ÞRÁTT fyrir að ég eigi ekki sjónvarp fylgist ég vel með því sem mér er bent á af vinum mínum og kunningjum og horfi stundum á helstu viðburði á netinu. Þannig sá ég ódauðlegt augnablik í íslenskri sjónvarpssögu þegar piparsveinninn svonefndi missti svalheit sín eins og sápu í sturtu, þegar hann stóð eftir með tvær rósir og tvær konur eftir að ein þeirra hafði neitað honum um að taka við rósinni. Þetta var án efa ein pínlegasta og yndislegasta stund í íslensku sjónvarpi sem ég hef nokkurn tíma séð.
En ég leita oftar á náðir netsins til að næla mér í afþreyingu. Á netinu má finna reiðinnar býsn af ýmiss konar heimaföndri hæfileikaríks fólks utan úr heimi sem er að vinna að því að koma sér á framfæri sem listamenn. Þá er þar t.d. að finna glásina alla af gefins tónlist upprennandi listamanna á síðum eins og www.garageband.com og www.epitonic.com, þar sem hljómsveitir kynna sína tónlist. Íslenskar útgáfur af þessu eru m.a. jon.is og rokk.is, þar sem sífellt má finna skemmtileg lög.
Síðan má auðvitað nefna hina frábæru síðu www.makingfiends.com, þar sem fyrrum samstarfskona Trey Parker og Matt Stone úr South Park vinnur nú að stórskemmtilegum klippimyndasögum um (ó)vinina Charlotte og Vendettu, sem elda saman grátt silfur ásamt risahamstri og ýmiss konar ófétum. Winfrey fjármagnar m.a. tilraunastarfsemi sína með því að selja sérstaka boli með myndum af aðalsöguhetjum sínum og ég get stoltur sagt að ég hef sjálfur án efa fjármagnað nokkra daga af hennar starfi með ásókn minni í minjagripi og flotta boli.
Þá eru félagarnir Weebl og Bob, á síðunni www.weebl.jolt.co.uk, hin frábærasta skemmtun, en lengri tíma tekur að komast inn í þann húmor sem þar ríkir. Best er að byrja frá byrjun, því húmorinn hjá Weebl og Bob hefur tekið stórkostlegri þróun sem ekki er auðvelt að fatta þegar komið er inn í síðustu þættina.
Vissulega er þetta efni ekki allra, en það er engu að síður frábært að fylgjast með grósku þeirri sem ríkir meðal ungra listamanna á netinu.
Svavar Knútur Kristinsson