir alls konar útisamkomur.

Hverfið á líka að vera mannvænt. Gangandi fólk á að hafa forgang og aðeins gert ráð fyrir 30 km hámarkshraða á aðalgötunni, sem liggur inn í hverfið frá Suðurnesvegi í gegnum hverfið og að skólasvæðinu.