Aðventan og jólahátíðin eru mörgum tími mikils álags þar sem daglegar venjur fara verulega úr skorðum. Mannlífið einkennist af ys og þys og alls kyns áreiti frá umhverfinu og oft erum við tilbúin til þess að leggja mikið á okkur, jafnvel óeðlilega mikið. Sumir spenna bogann of hátt, setja sér óraunhæf markmið og kvíði fer þá að gera vart við sig, með tilheyrandi svefnleysi, áhyggjum og óróa.
Brestir í vina- og fjölskylduböndum
Að baki jólakvíða geta einnig legið aðrar ástæður sem ekki verður við ráðið, s.s. ástvinamissir, skilnaður, áfengisvandamál eða slæmar minningar. Þannig geta jólin orðið dapurleg og einmanaleg í hugum margra. Á jólunum leggjum við okkur flest fram um að gleðja okkar nánustu og njóta samvista við þá. Við hugsum til fjarskyldra ættingja og vina og sendum þeim jólakveðju. Hins vegar verða oft ósætti og óuppgerðir hlutir þess valdandi að skuggi fellur á þá viðleitni okkar að öðlast gleði og frið á hátíð ljóssins, í sátt og samlyndi við guð og menn. Við stöldrum við fortíðina, í stað þess að njóta dagsins í dag, og ölum á neikvæðum hugsunum tengdum atburðum sem orðið hafa þess valdandi að brestir hafa komið í fjölskyldu- og/eða vinabönd. Oftast nær atburðir sem engu máli skipta þegar upp er staðið.Því er vel við hæfi að hugleiða eftirfarandi heilræði úr bókinni Leiðin til lífshamingju eftir Dalai Lama: "Ef við ölum á hatri eða illvilja í garð einhvers, ef við erum uppfull af neikvæðum tilfinningum, virðast okkur aðrir líka fjandsamlegir. Það eykur á ótta, hömlur, efasemdir og óöryggi. Þessar tilfinningar magnast og menn verða einmana í heimi sem þeir skynja sem sér fjandsamlegan. Rót slíkra tilfinninga er hatur. Hins vegar er hugarástand sem felur í sér góðvild og samhygð afar jákvætt. Slíkt er afar uppbyggjandi.
Endurheimtum gamla vináttu
Ef við gerum raunhæfar kröfur til okkar sjálfra í jólaundirbúningnum og setjum markið ekki of hátt verða verkin létt og skemmtileg. Þennan tíma eigum við líka að nota til að minna okkur á hvað okkur er mikilvægt í lífinu og þá um leið að rækta samband við þá sem okkur þykir vænt um. Er ekki einmitt núna kominn tími til að brjóta odd af oflæti sínu og leysa úr gömlum flækjum? Flækjur, sem engu máli skipta lengur - og gerðu það kannski aldrei - og endurheimtum glötuð vináttu- og ættartengsl. Svo vitum við heldur ekki hvort við fáum annað tækifæri til þess - enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Og um leið og við stígum þetta skref þá erum við að stuðla að okkar eigin vellíðan sem og þeirra sem við erum í sambandi við.
Guðrún Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri Geðræktar, Lýðheilsustöð.