Í upplýsandi samtali, sem Guðni Einarsson, blaðamaður Morgunblaðsins, átti við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, og birtist hér í blaðinu í gær sagði ráðherrann m.a.:
"Ég tel að svigrúm þeirra, sem koma til með að stjórna Ríkisútvarpinu verði mjög mikið. Við Páll Magnússon, útvarpsstjóri, höfum bæði metnað til að efla innlenda dagskrárgerð. Við höfum rætt okkar á milli hvort fara eigi svipaða leið og BBC. Þar var gerður ákveðinn sáttmáli milli BBC og menningarmálaráðherra landsins. Í Danmörku settu ráðherra menningarmála og forstjóri Danmarks Radio fram ákveðin fyrirheit um að efla innlenda dagskrárgerð, barnaefni og fleira. Við sjáum fyrir okkur að við getum gert eitthvað í þá veru."
Þetta eru mjög áhugaverð ummæli hjá menntamálaráðherra. Alþingi hefur nú til umfjöllunar frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytt rekstrarform RÚV, sem á eftir að gjörbreyta rekstri stofnunarinnar. En það eitt dugar ekki til að breyta því, sem breyta þarf á rekstrarhliðinni. Amerískt rusl flæðir nú inn á íslenzk heimili í meira magni en nokkru sinni fyrr fyrir tilverknað fleiri og fleiri sjónvarpsstöðva, sem eru gersneyddar öllum metnaði.
Einmitt af þeim sökum skiptir miklu máli, að RÚV taki þveröfuga stefnu í sjónvarpsrekstri sínum og auki stórlega gæði þess efnis, sem Sjónvarpið býður upp á. Þar getur bæði verið um að ræða fjölbreyttara erlent efni frá Evrópulöndum og þá ekki sízt frá Norðurlöndunum enda er norrænt sjónvarpsefni með því bezta, sem sýnt hefur verið í ríkissjónvarpinu um skeið.
En alveg sérstaklega skiptir máli að auka og efla innlenda dagskrárgerð. Við höfum alla möguleika á því. Við höfum yfir að ráða stórum hópi fólks, sem býr orðið yfir mikilli tæknilegri þekkingu í dagskrárgerð. Við eigum á að skipa stórum hópi mjög hæfileikaríkra ungra leikara, sem geta lagt sitt af mörkum. Það þarf að sameina krafta þessa fólks. Ekki í framleiðslu á einskis verðu léttmeti heldur í framleiðslu á innlendu dagskrárefni, sem stendur undir nafni.
Ummæli Þorgerðar Katrínar benda til þess að menntamálaráðherra hafi fullan hug á að fylgja slíkum hugmyndum eftir. Páll Magnússon hefur nú þegar sýnt í starfi sem útvarpsstjóri, að hann kann vel til verka.
Þegar saman fara vilji og metnaður menntamálaráðherra, þekking og reynsla nýs útvarpsstjóra og áhugi stórs hóps af ungu fólki, sem vill láta til sín taka er full ástæða til að ætla að hægt sé að vinna stórvirki á þessu sviði á næstu árum.
Sú var tíðin, að svonefnt Keflavíkurútvarp, sem var útvarpsstöð bandaríska varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, var helzta afþreyingarútvarpsstöð landsmanna. Þegar íslenzkar afþreyingarstöðvar komu til sögunnar varð útvarpsstöð varnarliðsmanna eitthvað, sem landsmenn vissu ekki af. Sú var líka tíðin, að sjónvarp varnarliðsmanna var eina sjónvarpið á Íslandi. Eftir að íslenzka sjónvarpið kom til sögunnar heyrði Keflavíkurstöðin sögunni til enda voru sjónvarpsútsendingar hennar að lokum takmarkaðar við umráðasvæði varnarliðsins.
Nú er kominn tími til að efla svo stórlega innlenda dagskrárgerð að landsmenn missi áhugann á því andlega ruslfæði, sem þeim er boðið upp á í flestum sjónvarpsstöðvum hér.
Þess vegna er ástæða til að hvetja Þorgerði Katrínu til þess að fylgja fast eftir þeim áformum, sem hún lýsti í samtalinu við Morgunblaðið í gær.