Málverk eftir Kristínu Þorvaldsdóttur (1870-1944) sem sýnir Neðstakaupstað á Ísafirði en þaðan var hún ættuð.
Málverk eftir Kristínu Þorvaldsdóttur (1870-1944) sem sýnir Neðstakaupstað á Ísafirði en þaðan var hún ættuð.
Sýningarstjóri Hrafnhildur Schram. Til 28. maí 2006. Þjóðminjasafnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 11-17. Sýningartíma um jólin er að finna á heimasíðu safnsins.

UM árabil hefur Hrafnhildur Schram rannsakað list íslenskra kvenna fæddra á nítjándu öld. Nú hefur afrakstur þeirrar vinnu litið dagsins ljós, á bók og sýningu. Ekki verður fjallað um bók Hrafnhildar hér heldur sýninguna sem hún hefur sett upp á verkum tíu nítjándu aldar listakvenna í Bogasal Þjóðminjasafnsins, þeirra sömu og eru umfjöllunarefni bókar hennar. Bogasalurinn er ákaflega viðeigandi umgjörð fyrir þessa listilega vel upp settu og vönduðu sýningu Hrafnhildar. Hann á sér langa sögu sem sýningarsalur og hér hafa margir listamenn- og konur sýnt verk sín. Verk þeirra sem nú hanga uppi voru þó aldrei sýnd hér og sú staðreynd ljær sýningunni að vissu leyti það andrúmsloft sem umlykur verk kvennanna allra, andrúmsloft þess sem aldrei varð. Þetta hljómar dapurlega en þarf þó ekki að vera það, er mun frekar til marks um tíðarandann og vekur okkur einnig til umhugsunar um okkar eigin tíma, um hvað hefur breyst og um stöðu listakvenna í dag.

Hrafnhildur hefur af mikilli elju og á löngum tíma náð að safna saman ótrúlega miklu af verkum kvennanna tíu, verkum sem hafa fundist aðallega hjá ættingjum enda flest unnin sem gjafir eða hafa erfst og geymst. Framsetning Hrafnhildar er hugvitssamleg og leikræn, það er líkt og áhorfandinn gangi aftur í tímann. Konurnar eru allar kynntar á svipaðan máta og þannig gert jafn hátt undir höfði. Á veggjum salarins gefur að líta myndverk þeirra en persónulegri muni eins og skissubækur, skartgripi, útsaum eða annað er að finna í glerskápum, einn fyrir hverja. Ljósmyndir af konunum eru prentaðar við hvern skáp og hverri konu er eignaður stóll, tyllistóll frekar en hægindastóll enda eru slíkir stólar jafnan kallaðir húsbóndastólar. Á stólunum hefur verið komið fyrir útsaumshring og í hann strekktur dúkur með áprentuðu nafni hverrar þeirra, eins og til að undirstrika þann ramma sem líf þeirra var þvingað í. Stórar ljósmyndir sýna stofur heldri borgara frá þessum tíma og tengjast sýningunni á lifandi máta. Þá má ekki gleyma píanótónlistinni sem fyllir salinn og minnir á kröfurnar sem þurfti að uppfylla, en vísast hafa margar þessar kvenna sem voru dætur heldri borgara, eytt ótöldum stundum við píanóið, tónlistin er punkturinn yfir i-ið á því borgaralega og menningarlega andrúmslofti aldamótanna sem Hrafnhildur sækist eftir að kalla fram.

Kallar á umritun listasögunnar

Verk þessara kvenna sem allar stunduðu myndlist erlendis en engin þeirra gerði hana að ævistarfi eru misjöfn en bera öll vott um allnokkra hæfileika og sumar þeirra voru augljóslega mjög hæfileikaríkar. Hefðu þær verið karlmenn er engin spurning að frumkvöðlarnir okkar svokölluðu hefðu verið fleiri. Einn af mikilvægustu þáttum sýningarinnar og bókarinnar er einmitt sá að hér kemur vel fram að fleiri Íslendingar lögðu stund á myndlist í lok nítjándu aldar en almennt er nefnt. Þannig lagði Kristín Vídalin stund á nám við Listaakademíuna í Kaupmannahöfn á undan þeim Einari, Þórarni og Ásgrími. Hún þurfti að hverfa frá námi vegna veikinda og síðar giftist hún og lagði listina á hilluna. Myndverk hennar hér bera afar miklum hæfileikum vitni. Sama má segja um myndir Kristínar Þorláksdóttur, óvenju margar frummyndir eru til eftir hana en á þessum tíma voru eftirmyndir málverka mjög vinsælar. Kristín þurfti hins vegar að hverfa frá námi til að taka við umsjón heimili systur sinnar og tveimur börnum eftir lát hennar af barnsförum. Hún er að mínu mati sú kvennanna sem hefði getað náð hvað lengst og metnað hennar má marka af því að þegar hún sá fram á að geta ekki stundað listina að fullu kaus hún frekar að hætta. Þannig má áfram telja og tíunda líf og listir þessara hæfileikaríku myndarkvenna en ég mæli eindregið með heimsókn á þessa sýningu.

Fyrirmyndir þessara kvenna voru aðrar en okkar í dag, væntingar þeirra aðrar og erfitt er að meta vonbrigði þeirra með að geta ekki sinnt list sinni. Áföll þeirra í lífinu voru mörg og misjafnleg, þær lifðu tam. á tímum þegar barnadauði var mun hærri en nú. Tímarnir eru breyttir sem betur fer og í stað þess að jesúsa sig yfir órættlæti og glötuðum hæfileikum er áhugaverðara að sjá hvernig sköpunin átti þrátt fyrir allt alla tíð stóran þátt í lífi þessara kvenna, það er ekki hægt að halda góðum manni niðri eins og sagt er. Ekki síst kallar sýningin á umskrifun listasögunnar.

Ímynd og staða listakvenna í dag

Mikilvægi sýningar Hrafnhildar felst einnig í því að beina sjónum okkar að samtímanum, að fyrirmyndum listakvenna í dag, ímynd þeirra og sjálfsmynd. Þeim er ekki lengur fyrst og fremst innprentað að vera myndarlegar, en hver er sjálfsmynd þeirra og hvaða ímynd hafa þær?

Bandaríska listakonan Barbara Krugar hefur lengi barist hatrammlegri jafnréttisbaráttu og eitt af slagorðum hennar er mjög lífseigt: "We won´t play nature to your culture." Við ætlum okkur ekki hlutverk náttúrunnar í menningu ykkar, en slíkt hefur hlutverk kvenna einmitt verið í gegnum aldirnar. Skyldi það vera það enn í dag? Byggja listakonur ímynd sína kannski enn á sterku innsæi og tengslum við náttúruna? Eru þær eins og kraumandi eldfjöll? Gaman væri að sjá úttekt á ímynd íslenskra listakvenna í dag, í öllum listgreinum. Ganga þær fyrir innsæinu? Eru þær eins og náttúruafl? Hvað með lýsingarorð á borð við rökhyggju, staðfestu og nákvæmni? Eru það kannski ekki kvenlegir eiginleikar?

Skýrasta dæmið um stöðu kvenna í íslenskum myndlistarheimi er auðvitað að finna í safninnkaupum, þegar kemur að aurunum sjáum við hvernig landið liggur. Áslaug Thorlacius formaður SÍM hélt tölu við opnun sýningarinnar Huldukonur. Þar sagði hún m.a: "Af þeim 550 félagsmönnum sem í dag eru í Sambandi íslenskra myndlistarmanna eru rúmlega 400 konur eða tæp 73%. Þó margt hafi þokast fram á við síðustu ár eru innkaup listasafnanna síður en svo í samræmi við þessar staðreyndir. Ég minni á að sterk tengsl eru milli safneignar listasafna og þess hvernig listasagan er skrifuð.

Á síðustu fimm árum festi Listasafn Íslands kaup á 46 verkum eftir konur en 64 eftir karla. 28% fleiri verk voru keypt af körlum en konum. Fyrir verk kvennanna voru greiddar 16,5 milljónir en rúmar 34 milljónir fyrir verk karlanna. Meðalverð fyrir verk eftir konu er tæplega 360 þúsund á móti rúmum 530 þúsundum fyrir verk eftir karl. Munurinn er í kringum 30%.

Hjá Listasafni Reykjavíkur hafa síðustu 3 ár verið keypt 33 verk eftir konur en 69 eftir karla. 52% fleiri verk voru keypt af körlum en konum. Fyrir verk kvennanna voru greiddar 9,6 milljónir en rúmar 25,5 milljónir fyrir verk karla. Meðalverð fyrir verk eftir konu er 290 þúsund en 370 þúsund fyrir verk eftir karl. Munurinn er í kringum 22%. Bæði söfn settu að vísu fyrirvara um hugsanlega ónákvæmni. En þetta er svona um það bil og munurinn er sláandi.

Það er ágætt að hafa þessar tölur í huga þegar sýningin Huldukonur er skoðuð.

Ragna Sigurðardóttir