MANCHESTER United náði ekki að leggja Everton að velli á heimavelli sínum Old Trafford í gær en þar skoraði Ryan Giggs sitt fyrsta mark á leiktíðinni en hann jafnaði metin á 16. mínútu eftir að James McFadden hafði komið Everton yfir á þeirri sjöundu. Liverpool er þar með í öðru sæti deildarinnar með betri markatölur en Man. Utd., en liðin eru með 31 stig og eiga leik til góða á Chelsea sem er 12 stigum fyrir ofan með 43 stig.
Leikmenn Man. Utd. sóttu án afláts í leiknum en náðu ekki að skora en þrátt fyrir að liðið hafi verið með boltann í sínum röðum megnið af leiknum voru skyndisóknir Everton hættulegar og bjargaði Edwin van der Sar, markvörður Man. Utd., málunum á lokakafla leiksins er McFadden slapp einn í gegnum vörn liðsins en hollenski markvörðurinn varði vel.
"Með meiri nákvæmni í skyndisóknum okkar undir lok leiksins hefðum við átt að landa sigri," sagði Phil Neville, leikmaður Everton, sem var að leika í fyrsta sinn á Old Trafford frá því hann fór frá Man. Utd. sl. sumar. "Ég er ánægður með að við komum í leikinn til þess að sýna hvað í liðinu býr, við bárum enga virðingu fyrir mótherjum okkar eins og oft gerist á þessum velli," bætti hann við.
Alex Ferguson knattspyrnustjóri Man. Utd. var sannfærður um að hans lið hefði átt að sigra. "Við fengum fjögur eða fimm opin tækifæri en Richard Wright markvörður Everton varði vel í þeim tilvikum. Leikmenn liðsins reyndu allt sem þeir gátu en því miður tókst okkur ekki að nýta færin sem við fengum," sagði Ferguson
"Shearer kemst upp með allt"
Nolberto Solano tryggði Newcastle 1:0 sigur gegn Arsenal á St. James Park á laugardaginn og var þetta annar tapleikur Arsenal á útivelli í röð.Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, gagnrýndi Alan Shearer, fyrirliða Newcastle, eftir leikinn og sagði að Shearer hefði áhrif á dómara og kæmist ávallt upp með að brjóta gróflega af sér án þess að fá áminningu.
Brasilíumaðurinn Gilberto var rekinn af leikvelli á 57. mínútu og var Arsenal einum færri það sem eftir lifði leiks en Wenger taldi að Shearer hefði komist upp með svipuð brot í leiknum án þess að fá fyrir það gult spjald.
"Ég held að ég geti með réttu sagt að Alan Shearer nái því að hafa áhrif á dómara og hann kemst upp með að gera hluti sem aðrir leikmenn geta ekki komist upp með. Shearer fer ávallt fyrst í manninn og síðan í boltann. Hann kemst upp með allt. Ef þetta er aðferð sem á að nota í knattspyrnu þá getum við allt eins farið að keppa í júdó," sagði Wenger.
Graeme Souness, knattspyrnustjóri Newcastle, hafði enga samúð með Wenger.
"Alan er einfaldega besti framherji sem England hefur átt. Við erum í norðurhluta Englands og erum vanir því að leika með þessum hætti. Alan Shearer leggur sig fram fyrir Newcastle og það kemur ekki til greina að reyna að breyta því hjá honum. Ef Arsene líkar ekki þessi aðferð þá á hann í vanda því að flest lið í ensku úrvalsdeildinni leika af hörku - það er eðli ensku knattspyrnunnar," sagði Souness eftir leikinn.
"Við munum áfrýja rauða spjaldinu sem Gilberto fékk, ég trúi ekki öðru en að sömu reglur gildi fyrir miðvallarleikmenn og framherja," bætti Wenger við.
Shearer trúir því að sjálfstraust Newcastle sé að aukast eftir fyrsta sigurleik liðsins í síðustu fimm leikjum en liðið er í hópi 10 efstu þessa stundina. Shearer lagði upp sigurmarkið sem Nolano skoraði.
"Það voru aðeins sextán leikmenn Newcastle sem höfðu trú á því að við gætum sigrað Arsenal. Við förum í alla leiki til þess að vinna og þessi leikur gefur góð fyrirheit fyrir jólatörnina. Allir leikmenn liðsins skiluðu sínu, með vinnusemi, ákefð og stuðningsmenn okkar hrifust með og studdu vel við bakið á okkur," sagði Shearer.
Pardew ósáttur við Riley
Alan Pardew, knattspyrnustjóri West Ham United, var allt annað en ánægður með Mike Riley dómara eftir 3:2 tap liðsins gegn Blackburn á Ewood Park. West Ham skoraði fyrsta markið og jafnaði síðan í 2:2 áður en finnski landsliðsframherjinn Shefki Kuqi skoraði sigurmarkið korteri eftir að hann kom inn á sem varamaður.Pardew var afar ósáttur við vítaspyrnu sem liðið fékk á sig í upphafi síðari hálfleiks en þar komst Blackburn yfir, 2:1. Tomas Repka varnarmaður "Hamrana" fékk boltann í höndina inn í vítateignum en Pardew var á því að um óviljaverk hafi verið að ræða.
"Þetta var vafasamur dómur og mjög ströng túlkun að mínu mati. Þetta breytti gangi leiksins. Vissulega fór boltinn í hönd Repka en það var ekki viljandi gert. Við fengum einnig sex áminningar í leiknum fyrir litlar sakir," sagði Pardew.
Danny Gabbidon, varnarmaður West Ham, slasaðist alvarlega á hné í leiknum er hann lenti illa á auglýsingaskilti fyrir utan völlinn. Það er líklegt að hann verði lengi frá vegna meiðsla af þeim sökum en sauma þurfti sex spor í hné Gabbidon og verður hann ekki með gegn Everton á miðvikudaginn.
Mark Hughes, knattspyrnustjóri Blackburn, var afar ánægður með stigin þrjú og hrósaði leikmönnum liðsins í hástert. "Leikmenn liðsins eiga hrós skilið fyrir að hafa snúið leiknum okkur í hag, þeir vildu einfaldlega ekki missa af stigunum þremur," sagði Hughes en hann gerði lítið úr atviki sem átti sér stað í leiknum þar sem samherjarnir Robbie Savage og markvörðurinn Brad Friedel rifust heiftarlega.
"Þeir gerðu gín að þessu atviki í búningsklefanum eftir leikinn - málið er leyst og ekkert merkilegt að menn skiptist á skoðunum í hita leiksins. Ég er ánægður með þegar leikmenn bregðast við og vilja að samherjar sínir geri betur," sagði Hughes.
Paul Dickov skoraði tvívegis fyrir Blackburn en Marlon Harewood skoraði sjöunda mark sitt í deildinni.